Guðrún söng víða um heim, meðal annars í Sovétríkjunum og Ameríku, við mikla hrifningu allra sem á hana hlustuðu.
Guðrún söng víða um heim, meðal annars í Sovétríkjunum og Ameríku, við mikla hrifningu allra sem á hana hlustuðu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mér finnst ég vera svo frjáls í hugsun og ég er ekki háð neinum.

Hundrað ár eru frá fæðingu Guðrúnar Ágústu Símonardóttur, sem ætíð var kölluð Guðrún Á. Símonar. Hún var ein þekktasta óperusöngkona landsins og afar sterkur og litríkur persónuleiki.

Hún fæddist 24. febrúar 1924. Faðir hennar var Símon Johnsen Þórðarson lögfræðingur og móðir hennar var Steinþóra Ágústa Pálsdóttir en bæði voru þau þekkt söngfólk. Faðir Guðrúnar lést þegar hún var tíu ára gömul. Árið 1941 fórst Sverrir bróðir hennar með ms. Heklu.

Guðrún sagði að hún hefði uppgötvað rödd sína þegar hún var fimmtán ára gömul eftir að hálskirtlarnir voru teknir úr henni. Þá komst hún að því að hún gæti sungið. „Ég vildi bara verða söngkona, ekkert annað,“ sagði hún seinna. Sautján ára gömul varð hún söngkona með hljómsveit Bjarna Böðvarssonar, föður Ragnars Bjarnasonar söngvara, og var með hljómsveitinni til ársins 1944.

Stjúpfaðir hennar, Ludvig C. Magnússon, hvatti hana til náms hér á landi. Eftir það stefndi hún á nám erlendis. Til að fjármagna það hélt hún fyrstu opinberu tónleika sína árið 1945 í Gamla bíó. Áhuginn var svo mikill að tónleikarnir urðu alls fimm.

Hún lærði söng í virtum skólum í Bretlandi og fór síðan til Ítalíu og lærði hjá Carmen Melis, sem þótti ein besta Puccini-söngkona sinnar tíðar og var kennari Renötu Tebaldi.

Ameríkudvöl og ferðalög

Árið 1954 hélt Guðrún í þriggja vikna söngferðalag um Norðurlöndin. Árið 1957 fór hún í þriggja vikna söngferðalag um Sovétríkin og var fyrsti Íslendingurinn sem kom þar fram opinberlega. Viðtökurnar voru frábærar. Árið eftir fór hún í vel heppnað þriggja mánaða söngferðalag um Bandaríkin og Íslendingabyggðir í Kanada og var gerð að heiðursborga Winnipeg-borgar.

Guðrún settist að í New York, kynntist þar Íslendingi, Garðari Forberg flugvélavirkja, gifti sig árið 1960 og eignaðist son. Í Bandaríkjunum fór hún að rækta síamsketti, sýndi þá á kattasýningum og vann til fjölda verðlauna.

Hjónabandið entist ekki og Guðrún flutti til Íslands ásamt syninum Ludvig Kára, sem er tónlistarmaður og tónskáld. Þau voru alla tíð mjög náin.

Guðrún var jafnvíg sem dægurlagasöngkona og óperusöngkona. Röddin breyttist eftir Ameríkudvölina, hún hafði verið sópran en var nú mezzósópran. Hún var eftirsótt söngkona, kom fram á fjölmörgum tónleikum, söng í óperum og inn á fjölmargar plötur og kenndi við Söngskólann í Reykjavík.

