Fjölbreytni Kristín R. Vilhjálmsdóttir með hæfileikabörnum úr Hlíðaskóla hér í stiganum í Veröld.
Fjölbreytni Kristín R. Vilhjálmsdóttir með hæfileikabörnum úr Hlíðaskóla hér í stiganum í Veröld. — Morgunblaðið/Eyþór
„Tilgangurinn með þessu starfi er meðal annars sá að börnin geti sýnt í hverju styrkleiki þeirra liggur. Þar er fjöltyngi mikilvægur þáttur,“ segir Kristín R. Vilhjálmsdóttir tungumálamiðlari. Alþjóðadagur móðurmálsins var sl

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Tilgangurinn með þessu starfi er meðal annars sá að börnin geti sýnt í hverju styrkleiki þeirra liggur. Þar er fjöltyngi mikilvægur þáttur,“ segir Kristín R. Vilhjálmsdóttir tungumálamiðlari. Alþjóðadagur móðurmálsins var sl. miðvikudag, 21. febrúar. Af því tilefni var efnt til samstarfs milli Tungumálamiðstöðvar Háskóla Íslands og Hlíðaskóla í Reykjavík. Yfirskrift þess er Menningarmót, það er aðferð til að varpa ljósi á styrkleika og fjölbreytt tungumál og menningarheima nemenda.

Tungur skapa fjölbreytni

Verkefnið Menningarmót hefur Kristín hefur þróað og kynnt í skólum bæði hér heima og í Danmörku. Þar er spurt hve mörg tungumál barna í hverjum bekk séu og hvaða fjölbreytileika þessar tungur skapi. Einnig hvað tungumálin þýði í stóra samhenginu og hvað fái fólk til að skína; hvert og eitt og sem hópur.

„Verkefnið er skapandi leið til að vinna með sjálfsmyndir barnanna. Stórra spurninga er spurt, meðal annars um tungumál sem eru lykill okkar að heiminum,“ segir Kristín. „Í starfi þessu reynum við að horfa fram hjá þjóðernismenningu, enda mótast líf okkar af svo mörgu öðru svo sem áhugamálum og reynslu. Markmiðið er að nemendurnir varpi ljósi á það sem skiptir þau sjálf mestu máli eða vekur áhuga. Slíkt geta til dæmis verið atriði sem tengjast íþróttamenningu, vina- eða fjölskyldumenningu þeirra, uppáhaldsbækur, ljósmyndir, tónlist eða eitthvað sem snertir hjarta þeirra á einhvern hátt.“

Kristín segir starfið í Hlíðaskóla að undanförnu hafa verið áhugavert. Þar vann hún með 70 nemendum í 6. bekk; fjölbreyttum hópi barna sem eiga sér samtals 20 tungumál. Þar má – auk íslensku – nefna arabísku, frönsku, kínversku, króatísku og pólsku. Einnig íslenska táknmálið, en Hlíðaskóli er móðurstöð þess í Reykjavík. Allt tengist þetta svo Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna en eitt þeirra víkur að alheimsvitund og viðurkenningu á fjölbreyttri menningu.

Sólargeisli og hæfileikar

Útkoman úr starfi Kristínar með Hlíðaskólabörnunum var gerð tungumálaregnboga sem í gær var hengdur upp í stiga Veraldar – húss Vigdísar á Melunum í Reykjavík. Þar voru börnin með litla sýningu og kynntu sína persónulegu menningu á skemmtilegan hátt. „Sólargeislinn sem nemendur teiknuðu, ásamt tímalínu tilveru sinnar inn á verkefnin sín, tákna að öll höfum við okkar hæfileika. Styrkleika sem eiga að njóta sín í krafi fjölbreytileikans í fjöltyngdum heimi,“ segir Kristín sem hefur lengst búið og starfað í Danmörku. Hefur þó sinnt mörgu hér heima, svo sem alþjóðastarfi Borgarbókasafnsins í Reykjavík.