Í Fríkirkjunni Erna og Sigurvin hlakka til að taka á móti fólki og fagna ástinni á morgun á konudeginum.
Í Fríkirkjunni Erna og Sigurvin hlakka til að taka á móti fólki og fagna ástinni á morgun á konudeginum. — Morgunblaðið/Eyþór Árnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þetta er í annað sinn sem við gerum þetta, við gerðum þetta líka í fyrra og það heppnaðist vel. Umgjörðin hér í kirkjunni er falleg og hátíðleg,“ segja þau Sigurvin Lárus Jónsson, prestur í Fríkirkjunni í Reykjavík, og Erna Blöndal söngkona,…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Þetta er í annað sinn sem við gerum þetta, við gerðum þetta líka í fyrra og það heppnaðist vel. Umgjörðin hér í kirkjunni er falleg og hátíðleg,“ segja þau Sigurvin Lárus Jónsson, prestur í Fríkirkjunni í Reykjavík, og Erna Blöndal söngkona, en þau halda utan um stefnumót í Fríkirkjunni á morgun, sunnudag, á konudaginn.

„Stefnumótið er öllum opið og við leggjum áherslu á notalegheit. Við erum svo rík hér í Fríkirkjunni að hafa Gunnar Gunnarsson organista og alla sunnudaga leikur djasskvartettinn Mantra hér undir hans stjórn og mun líka gera það á morgun. Tónlist fer beint í gegnum taugakerfið, hún hrærir við tilfinningum og söngfólkið okkar er allt mikið fagfólk. Sönghópurinn við Tjörnina flytur ljúfa tóna og Erna ætlar að syngja einsöng, sem og fleiri söngkonur úr hópnum. Þær munu að sjálfsögðu syngja ástarlög. Þrenn hjón ætla koma og segja frá sinni hversdagslegu ást og því hvað skipti þau máli, sem hjón. Þau eru öll með löng sambönd að baki og meðal þeirra er eitt samkynhneigt par, enda viljum við endurspegla fjölbreytileika lífsins. Á þessu stefnumóti ætlum við að tala um ástina í hversdeginum, en við sem samfélag erum oft upptekin af því að ástin þurfi að vera upphafin. Vissulega eru uppbrot og stærri stundir fallegar og nauðsynlegar, en það skiptir miklu máli að rækta ástina í hversdeginum. Við þurfum að spyrja okkur að því hvernig við getum mætt maka okkar þannig að hán, hún eða hann skynji þá ást sem er til staðar.“

Ástin er líka vinna og streð

Á stefnumótinu í Fríkirkjunni ætla þau Erna og Sigurvin að bjóða fólki að endurnýja heit sín.

„Við bjóðum þeim pörum sem vilja að koma upp að altari þar sem við spyrjum: Vilt þú halda áfram að elska og virða manneskjuna sem stendur við hlið þér? Þá játast fólk maka sínum aftur og fær blessun. Þetta gerum við án þess að nafngreina fólk og pör geta ákveðið þetta á staðnum, til þess þarf engan fyrirvara. Þetta er tilboð inn í hversdaginn og athöfnin verður umvafin tónlist og kærleika. Með þessu erum við að bjóða fólki að koma og muna töfrana í hversdeginum, að segja með þessum táknræna hætti: „Ég elska þig og vil deila með þér kjörum.“ Ástin er ekki bara rómantík, hún er líka vinna og streð, en þegar fólk er búið að puða mikið og standa saman í því, þá er uppskeran ríkuleg. Það skiptir máli að þakka fyrir samverustundir í hversdeginum, þar sem alvöru töfrarnir eiga sér stað.“

Mánudagsfiskur og tengsl

Þegar þau eru spurð að því hvort þeim finnist að ástin eigi undir högg að sækja í nútíma vestrænni efnishyggju, hraða, tækni og tímaleysi, segir Erna að sannarlega sé ungt fólk undir miklu álagi en á móti komi að fólk sé meðvitaðra en áður um að hlúa að sér. „Við tölum miklu meira um hvernig okkur líður núorðið.“

En hvað með nýjan raunveruleika sem fylgir samfélagsmiðlum, þar sem fólk sviðsetur sig og birtir myndir af hinum „fullkomnu“ hjónum og pörum. Bera ekki margir sig saman við glansmyndir annarra og finnst fyrir vikið stundum ekkert nógu gott í eigin tilfinningasambandi eða aðstæðum?

