Aðalsteinn Jónatansson fæddist í Vestmannaeyjum 2. nóvember 1958. Hann lést í faðmi fjölskyldunnar á heimili sínu í Ocala í Flórída, Bandaríkjunum, 15. febrúar 2024 eftir stutta baráttu við krabbamein.

Hann var sonur hjónanna Jónatans Aðalsteinssonar, f. 1931, d. 1991, og Önnu Sigurlásdóttur, f. 1933, d. 2010. Systkini Aðalsteins eru Sigþóra Jónatansdóttir, f. 1953, maki Gísli Eiríksson, f. 1951, og Þór Vilhelm Jónatansson, f. 1973, maki Eva Hrönn Guðnadóttir, f. 1976.

Aðalsteinn ólst upp í Vestmannaeyjum þar sem hann vann við ýmis störf. Hann átti og rak húsgagnaverslunina Reynistað ásamt móðurbróður sínum þar til hann kynntist Þóru Björgu og fluttist með henni til Bandaríkjanna árið 1988. Þau bjuggu lengst af í Riverside í Kaliforníu og ólu þar upp dætur sínar. Þau fluttu svo búferlum til Ocala í Flórída síðla árs 2019.

Eftirlifandi eiginkona Aðalsteins er Þóra Björg Thoroddsen, viðskipta- og hagfræðingur, f. 23.9.1962. Foreldrar hennar eru Magnús Thoroddsen, f. 1934, d. 2013, og Sólveig Kristinsdóttir Thoroddsen, f. 1935.

Aðalsteinn og Þóra Björg eignuðust tvær dætur. Þær eru: Sólveig Anna, f. 1994, maki Rachel Briscoe, f. 1994, og Kristín Björg, f. 2000. Aðalsteinn eignaðist son með Huldu Sveinbjörgu Gunnarsdóttur, Gunnar Þór, f. 1981, d. 2023. Gunnar Þór átti þrjú börn, Almar Leó, f. 2009, Loga Mikael, f. 2016, og stjúpdótturina Lindu, f. 2004.

Útför Aðalsteins fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 24. febrúar 2024, og hefst athöfnin kl. 14.

Það er ekki enn orðið raunverulegt að þú sért farinn. Takk fyrir að vera besti pabbi í heiminum. Þú kenndir okkur að elska fótbolta, spila „pool“ og að elda. Þú varst alltaf hrókur alls fagnaðar, sást til þess að allir væru pakksaddir og með drykk í hendi. Þú varst fastakúnninn á veitingastöðunum sem allir elskuðu og varst svo góður við alla. Við vitum ekki hvern við eigum að hringja í núna þegar okkur vantar hjálp við að elda eða þegar við munum ekki hve langan tíma það tekur að sjóða egg. Við munum alltaf muna það að þegar við sögðum að einhver matartegund væri núna nýja uppáhaldið okkar var búrið stútfullt af henni næst þegar við komum í heimsókn.

Við erum svo heppnar að hafa átt pabba sem elskaði okkur nákvæmlega eins og við erum og hvatti okkur til að vera besta útgáfan af okkur sjálfum. Pabba sem meira að segja fékk sér húðflúr í stíl við okkar til þess að sýna okkur hversu heitt hann elskaði og studdi okkur. Þú kenndir okkur að vera ekki stressaðar yfir litlu hlutunum og sagðir alltaf „þetta reddast“.

Sólveig Anna og Kristín Björg.

„Siglfirðingar munu fjölmenna við jarðarför Aðalsteins Jónatanssonar í dag, því með honum er genginn góður drengur, sem verður minnisstæður hverjum þeim sem þekktu hann.“ Þessi orð birtust í minningargrein árið 1960 um afa okkar, Aðalstein Jónatansson frá Siglufirði, alnafna Alla. Ef maður skiptir bara út bæjarheitinu fyrir Vestmannaeyjar þá eiga þessi orð jafn vel við í dag um Alla bróður. Allir sem þekktu Alla vita að hann var einstaklega góður drengur og verður minnisstæður hverjum þeim sem þekkti hann um ókomin ár.

