— Tölvumynd/JVST Iceland
Reykjavíkurborg hyggst ráðast í umfangsmiklar endurbætur á Grófarhúsi við Tryggvagötu. Það hýsir nokkur af helstu söfnum borgarinnar, þar á meðal Borgarbókasafnið. JVST Iceland ehf. sendi fyrirspurn til skipulagsfulltrúa Reykjavíkur um mögulegar breytingar á Grófarhúsinu samkvæmt innsendri tillögu

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Reykjavíkurborg hyggst ráðast í umfangsmiklar endurbætur á Grófarhúsi við Tryggvagötu. Það hýsir nokkur af helstu söfnum borgarinnar, þar á meðal Borgarbókasafnið.

JVST Iceland ehf. sendi fyrirspurn til skipulagsfulltrúa Reykjavíkur um mögulegar breytingar á Grófarhúsinu samkvæmt innsendri tillögu. Jafnframt var spurt hvort ráðast þyrfti í breytingu á deiliskipulagi. Samtals verður stærð hússins 5.749 fermetrar eftir breytingu, sem er minna en í gildandi deiliskipulagi.

Verkefnastjóra skipulagsfulltrúa var falið að yfirfara erindið. Í umsögn hans kemur fram að í tillögu að stækkuðu Borgarbókasafni sé gert ráð fyrir breyttu þakformi Grófarhúss. Gert sé ráð fyrir tveimur glerjuðum þakhæðum ofan á núverandi þakplötu (að hluta) í stað núverandi þakhæðar ásamt nokkuð yfirgripsmiklum þakgarði og þaksvölum.

Gert sé ráð fyrir hærri þakkóta (efsta þaktoppi) sem nemur um hálfum metra. Breytt og stækkað þakform birtist næst Geirsgötu en dregið er úr fyrirferð þakhlutans við Tryggvagötu. Turnspíra næst Hafnarhúsi verður rifin.

Þá er gert ráð fyrir tveimur göngubrúm yfir húsagötu til móts við Grófina sem ætlað er að tengja starfsemina við Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsi við Tryggvagötu 17.

Þessum atriðum, ásamt breyttu útliti á veggflötum hússins (til fyrra horfs skv. greinargerð), niðurrifi hæða innanhúss, þar sem opnað verður milli hæða við gerð miðlægs aðalsalar „atrium“, og möguleika á breyttum eða fjölgun aðkomuleiða /innganga, skal gera grein fyrir í deiliskipulagsbreytingu. Þá þurfi að gera skuggavarpsgreiningu sem verður auglýst berist umsókn um breytt deiliskipulag.

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í janúar 2023 að umhverfis- og skipulagssviði yrði falið að fylgja eftir áframhaldandi hönnun og framkvæmd vegna vinningstillögu um endurhönnun og stækkun á Grófarhúsi.

Gengið var til viðræðna við þá aðila sem urðu hlutskarpastir í samkeppni sem lauk í nóvember 2022. Tillagan Vitavegur varð hlutskörpust en tillagan er hönnuð af hollensku arkitektastofunni JVST í samstarfi við Inside Outside, Hanrath Architect, Kreatíva teiknistofu, VSÓ Ráðgjöf og Örugg verkfræðistofu.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu 2023 fram fyrirspurn um áætlaðan kostnað við endurbyggingu Grófarhúss, Í svari sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs Reykjavíkurborgar við fyrirspurninni kom fram að kostnaðurinn væri áætlaður 5.450 milljónir króna.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa hvatt til þess að endurbyggingu Grófarhússins yrði frestað og verkefnið endurskoðað vegna bágrar fjárhagsstöðu borgarinnar. Í aðsendri grein eftir Kjartan Magnússon borgarfulltrúa í Morgunblaðinu í júní í fyrra taldi hann að nokkra og dýra þætti vantaði í frumkostnaðaráætlunina. „Ljóst er að heildarkostnaður við verkefnið verður varla undir 10 milljörðum króna,“ sagði Kjartan.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson