— Morgunblaðið/Ómar
Um þessar mundir er unnið að endurskoðun á og mótun framtíðarsýnar fyrir vef Alþingis. Tilkynning um þetta var birt á vefnum í gær. Helsta markmið verkefnisins er að gera vefinn notendavænni og aðgengilegri fyrir fjölbreyttan hóp notenda

Um þessar mundir er unnið að endurskoðun á og mótun framtíðarsýnar fyrir vef Alþingis. Tilkynning um þetta var birt á vefnum í gær.

Helsta markmið verkefnisins er að gera vefinn notendavænni og aðgengilegri fyrir fjölbreyttan hóp notenda. Ráðgert er að nýr vefur líti dagsins ljós á árinu 2025.

Ráðgjafarfyrirtækið Sjá hefur umsjón með gerð og úrvinnslu könnunarinnar í samstarfi við vefteymi skrifstofu Alþingis. Farið verður með öll svör sem trúnaðarmál og þau eru ekki rekjanleg til einstaklinga, segir í tilkynningunni.

Mikilvægt verði að hafa samráð við helstu hagaðila til þess að fá innsýn í þarfir og kröfur ólíkra hópa sem nota vefinn og er þessi könnun liður í því.

„Sjónarmið notenda eru mikilvæg í þessari vinnu og því er dýrmætt að fá svör frá sem allra flestum,“ segir í tilkynningunni, um leið og notendur eru hvattir til að taka þátt. Það taki aðeins um fimm mínútur að svara könnuninni.

Á vef Alþingis er hægt að nálgast upplýsingar um þingmál, þingskjöl, þingmenn, nefndir, alþjóðamál og almennar upplýsingar um sögu og störf Alþingis og fleiri atriði. Þar má einnig lesa og hlusta á ræður sem alþingismenn flytja í umræðum í þinginu. sisi@mbl.is