Það eru margar góðar sögur og fallegar minningar sem koma upp í hugann enda mjög stór karakter og mikil fyrirmynd í huga litla bróður. Einhverjar sögur verða eflaust sagðar í minningargreinum en þær bestu og dýrmætustu verða þó ekki ritaðar á blað heldur bara sagðar í góðra vina hópum næstu daga, nákvæmlega eins og Alli hefði viljað það. Það kann að hljóma sem mótsögn en Alli var ekki mikið fyrir athygli en náði samt alltaf að vera hrókur alls fagnaðar hvert sem hann fór. Það er ég líka viss um að nú eru þau samankomin, Alli, mamma og pabbi, ásamt öfum okkar og ömmum, Gunnari Þór syni hans, Ernu frænku, Lása frænda og fullt af öðrum ættingjum og vinum. Hvar sem þau eru, þar er gaman, því ef það er ekki gaman þá er bara leiðinlegt og ég man ekki til þess að það hafi nokkurn tíma verið leiðinlegt í kringum Alla bróður. Takk fyrir allt, elsku bróðir minn.

Bless og góða ferð, faðmaðu mömmu og pabba frá mér.

Þór Vilhelm Jónatansson.

Þegar ég ímynda mér hvernig besti frændi sem ég gæti hugsað mér væri, þá sé ég fyrir mér Alla. Þó að við værum ekki blóðskyld, heldur tengd fjölskylduböndum, þá gerði hann allt fyrir mig og fyrir alla sem honum þótti vænt um. Sumrin sem við fjölskyldan eyddum í Kaliforníu voru draumi líkust og Alli átti svo stóran hlut í að gera þau yndisleg. Hann eldaði höfðinglegan mat á hverju kvöldi, fór með okkur hvert sem við vildum, passaði upp á okkur krakkana og sá til þess að við skemmtum okkur öll saman í gegnum grín og glens. Eitt af þeim fjölmörgu dæmum sem sýna hvað hann gerði allt fyrir alla var t.d. þegar foreldrar mínir höfðu keypt risastóran snjókallabangsa fyrir mig á Havaí en skilið hann eftir úti þar sem þetta flikki komst ekki í neinar töskur. Auðvitað kom Alli þá með hann óvænt heim fyrir mig næst þegar hann kom til Íslands og gladdi litlu frænku sína óendanlega mikið, eins og hann gerði alltaf. Elsku besti Alli frændi, ég mun sakna þess svo að hlæja og grínast með þér en minningarnar sem við sköpuðum saman munu lifa með mér ævilangt. Takk fyrir að hugsa svona vel um okkur öll.

Þín frænka,

Hera.

Ég kynntist Alla mági mínum í fyrsta skipti árið 2004 þegar Þór minn og ég fórum í heimsókn til Riverside í Kaliforníu að heimsækja bróður hans sem hann hafði mikið talað um og sagt mér fræknar sögur af. Á móti okkur tók hiti, sól, pálmatré, appelsínuekrur og Alli og Þóra Björg. Þau tóku mér eins og þau hefðu alltaf þekkt mig og mér fannst ég verða partur af fjölskyldunni frá fystu stund.

Alli var heimavinnandi faðir þar sem Þóra Björg var útivinnandi og oft á ferðalögum vegna vinnu. Hann sá um öll þau hundrað þúsund verkefni sem fylgja því að reka heimili, ala upp börn og passa upp á að allir hafi allt sem þeir þurfi. Hann sinnti því starfi af mikilli ábyrgð og honum tókst vel upp – stelpurnar hans og Þóru, Sólveig og Kristín, hafa í dag báðar menntað sig á mismunandi sviðum og starfa við það sem þær hafa ástríðu fyrir, eru sjálfstæðar með sterkar skoðanir. Þær eru jákvæðar og finna það góða í öllu, sem þær hafa frá Þóru mömmu sinni og eru með kaldhæðinn húmor sem þær hafa frá pabba sínum. Þessar flottu konur, ásamt Þóru Björgu, verða vinkonur mínar og yndislegar ská-frænkur til æviloka.

Við Alli vorum ekkert alltaf sammála. Hann gat alveg gert mig gráhærða með dálæti sínu á Bush og Trump og ég held að hann hafi haft lúmskt gaman af því að hleypa fólki upp í æsing. Það eru ekki margir sem hafa náð mér á háa C-ið í pólitísku rifrildi eða rökræðum en hann Alli náði mér nokkrum sinnum upp. Það lá þó aldrei djúpt á ágreiningi og það fóru alltaf allir sáttir að sofa og daginn eftir var eins og ekkert hefði gerst.