Frægur ritdómur

Guðrún sagðist hafa verið feimin á yngri árum en látið af því í Ameríkudvölinni og ætti því gott með að tala við fólk. Hún þótti ákveðin kona og lá venjulega ekki á skoðunum sínum. Sumum þótti það óþægilegt. Um jólin 1969 var óperan Brúðkaup Fígarós eftir Mozart frumsýnd í Þjóðleikhúsinu. Þjóðleikhússtjóri, Guðlaugur Rósinkranz, valdi eiginkona sína, Sigurlaugu Rósinkranz, lítt reynda söngkonu, í burðarhlutverk við litla hrifningu eldri og þjálfaðri söngvara sem gagnrýndu valið. Guðrún var ein af þeim. Þeirri gagnrýni var ekki vel tekið innan Þjóðleikhússins og Guðrúnu var ekki boðið á frumsýningu óperunnar. Blaðamaður Alþýðublaðsins sá sér leik á borði og bauð henni miða gegn því að hún skrifaði dóm um sýninguna. Ritdómur Guðrúnar er frægur, langur, mjög harðorður en um leið bráðskemmtilegur. Þar sagði Guðrún meðal annars: „Að hafa fimm nýliða í þessari óperu sýnir mikið þekkingarleysi … Hér spretta söngvarar eins og gorkúlur og segjast hafa 6-8 ára nám að baki, þó maður hafi aldrei heyrt þeirra getið í sambandi við alvarlega söngstarfsemi. Er þetta eitthvert tískufyrirbæri? Í dag virðist vera bezt að kunna sem minnst.“

Guðrún fann ýmislegt að frammistöðu söngvara og í dómi hennar voru eitraðar setningar eins og þessi um Sigurlaugu Rósinkranz: „Sigurlaug Rósinkranz átti að syngja og leika Rósinu greifafrú, en gerði hvorugt.“

Guðrún sagði að kominn væri tími til að meðalmennskan og pólitíkin færi að víkja fyrir menningu. Í lok greinarinnar sagðist hún eflaust hafa dæmt sjálfa sig til dauða í Þjóðleikhúsinu með þessum skrifum en bætti við: „Af hverju að vera hræddur?“

Guðrún og Guðlaugur mættust síðan í sjónvarpsþætti til að ræða uppsetninguna og fékk sá þáttur metáhorf og þótti hið besta sjónvarpsefni, ekki síst vegna þess að Guðrún gaf hvergi eftir í gagnrýni sinni. Í sjónvarpsþættinum gaf Guðlaugur í skyn að Guðrún væri of gömul og of vel í holdum til að taka að sér hlutverk ungra kvenna.

Í viðtali við Vikuna árið 1972 sendi Guðrún Guðlaugi þessa pillu: „Svo er maður kannski af náð beðinn af Guðlaugi Rósinkranz að syngja í Þjóðleikhúsinu, en þá máttu ekki vera of feit, skilurðu, hann er alltaf með málbandið með sér. Ég á því ekki upp á háborðið hjá honum, því að ég er ein af þessum sem hleyp til og frá í holdum. En svo láta þeir sig hafa að bjóða upp á leikara sem eru sköllóttir, með falskar tennur og feitir og stuttir og hvaðeina.“

Hin aðsópsmikla Guðrún hélt áfram að vekja athygli landsmanna. Árið 1975 leiddi hún af miklum krafti fjöldasöng tuttugu og fimm þúsund kvenna á Lækjartorgi á kvennafrídaginn 24. október.

Frjáls í hugsun

Guðrún var þekktur dýravinur, var meðal stofnenda Kattavinafélagsins 1976 og um tíma í stjórn félagsins. Þegar mest var voru á milli fjörutíu og fimmtíu kettir á heimili hennar. Hún átti einnig hunda. Vegna ástar sinnar á köttum, sem fylltu heimilið, varð hún fyrir ýmiss konar ónæði, aðallega frá ungmennum, en rúður voru brotnar á heimili hennar og fleiri spjöll unnin.

Í viðtali við Vikuna árið 1972 sagði Guðrún: „Mér finnst Íslendingar ekki kunna að fara með dýr. Mér finnst þeir alltaf hugsa um þau sem steik á borðið, en taki ekki með í reikninginn að þau þurfa hlýju og umhyggju, sem að vísu getur kostað mikla fyrirhöfn og peninga. Það kostar mikla peninga að hafa þessa ketti. En ekki er ég rík manneskja, get reyndar talist öreigi. Ég á ekkert nema röddina, soninn, sem er ellefu ára, og svo kettina, bý hérna hjá móður minni. Ég er því hinn réttnefndi öreigi, þótt ég sé kapítalisti í hugsun.“ „Fer það vel saman?“ spyr blaðamaður og Guðrún svarar: „Nei, en mér líður afskaplega vel með það. Mér finnst ég vera svo frjáls í hugsun og ég er ekki háð neinum, hvorki eiginmanni, stjórnmálaflokki eða neinu öðru. Nema köttunum.“

Alltaf hún sjálf

Guðrún var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1981 fyrir störf sín í þágu sönglistarinnar.

