Refsiaðgerðir Biden fundaði í vikunni með Júlíu, ekkju Navalnís.
Refsiaðgerðir Biden fundaði í vikunni með Júlíu, ekkju Navalnís. — AFP/Hvíta húsið
Joe Biden Bandaríkjaforseti tilkynnti í gær nýjar refsiaðgerðir Bandaríkjastjórnar gegn Rússum vegna innrásar þeirra í Úkraínu. Var rúmlega 500 fyrirtækjum og einstaklingum bætt á svartan lista Bandaríkjamanna, og sagði Biden tilgang aðgerðanna að…

Joe Biden Bandaríkjaforseti tilkynnti í gær nýjar refsiaðgerðir Bandaríkjastjórnar gegn Rússum vegna innrásar þeirra í Úkraínu. Var rúmlega 500 fyrirtækjum og einstaklingum bætt á svartan lista Bandaríkjamanna, og sagði Biden tilgang aðgerðanna að auka þrýsting á Rússa og að stöðva „stríðsvél“ Pútíns Rússlandsforseta.

Þetta eru mestu einstöku refsiaðgerðir Bandaríkjastjórnar frá upphafi innrásarinnar, en að þessu sinni er spjótum Bandaríkjanna beint sérstaklega að Mír, kreditkortakerfi Rússa, sem sett var upp í þeim tilgangi að aðskilja Rússland frá þeim kerfum sem reiða sig á Vesturveldin.

Þá sagði í tilkynningu frá fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna að ýmsir fjárfestingasjóðir og héraðsbankar væru nú á svarta listanum, en aðgerðum gegn þeim er ætlað að vega enn frekar að bankakerfi Rússa. Bandaríkjastjórn ætlar einnig að setja útflutningshömlur á um 100 aðila, sem sakaðir eru um að hafa aðstoðað Rússa við að komast fram hjá fyrri refsiaðgerðum.

Á meðal þeirra sem lentu á svarta listanum eru þrír embættismenn í fangelsiskerfi Rússa, sem sagðir eru hafa átt þátt í illri meðferð á stjórnarandstæðingnum Alexei Navalní, sem lést í síðustu viku, og eru aðgerðirnar hugsaðar sem refsing fyrir andlát hans.

Núverandi aðgerðir munu ekki fela í sér að fjármunir sem tilheyra rússneskum aðilum verði gerðir upptækir og afhentir Úkraínu, en Wally Adams aðstoðarfjármálaráðherra sagði Bandaríkjastjórn ræða ýmsar aðgerðir við bandamenn sína, og að ekkert yrði aðhafst í þessa veru nema í samfloti með þeim.