Það var sterkur strengur á milli bræðranna Þórs og Alla. Þór átti fyrirmynd í stóra bróður og það var dýrmætt að ná að fara árlega frá árinu 2014 í heimsókn til Alla og Þóru til að halda í góðu tengslin og vera saman. Í hvert einasta skipti var Alli höfðingi heim að sækja. Alltaf að passa upp á að allir hefðu það sem best og að engan vantaði neitt og þá aðallega í glasið sitt. Það mátti alls ekki vera hálftómt því eins og allir vita er glasið alltaf best hálffullt.

Það var mikil gjöf fyrir okkur Þór að komast til Ocala í Flórída í síðustu viku og kveðja minn eina og besta mág. Eftir skammvinn veikindi var það mildi að hann fékk að kveðja í faðmi fjölskyldunnar á heimili sínu. Tíminn sem við áttum saman með Þóru og stelpunum dagana á eftir mun seint gleymast og styrkti tengsl okkar sem fjölskyldu. Elsku Alli minn, þú heldur uppi góðu fjöri, hvar sem þú ert – takk fyrir að vera vinur minn og mágur, þín verður sárt saknað.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Eva Hrönn Guðnadóttir.

Aðalsteinn Jónatansson, Alli svili minn, lést þar sem hann kaus helst, heima við í faðmi fjölskyldunnar. Vestmannaeyingnum sem elti drauminn í Ameríku tókst mætavel að upplifa hann með henni Þóru Björgu sinni. Þau gerðu allt saman, a til ö, og nutu þess til hins ýtrasta, eignuðust yndislegar dætur og áttu mjög hamingjusamlegt hjónaband.

Sérstakt var að horfa til þess að Alli sinnti föðurhlutverkinu að fullu leyti og gekk þannig gegn staðalímyndum á sínum tíma, þar sem verkaskipting hjónanna var þannig að Þóra Björg var gjarnan á þeytingi í endurskoðunarstörfum sínum á meðan Alli sá um svo margt á myndarlegum heimilum þeirra, aðallega í Kaliforníu framan af, mest í Riverside, en síðan í Ocala í Flórída. Alli var alltaf tilbúinn að sinna dætrunum Sólveigu Önnu og Kristínu Björgu, enda umhyggjusamur og greiðvikinn með afbrigðum, sem við Gerður og börnin fengum svo oft að njóta í tíðum heimsóknum okkar til þeirrar góðu fjölskyldu.

Mikið tilhlökkunarefni var á hverju vori hjá okkur að stefna til þeirra í Ameríku. Ætli Alli kokkur eigi ekki góðan þátt í því, alltaf að bregða upp góðum réttum eða að prófa nýjar uppskriftir? Seinni árin í Flórída voru kokkaþættir farnir að yfirgnæfa Fox News á stóra sjónvarpsskjánum, þannig að Alli þekkti eflaust flest í nútíma fjölþjóðakokkamennsku. Það bætist við heimsóknir til fjölmargra góðra veitingastaða, sem dýpkuðu þekkinguna á góðum mat og vínum.

Varla er hægt að ræða um Alla nema minnast á hundana góðu sem fylgdu honum alla tíð. Ég man helst eftir Magic, þeim gæðahundi sem varð fjörgamall. Nú og svo Millý pínulitla, sem nú lifir húsbónda sinn í ellinni og heldur áfram lífinu með hinum húsbónda sínum, Þóru Björgu.

Alli var hægrisinnaður með sterkar skoðanir, en þröngvaði þeim ekki upp á fólk, heldur hélt áfram að vera sá sjálfstæði Vestmannaeyingur sem hann hafði alltaf verið. Hann bar ekki tilfinningar sínar á torg, en var því meir umhugað um það hvernig náunginn hefði það. Vinir hans urðu traustir alla tíð og vissu það að þessi hjálplegi maður myndi aldrei bregðast þeim. Mín upplifun var líka þannig og er ég þakklátur Alla fyrir allt sem hann og Þóra Björg hafa gert fyrir mig og mína fjölskyldu. Nú er góður maður genginn, en skilur eftir sig minningar sem aldrei gleymast okkur. Guð blessi hann, Þóru Björgu, Sólveigu Önnu og Kristínu Björgu um alla tíð.

Ívar Pálsson.

