Brjóstbirta Aðalleikarar The Holdovers, þau Da'Vine Joy Randolph, Þaul Giamatti og Dominic Sessa.
Brjóstbirta Aðalleikarar The Holdovers, þau Da'Vine Joy Randolph, Þaul Giamatti og Dominic Sessa.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sambíóin Kringlunni The Holdovers ★★★★½ Leikstjórn: Alexander Payne. Handrit: David Hemingson. Aðalleikarar: Paul Giamatti, Da'Vine Joy Randolph, Dominic Sessa og Carrie Preston. Bandaríkin, 2023. 133 mín.

Kvikmyndir

Helgi Snær

Sigurðsson

Bandaríski leikarinn Paul Giamatti er senuþjófur, í sérstöku uppáhaldi hjá mér og ein af mínum uppáhaldsmyndum er Sideways, frá árinu 2004, þar sem Giamatti á stórleik í hlutverki rithöfundar og víngæðings sem orðið hefur undir í lífinu. The Holdovers er verk sama leikstjóra, Alexanders Paynes, og Giamatti á enn á ný frábæran leik, nú í hlutverki Pauls Hunhams, geðstirðs kennara í heimavistarskóla í norðaustanverðum Bandaríkjunum, nærri Boston. Skólann sækja ungir menn sem eiga efnaða foreldra, að því er virðist, og er honum ætlað að búa þá undir háskólanám. Hunham er afar óvinsæll meðal nemenda, jafnvel hataður, enda strangur mjög og óvæginn. Þeir ungu menn sem þurfa að sitja eftir hjá honum eiga því ekki von á góðu og andi jólanna er víðs fjarri. Einn nemandi virðist öðrum betur gefinn, Angus Tully sem er leikinn eftirminnilega af hinum unga og lítt reynda Dominic Sessa. Ljóst er frá fyrstu samskiptum þeirra Hunhams og Tullys að þeir eiga ekki skap saman, báðir andskotanum þrjóskari og styggari. Þessi skapgerðareinkenni bjóða upp á mjög svo spaugileg samskipti og atriði í myndinni og þurfa Hunham og Tully að brjóta odd af oflæti sínu þegar á líður.

Þriðja aðalpersóna myndarinnar er Mary Lamb, leikin af Da'Vine Joy Randolph. Lamb veitir nauðsynlegt jafnvægi í frásögninni, verður rödd skynseminnar í ágreiningi karlanna en hún syrgir eiginmann sinn, nýfallinn í Víetnamstríðinu. Þeir drengir sem eftir eru í skólanum eru nokkrum dögum síðar sóttir, allir nema Angus, sem eykur vanlíðan hans enn frekar.

Sagan hefst rétt fyrir jól 1970 og Payne leggur sig allan fram við að láta myndina líta út fyrir að vera frá þeim tíma með myndsniði, litum og áferð. Kvikmyndin lítur út fyrir að vera tekin á filmu, sem er þó ekki raunin, og vekur það eflaust fortíðarþrá hjá eldri bíógestum. Payne kyndir enn frekar undir henni með broti úr Little, Big Man, kvikmynd Arthurs Penns frá sama ári, 1970, með Dustin Hoffman í aðalhlutverki. Já, svona myndir eru ekki gerðar lengur, eða hvað? Payne gerir vissulega sitt besta til þess og kryddar með tónlist sem er ýmist frá þessum tíma eða hljómar sem slík, sú frumsamda eftir Mark Orton, bráðskemmtileg og áheyrileg.

Þótt myndin sé að stórum hluta dramatísk er hún líka bráðfyndin og grátbrosleg og aldrei finnur maður fyrir því að hún sé löng, þótt hún sé það vissulega. Hún er gerð eftir handriti Davids Hemginsons og persónur hans vel skrifaðar og sannfærandi, lögunum smám saman flett af þeim þar til komið er að brothættum kjarnanum. Mögulega er þó heldur mikið sagt eða afhjúpað, í stað þess að leyfa áhorfendum að geta í eyðurnar, svör veitt við spurningum sem vel hefði mátt sleppa en það kemur þó ekki mikið að sök, þegar á heildina er litið. Og þyki áhorfendum persóna Giamattis kunnugleg er það ekki skrítið því henni svipar um margt til þeirrar sem hann lék í Sideways; hins brjóstumkennanlega andans manns sem hallar sér fullmikið að flöskunni og hefur sannarlega sína djöfla að draga. Manns sem virðist eiga fáa að, ef þá nokkurn.

Aðalleikarar myndarinnar, þau Giamatti, Randolph og Sessa, skila sínu vel og þá sérstaklega Sessa sem er hér í sínu fyrsta kvikmyndahlutverki, ef marka má vefinn Internet Movie Database. Það er í raun lygilegt, svo góður er hann í þessu hlutverki.

The Holdovers er aðeins sýnd í einu bíói þegar þetta er skrifað og sýningar mjög fáar. Það er leitt því þetta er virkilega vönduð kvikmynd sem vonandi nær til sem flestra.