Samningur Ulf Kristersson forsætisráðherra Svía og Victor Orbán forsætisráðherra Ungverjalands á blaðamannafundi í Búdapest í gær.
Samningur Ulf Kristersson forsætisráðherra Svía og Victor Orbán forsætisráðherra Ungverjalands á blaðamannafundi í Búdapest í gær. — AFP/Attila Kisbenedek
Ungverjaland hefur gert samning við sænsk stjórnvöld um að kaupa fjórar sænskar Griphen-orrustuflugvélar. Þetta var tilkynnt eftir viðræður Viktors Orbáns forsætisráðherra Ungverja og Ulfs Kristerssons forsætisráðherra Svía í Búdapest í gær

Ungverjaland hefur gert samning við sænsk stjórnvöld um að kaupa fjórar sænskar Griphen-orrustuflugvélar. Þetta var tilkynnt eftir viðræður Viktors Orbáns forsætisráðherra Ungverja og Ulfs Kristerssons forsætisráðherra Svía í Búdapest í gær.

„Í dag höfum við náð samkomulagi um að bæta við fjórum flugvélum í Griphen-varnarflotann,“ sagði Orbán eftir fundinn með Kristersson í gær. „Á mánudaginn mun þingið koma saman og taka nauðsynlegar ákvarðanir og þar með höfum við lokið þessum áfanga og hafið nýjan,“ bætti hann við.

Litið er á þennan samning sem lokaskrefið í því ferli að fá Ungverja til að samþykkja umsókn Svía um aðild að Atlantshafsbandalaginu, NATO. Ungversk stjórnvöld hafa tafið aðildarferli Svíþjóðar og sakað sænska embættismenn um fjandsamlega afstöðu til Ungverjalands eftir að Svíar gagnrýndu stöðu lýðræðis þar.

Ungverjar eru fyrir með 14 Jas-39 Gripen-orrustuflugvélar í flugher sínum á kaupleigusamningi, sem gerður var árið 2001 og hefur verið endurnýjaður tvívegis síðan. Fram kom í sænska blaðinu Dagens Nyheter í gær, að þótt Orbán hafi tengt þennan nýja samning við aðildarumsókn Svía hafi viðræður um flugvélarnar staðið yfir frá árinu 2021, áður en Svíar sóttu um aðild að NATO.

„Viðræðurnar hafa verið uppbyggilegar,“ sagði Kristersson á blaðamannafundi eftir viðræðurnar við Orbán. „Við erum ekki sammála um allt en við erum sammála um að við eigum að vinna meira saman á þeim sviðum þar sem hagsmunir eru sameiginlegir.“

Kristersson sagði við sænska fjölmiðla fyrir heimsóknina til Ungverjalands að hann ætlaði ekki að taka þar þátt í neinum samningaviðræðum um umsóknina enda væri ekkert til að semja um. Hins vegar hefðu þessar þjóðir ýmislegt að ræða um.

Fyrr í gær sagði Orbán við ungverska ríkisútvarpið að enn þyrfti að leysa úr nokkrum tvíhliða hernaðarlegum málum áður en ungverska þingið gæti lagt lokahönd á staðfestingu aðildar Svía að NATO.

„Við styðjum frið en Svíar styðja hernað í deilu Rússa og Ungverja,“ sagði Orban en bætti við að hægt væri að brúa bilið milli þessara ólíku gilda.

Ungversk stjórnvöld hafa dregið það í eitt og hálft ár að samþykkja umsókn Svía að NATO en hafa sætt vaxandi þrýstingi af hálfu Bandaríkjanna og annarra Evrópusambandsríkja um að ljúka staðfestingarferlinu.

Orbán sagði í síðustu viku að málið væri í réttum farvegi. Flokkur hans, Fidesz, sem hefur meirihluta á ungverska þinginu ásamt samstarfsflokknum KDNP, gaf til kynna fyrr í þessari viku að hann myndi styðja tillögu um aðild Svía. Allir aðrir flokkar á ungverska þinginu utan einn styðja aðildarumsóknina. gummi@mbl.is