Það er sárt að hugsa til þess að Alli frændi sé farinn. Táknrænt að hann hafi kvatt sama dag og Sara mín yndislega kvaddi tveimur árum áður. Alli í Ameríku sem alltaf hringdi þegar hann var staddur á landinu og vildi hitta mig. Með eindæmum stríðinn og ófá símtölin sem byrjuðu á „Góða kvöldið, þetta er hjá lögreglunni í Reykjavík“ … löng bið og svo kvað við skellihlátur. Alli var hrókur alls fagnaðar.

Þau alltof fáu skiptin sem ég mætti á ættarmót voru þannig að aðaltraffíkin var í kringum tjaldið hjá Alla og mesta fjörið þar sem hann bauð af rausnarskap úr ferðabarnum og reytti af sér brandarana og skellihló. Alltaf hress og kátur. Okkar vinskapur nær aftur til barnæsku og þannig hefur hann alltaf verið nálægur í mínu lífi. Hér áður fyrr kom hann reglulega í bæinn úr Vestmannaeyjum, hringdi yfirleitt í mig, kannski staddur á Hótel Borg og þar var sko tekið á því og mikið fjör. Yfirleitt voru pantaðar upp á herbergi litlar kókflöskur sem bland, „miklu ferskara bragð“ sagði Alli og hló. Hann var rausnarlegur með afbrigðum og var ekkert til sparað í kringum hann.

Við hringdum hvor í annan reglulega eftir að hann og Þóra fluttu til Bandaríkjanna og héldum góðu sambandi. Fyrir mörgum árum komu Alli og fjölskylda eitt skiptið upp í bústað til okkar. Var grillað og gert vel við sig og inn í fallega júlínóttina sátum við Alli úti í garði, dreyptum á koníaki og ræddum lífsins mál. Þar kynntist ég annarri hlið á Alla, því á bak við hressleikann sem einkenndi hann var viðkvæm og feimin persóna, hlið sem ekki allir vissu um. Mér þótti enn vænna um Alla eftir þá trúnaðarstund. Ég var að vísu lengi að jafna mig eftir þessa koníaksstund en Alli vaknaði ferskur og fínn daginn eftir og skellti sér í heita pottinn. Seinni árin höfum við minna hist eða hringt hvor í annan en alltaf var jafn gaman þegar ég heyrði í Alla og finna hlýjuna og væntumþykjuna sem einkenndi hann. Þau verða ekki fleiri samtölin okkar að sinni og eins og alltaf þegar kemur að kveðjustund, þá saknar maður þess að hafa ekki hist oftar. En lífið vill oft flækjast fyrir manni. Blessuð sé minning Alla, yndislegur vinur og uppáhaldsfrændinn.

Megi góður guð styrkja og blessa fjölskyldu hans. Alla frænda verður sárt saknað.

Viddi frændi,

Viðar Gunnarsson.

Árið 1983 píndi ég Þóru Björgu systur mína til þess að koma með mér til Vestmannaeyja. Sem nýráðinn framkvæmdastjóri SUS var mér falið að fylgja hópi ungra norrænna hægrimanna á ráðstefnu í Eyjum. Við þekktum hvorki erlendu gestina né Eyverjana, ungu sjálfstæðismennina í Eyjum, sem héldu ráðstefnuna. Vel var tekið á móti hópnum að hætti heimamanna og partí fyrsta kvöldið í Eyverjasalnum. Þóra Björg tók að sér að fara á barinn fyrir okkur systurnar. Hún kom aldrei til baka með drykkina því að hún kolféll fyrir barþjóninum, ungum og glæsilegum Eyjapeyja, honum Alla. Hávöxnum og myndarlegum, ljóshærðum og bláeygðum. Hann var hinn vænsti piltur, glaðlyndur, góðhjartaður og mikill húmoristi. Varð þetta upphafið að rúmlega 40 ára farsælu sambandi þeirra. Alli vann fljótt hug allra í fjölskyldunni og var alla tíð sérlega hlýtt á milli hans og tengdaforeldranna.

Í Vestmannaeyjagosinu bjó fjölskylda Alla í Kópavogi en flutti til Eyja strax og hægt var. Alli kunni ekki við sig uppi á landi og eflaust var það meginástæða þess að hann fór ekki í langskólanám, skarpgreindur eins og hann var.