„Ég finn vissulega fyrir því að unga fólkið sem kemur til mín til að láta gifta sig, það gerir miklar kröfur á sjálft sig, að allt eigi að vera fullkomið og í ákveðnu formi. Við sem erum eldri en tvævetur vitum að eftir að við eignumst börn og þurfum að standa skil á reikningum, þá þarf að breyta forgangsröðinni og við getum ekki farið í ræktina alla daga eða út allar helgar. Án þess að tala gegn því að fólk brjóti upp hversdaginn og birti fallegar myndir úr hjónabandi sínu, þá held ég að hversdagurinn sé svolítið vanmetinn. Ég þekki það sjálfur, þegar ég skildi þá vildi ég hafa börnin aðra hverja viku, af því ég vildi ekki vera helgarpabbi sem missti af mánudagsfiskinum. Af því að á mánudagskvöldum yfir fiski myndast hin raunverulegu tengsl. Þetta er eins í hjónabandi, hjón sem ná að njóta hversdagsins saman eru þau sem eiga farsælt hjónaband. Allir geta verið hamingjusamir í fríi í París, en það er meiri áskorun að njóta virku daganna saman,“ segir Sigurvin og Erna bætir við að í ástarsambandi sé mikilvægt að skiptast á að bera byrðar.

„Það getur lagað heimilisástand mikið þegar annar aðilinn segir að gefnu tilefni við hinn: Nú tek ég þínar byrðar, takk fyrir þegar þú tókst mínar. Við sem erum eldri þekkjum vel að þetta þarf að gera og líka að æfa sig að hafa orð á því ef eitthvað er ekki eins og það á að vera. Það er mikilvægt að vera óhrædd við að tala saman um pirring, það er ekki heilbrigt að segja að allt sé í lagi heima þegar það er það ekki. Þar kemur til traustsins, að geta sagt að þér líði illa og hvers vegna, ekki þegja vegna ótta við að særa. Þegar ungt fólk tekur það skref að gifta sig, má ekki gleymast að tala um hvernig það ætlar að skipta með sér verkum, uppvaskinu og þriðju vaktinni. Það er partur af því að elska einhvern og fólk er tilbúið til að gera margt, ef það er metið.“

Allir njóta skjóls af því

Sigurvin segir að hjónavígsla hafi þrjár víddir, sem allar skipti máli.

„Fyrst ber að nefna lagalegu víddina, við megum ekki þreytast á því að upplýsa unga fólkið sem er að stofna til fjölskyldu hver réttindamunurinn er á því að vera í sambúð eða hjónabandi. Fólk sem er komið með börn og fasteign þarf að vita að það er eðlismunur á þeim réttindum sem fólk býr við, ef eitthvað kemur upp á. Annar þáttur er sá félagslegi, hátíðin sem hjónavígslan sjálf er, dásamleg samverustund brúðhjóna og gesta. Hér í Fríkirkjunni fara fram margar hjónavígslur enda er hún eina kirkjan á landinu sem leyfir athafnir frá Siðmennt. Ástinni er fagnað hér nánast í hverri viku frá vori og fram á síðhaust. Þessi félagslega hátíð sem hjónavígslan er gengur annars vegar út á að fagna því að tveir einstaklingar fundu hvor annan, en hins vegar til að draga línu í sandinn, sérstaklega hjá ungu fólki. Með hjónavígslunni segja brúðhjónin: Takk fyrir allt, kæra nánasta fjölskylda, nú ætlum við að sjá um okkur sjálf. En það sem birtist svo skýrt á þessum degi er að hamingja fólks er ekki einkamál þess, hjón eru ekki aðeins að gefast hvort öðru, heldur tengja þau saman fjölskyldur. Þar sem börn eru komin í spilið skynjar maður sterkt hversu mikið er í húfi. Við hjónavígsluathöfn verður félagslega til ein ný stór fjölskylda, allir njóta skjóls af því og eiga hagsmuna að gæta. Allir sem gefa gjafir, kyssa og fagna með brúðhjónunum eru að segja við hjónin: Ykkar hamingja skiptir okkur máli, velferð ykkar er ekki einkamál ykkar.“

Þriðji þátturinn segir Sigurvin að sé sá trúarlegi, sem snýr að kirkjunni.

„Frá sjónarhóli hinnar lútersk-evangelísku kirkju tölum við um þetta sem vígslu, en vígsla er einfaldlega fyrirbæn til þjónustu. Hjón krjúpa saman sem jafningjar við altarið og biðja Guð um að veita sér það sem þau þarfnast til að þjónusta maka sinn. Kjarninn í farsælu hjónabandi er að leita leiða til að þjónusta maka sinn. Þegar báðir aðilar gera það, þá eru hjónum allir vegir færir.“

Fyrir áhugasama er vert að geta þess að stefnumótið hefst kl. 14 í Fríkirkjunni við Tjörnina í Reykjavík á morgun, sunnudag.

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir