Kjartan Eggertsson
Kjartan Eggertsson
Komið er fram við eyjamenn eins og þeir séu þjófsnautar.

Kjartan Eggertsson

Í kröfugerð óbyggðanefndar og fjármálaráðuneytisins á hendur eigendum eyjanna á Breiðafirði opinberast siðferðisbrestur sem hrjáir að því er virðist hluta lögmannastéttar þessa lands, þar á meðal starfsmenn fjármálaráðuneytisins og löglærða alþingismenn. Starfsmenn ráðuneytisins sem og óbyggðanefndar eru lögmenn.

Gerð er krafa um að eigendur eyjanna sanni að þeir séu eigendur. Í upphafi þjóðlendumála var hugmyndin sú að óbyggðir á hálendinu væru skilgreindar sem þjóðlendur og komið á hreint hvað væri afréttur og hvað væri eignarland. Á Breiðafirði er enginn afréttur, sjórinn er þjóðlenda og engin vafamál um landamerki, enda eru eyjarnar umflotnar sjó allan hringinn. Í upphafi þjóðlendumála var ekki gerð krafa til þeirra jarða sem ekki höfðu landamerki að óbyggðum eða afrétti á hálendinu. Það eru því ekki rök að það sé óhjákvæmilegt að fara fram með þessa kröfu á hendum eigendum eyja við strendur landsins á þeirri forsendu að gæta þurfi jafnræðis.

Hinu opinbera dettur það í hug að krefja eigendur eyja um sönnun um eignarhaldið og hóta að taka til sín eyjar ef þessu er ekki sinnt. Í flestum tilfellum þurfa eigendur að sækja sannanirnar um eignarhaldið til hins opinbera, þ.e.a.s. til þess aðila sem hér heimtar sannanir. Komið er fram við eyjamenn eins og þeir séu þjófsnautar.

Í flestum tilfellum eru grunaðir afbrotamenn ásakaðir fyrir brot á lögum þegar lögreglan hefur sannanir í höndunum. Í þessu tilfelli er sönnunarbyrðinni snúið við.

Talsmaður óbyggðanefndar hélt því fram í útvarpi að órói á meðal eyjamanna væri óþarfur, það væri bara gott að fá allt á hreint um eignarhaldið. En það er óvart allt á hreinu með eignarhaldið, þannig að krafa ráðuneytisins og óbyggðanefndar er óþörf en hefur í för með sér alls konar leiðindi og aukin útgjöld ríkisins, kostnað fyrir eyjabændur og áhyggjur.

Versta tilfinningin er að uppgötva alræðishyggjuna hjá hinu opinbera og fasísk vinnubrögð. Ef það væru stríðstímar og ríkið þyrfti að yfirtaka eignir tímabundið í þágu þjóðarinnar, þá væri þetta skiljanlegt, en það eru óvart engir stríðstímar hér á landi.

Við þekkjum þessi vinnubrögð frá tímum Geirfinnsmálsins. Þar voru ungmenni dæmd fyrir morð án þess að nokkurt lík væri til staðar, ekkert morðvopn og enginn morðstaður. Ég veit ekki til þess að samtök lögmanna hafi mótmælt starfsaðferðunum eða þeim dómum. Sama er upp á teningnum í máli fjármálaráðuneytisins og óbyggðanefndar í þessum gerningi gagnvart eyjabændum, – hér er bara skáldað um þjófnað, sem allir sjá að hefur aldrei átt sér stað og hafi menn ekki ótvíræðar sannanir um að þeir séu ekki þjófsnautar er eignin tekin af þeim, þó svo hið opinbera hafi allt í höndunum um sannleikann í þessu máli en virðist ætla að liggja á gögnum, því sannarlega eru þau gögn öll til og lögmenn ráðuneytisins hafa aðgang að þeim.

Í raun eru hafin réttarhöld. Eyjamenn hafa verið settir í fangelsi og geta ekki framkvæmt, lagt í fjárfestingar eða sinnt þeim búskap sem þeir hafa sinnt hingað til nema með óbragð í munni.

Vill hið opinbera, fjármálaráðuneyti og Alþingi ekki bara draga þessa kröfu til baka? Lögin voru endurskoðuð af núverandi þingmönnum 2020 og eru því á ábyrgð starfandi þings. Eyjafólk alls staðar á landinu mun ekki launa Alþingi þennan greiða ef menn bregðast ekki við.

Höfundur er eyjabóndi á Breiðafirði.