Árið 1984 fórum við Þóra Björg, Alli og ég til Bandaríkjanna að heimsækja Sigga bróður okkar Þóru Bjargar, sem var þar við nám. Alla langaði ekkert til Ameríku, vildi fara í sólarlandaferð, en var ofurliði borinn. Viðhorfið til Ameríku átti heldur betur eftir að breytast. Alli fylgdi Þóru Björgu er hún fór til framhaldsnáms í Kaliforníu árið 1988 og þar festu þau rætur.

Vegna krefjandi vinnu Þóru Bjargar og oft langrar fjarveru frá heimilinu ákváðu þau að Alli gerðist húsfaðir eftir fæðingu yngri dótturinnar. Fórst honum það vel úr hendi. Hugsaði einstaklega vel um eiginkonuna og dæturnar, Sólveigu Önnu og Kristínu Björgu, og ekki má gleyma hundunum Magic og Milley. Þau fluttu í stórt hús í Riverside með stórum garði og stórri sundlaug. Áttu stóran bíl, stórt sumarhús og bát við stórt vatn, Lake Arrowhead. Það er nefnilega allt stórt í Ameríku og Alli hafði stórt hjarta. Hann var einstaklega barngóður, gestrisinn og mikill listakokkur, galdraði fram dýrindis steikur og annað góðgæti. Við systurnar höfum alla tíð verið samrýndar og erfitt var að hafa hana svona langt í burtu. Það var því dýrmætt að geta heimsótt þau og fundist maður alltaf vera velkominn. Börnin okkar vildu helst af öllu dvelja með frændfólkinu í Kaliforníu í sumarfríum enda dekrað við þau og okkur öll.

Alli var alla tíð mikill hægrimaður og lá ekki á skoðunum sínum. Það átti vel við hann að búa í Ameríku, Landi frelsisins. Í lok árs 2019 fluttu þau hjónin frá Kaliforníu til Flórída. Kunni hann vel við þau skipti; fara frá demókrata-, „woke“-ríkinu og flytjast til Flórída enda mikill repúblikani sem trúði á einstaklingsfrelsi og hóflega skattlagningu. Þar fengu þau bandarískan ríkisborgararétt og þar með tvöfalt ríkisfang. Repúblikanarnir nutu þó ekki góðs af, því aldrei náði hann að taka þátt í kosningum.

Kveð ég Alla mág minn með söknuð í hjarta.

Genginn er góður drengur. Hans verður sárt saknað.

Gerður Thoroddsen.

Það var ávallt tilhlökkunarefni að heimsækja Alla og Þóru til Bandaríkjanna, fyrst til Riverside í Kaliforníu þar sem þau bjuggu í yfir 30 ár og svo til Ocala á Flórídaskaganum. En þar ætluðu þau að eyða saman ævikvöldinu, í klúbbhúsinu og á golfvellinum, í yndislegu samfélagi.

Oft varð það þannig að æskuvinkonan datt í vinnutörn og hljóp þá Alli í skarðið fyrir konu sína og tók okkur kerlurnar að sér. Góður vinur. Alli var gestrisinn, greiðvikinn, hjálpsamur, kátur og stríðinn. Sólin skein alltaf og það var alltaf gleði, skálað og hlegið. Hans er sárt saknað.

Elsku Þóra Björg, Kristín Björg, Sólveig Anna og Rachel, og fjölskylda. Missir ykkar er mikill. Megi minningin um góðan mann ylja ykkur um ókomna tíð.

Herdís og Guðrún.

Í júní árið 2006 ákváðum við hjónin ásamt dóttur okkar að halda upp á 50 ára afmæli undirritaðs með því að fara á vesturströnd Bandaríkjanna, m.a. til Los Angeles. Ég vissi að góður kunningi minn og fjölskylda hans byggi í nágrenni Los Angeles og hringdi í hann til að fá upplýsingar um hvar best væri að gista, þ.e. á hvaða hóteli og á hvaða stað. „Þið gistið bara hjá okkur,“ sagði Alli. Þótt ég reyndi að andmæla því þá þýddi það ekki og það endaði með því að Alli og Þóra ásamt dætrum tóku frábærlega vel á móti okkur.