Hún lést nokkrum dögum eftir sextíu og fjögurra ára afmæli sitt í febrúar 1988 og hafði þá verið heilsuveil um hríð.

Árið 2003 kom út geisladiskur, Af rauðum vörum, endurútgáfa á söng Guðrúnar. Í dómi um þann disk sagði Bergþóra Jónsdóttir í Morgunblaðinu: „Mann langar einfaldlega til að hlusta á Guðrúnu aftur og aftur og enn aftur … Það er sérstaklega áhugavert að heyra hvernig rödd hennar þroskast frá því að vera engilbjört og tær í elstu upptökunum, til þess að verða dramatísk og fullþroskuð …“

Í minningargrein um Guðrúnu í Morgunblaðinu eftir lát hennar sagði Gunnar Eyjólfsson leikari frá því þegar þau Guðrún fóru á tónleika hinnar norsku Wagner-söngkonu Kirsten Flagstad í London að seinni heimsstyrjöldinni lokinni. „Hrifning Guðrúnar var mikil og hún sagði: „Slíkri fullkomnun stefni ég að.“ „Ætlar þú að verða önnur Flagstad?“ spurði ég, „þú hefur stærðina til þess.“ „Nei,“ svaraði Guðrún með sinni háu og hvellu rödd, „ég ætla alltaf að vera ég sjálf, Guðrún Á. Símonar, fyrsta, ekki nein önnur.“

Það tókst henni svo sannarlega.

Áhrif mömmu

Sonur Guðrúnar, Ludvig Kári Forberg, starfar sem víbrafónleikari, hljómborðsleikari og tónsmiður og sinnir tónlistarkennslu. Hann þakkar móður sinni fyrir að hann lagði fyrir sig tónlist og segir þessa sögu:

Einn dag árið 1980 sitjum við í bílnum fína er hún keypti eftir tónleikana í Háskólabíói (40 ára söngafmæli 1979) eftir að ég keyrði hana heim úr Söngskólanum, en ég var hennar „einka-chauffeur“. Ég var 19 ára og í tilvistarkreppu, ég hafði hug á að leggja fyrir mig tónlistina, nokkuð er ég hafði áður aldrei nokkurn tímann getað hugsað mér, var upptekinn af bílum, iðnhönnun, flugi, tækni og geimnum. Eitthvað fór samt af stað innra með mér er ég varð 19 ára. Ég hafði lítið stundað tónlistarnám og vissi ekki hvert ég ætti að fara því hugsanagangurinn þá var sá að ef maður ætlaði sér að leggja fyrir sig tónlist þyrfti maður að hafa lært á hljóðfæri frá barnsaldri. Mamma var ekta klassíker og hugsaði einnig á þessum nótum. Ég var orðinn of gamall fyrir tónlistarnám nema í Söngskólanum en söngvari vildi ég alls ekki verða! Enda eins gott því ég hef ekki erft söngrödd móður minnar, því miður!

Ég sit þarna og barma mér og vola. Þá snýr mamma sér að mér þar sem ég sit við stýrið og segir við mig: Af hverju lærir þú ekki á víbrafón? Ég man þetta augnablik algerlega og í þrívídd liggur við. Þvílík snilld! Þarna sameinaðist það litla er ég kunni á slagverk og hljómborð í einu hljóðfæri! Enginn kvíði fyrir því að kunna ekki á píanó eins og Paderewski, en mamma vitnaði oft í hann. Það fór svo á endanum að ég fór í tíma til víbrafónsnillingsins Reynis Sigurðssonar heitins, en hann lést 2. nóvember síðastliðinn og er lát hans mér mikill missir því hann var mér mjög kær, enda einstakur lærimeistari og vinur minn alla tíð.

Ég get þakkað mömmu fyrir að hafa leyst þessa óbærilegu tilvistarkreppu mína á þessum tímapunkti og ýtt mér inn í öldurót tónlistarinnar, sem hefur ekki enn kaffært mig nema á jákvæðan hátt.