Við Alli kynntumst vel þegar við unnum saman sumarlangt í Kaupfélagi Vestmannaeyja um miðjan áttunda áratuginn. Hann var skemmtilegur náungi og alltaf stutt í hláturinn. Hann féll því vel inn í það góða andrúmsloft sem var í kaupfélaginu á þessum tíma. Þótt hann byggi erlendis í nokkra áratugi þá hittumst við þegar hann kom á goslokahátíðir og á þjóðhátíð. Alltaf kom Alli með góða skapið með sér.

Við Sigurrós vottum Þóru og dætrum ásamt öðrum ættingjum okkar dýpstu samúð við fráfall Alla. Blessuð sé minning góðs drengs.

Sigurjón Ingi Ingólfsson.

Þungt er í sinni og hjarta þegar kvaddur er góður vinur – hann Alli okkar. Tárin læðast fram í augnkrókana þegar hugsanirnar flæða og sorgin fyllir hugann. Hryggð vegna þess að vænn og einstakur drengur skuli hafa verið hrifinn burtu of snemma frá fjölskyldu og vinum sem elskuðu hann. Ásamt trega yfir því að eiga aldrei eftir að njóta húmorsins og léttleikans sem fylgdi honum. En þótt tilfinningar sem þessar séu ofur eðlilegar við slíkar aðstæður, hefði Alli ekki kosið að sín yrði minnst með tárum og trega. Miklu fremur með því að lyfta glasi og gleðjast yfir skemmtilegum minningum. Því Alli var mikill gleðimaður og húmoristi fram í fingurgóma – og stríðinn með afbrigðum. Læddi grafalvarlegur út úr sér bröndurunum og hláturrokurnar voru ófáar í návist hans. Ekki síst var gaman þegar maður sjálfur var brandara- og stríðnisefnið, enda var væntumþykjan ávallt að baki stríðninni. Nú sleppur Alli við að kvíða sárlega tilhugsuninni um hugsanleg húsakaup okkar hjónanna í næstu götu við hann í heimabæ hans, Ocala í Flórída. Þegar það bar á góma á sínum tíma, horfði hann með skelfingarsvip á okkur og sagðist myndu óðar flytja úr landi. Það yrði ekki líft í bænum fyrir kommúnistakerlingum og mjólkurþömburum. En við vissum auðvitað að sá sem best myndi taka á móti okkur væri Alli sjálfur; af sinni einstöku gestrisni, gjafmildi og hlýju. Haldin yrði gleðisamkunda með besta mat og drykk sem völ væri á, þar sem hann myndi hrista höfuðið í frústrasjón yfir þeirri ógæfu sinni að vera nú kominn með enn einn Thoroddseninn ofan í hálsmálið.

Alli var mikill sjálfstæðismaður og hafði sterkar pólitískar skoðanir. Hann var skapmaður og sagði meiningu sína, en með þeim hætti að engan særði. Ég naut þess að ræða pólitík við hann, því við virtum skoðanir hvor annars, þótt hann vitaskuld hristi höfuðið yfir mér í umræðum okkar og ranghvolfdi augunum í uppgjöf yfir því hvernig fyrir mér væri komið í þessum efnum.

Alli var afar hjartahlýr maður og tryggur vinum sínum. Dýravinur var hann einnig og ég minnist þess hversu sárt heimilisvoffinn Millý grét þegar Alli brá sér út í búð. Engu skipti hvernig reynt var að klappa henni og kjassa; hún hékk óhuggandi við hurðina og gólaði eftir pabba.

Þrátt fyrir að vera vinmargur og vinsæll, snerist tilvera Alla þó fyrst og fremst um elskurnar hans. Þóra Björg var ástin í lífi hans og dætrum þeirra tveimur og tengdadóttur var hann einkar umhyggjusamur og góður faðir. Fráfall Gunnars, sonar hans, langt um aldur fram á síðasta ári, var Alla mikill harmur og hefur án efa veikt viðnámsþrótt hans í þeim veikindum sem nú hafa sigrað. En andi Alla verður aldrei sigraður og minning hans mun ávallt skipa heiðurssess í hugum okkar sem þekktum hann og virtum.

Um leið og við hjónin vottum Þóru, Sólveigu, Kristínu og Rachel innilega samúð, biðjum við góðan Guð að umvefja Alla elsku sinni í ríki ljóss og friðar.

Sofðu rótt, kæri vin.

Björg Rúnarsdóttir og Ingimar Örn Jónsson.