Varnarjaxlinn Andreas Brehme stekkur hæð sína eftir að hafa tryggt Þjóðverjum heimsmeistaratitilinn úr víti á HM í Róm 1990. Jürgen Klinsmann, félagi hans, kemur aðvífandi.
Varnarjaxlinn Andreas Brehme stekkur hæð sína eftir að hafa tryggt Þjóðverjum heimsmeistaratitilinn úr víti á HM í Róm 1990. Jürgen Klinsmann, félagi hans, kemur aðvífandi. — AFP/George Gobet
Þegar lið á borð við Argentínu í svona úrslitaleik fær ekki eitt einasta horn, kemst varla í sókn, á ekki eitt einsata færi á 90 mínútum er ekki hægt að draga í efa að sigur okkar hafi verið verðskuldaður.“

Andreas Brehme skoraði ekki mörg mörk fyrir þýska landsliðið í knattspyrnu, átta í 86 leikjum, en mark hans úr víti í úrslitaleik heimsmeistarakeppninnar í Róm gegn Argentínu árið 1990 setti hann á stall með helstu knattspyrnuhetjum Þýskalands. Brehme lést úr hjartaáfalli aðfaranótt þriðjudags á heimili sínu í München, aðeins 63 ára gamall.

Brehme var fjölhæfur vinstri bakvörður, sem kom víða við á ferlinum. Hann var lærður vélvirki, sem hóf ferilinn í Hamborg hjá HSV Barmbek-Uhlenhorst, litlum klúbbi í verkamannahverfinu þar sem hann ólst upp. Leikstíllinn var í anda upprunans, beinskeyttur, skilvirkur og stælalaus.

Stærstan hluta ferilsins lék hann fyrir 1. FC Kaiserslautern eða 10 ár samtals, en hann kom einnig við hjá Inter Mílanó, Bayern München, Saarbrücken og Real Zaragoza.

Hann spilaði með Kaiserslautern frá 1981 til 1986 er hann hélt til Bayern München þar sem hann lék tvö keppnistímabil. Með Bæjurum varð hann Þýskalandsmeistari árið 1987. Í tilkynningu frá Bayern München sagði að Brehme yrði Bæjurum alltaf hjartfólginn.

„Goðsögn að eilífu“

Á Ítalíu er hans minnst fyrir frammistöðu sína með Jürgen Klinsmann og Lothar Matthäus hjá Inter Mílanó. „Ciao Andi, goðsögn að eilífu,“ sagði í yfirlýsingu hjá félaginu, sem hann átti þátt í að gera að meisturum árið 1989 – hann var það ár valinn besti leikmaður ítölsku deildarinnar – og varð með þeim Evrópumeistari bikarhafa árið 1991. Í leik sínum gegn Atletico Madrid á þriðjudag báru leikmenn Inter sorgarband í minningu Brehmes.

Eftir dvölina á Ítalíu fór hann í stutt stopp til Zaragoza á Spáni áður en leiðin lá aftur til Kaiserslautern haustið 1993. 1996 varð Kaiserslautern bikarmeistari, en féll sama keppnistímabil í aðra deild. Brehme var eyðilagður og grét fyrir framan myndavélarnar eftir síðasta leik tímabilsins á meðan Rudi Völler, félagi hans úr heimsmeistaraliðinu, reyndi að hugga hann. Brehme hélt tryggð við Kaiserslautern og spilaði með „rauðu djöflunum“ í annarri deildinni. Liðið fór beint upp aftur 1997 og varð að auki þýskur meistari vorið 1998 og hann bar fyrirliðabandið, þótt þegar þarna væri komið sögu sæti hann iðulega á bekknum. Eftir það lagði hann skóna á hilluna og sneri sér að þjálfun en þar náði hann aldrei sömu hæðum og þegar hann var leikmaður.

Hátindurinn á ferli Brehmes var hins vegar úrslitaleikurinn á HM 1990. Fjórum árum áður þegar HM fór fram í Mexíkó höfðu Þjóðverjar komist í úrslitaleikinn og lotið í lægra haldi fyrir Argentínumönnum. Nú léku sömu lið aftur til úrslita. Leikurinn hafði verið frekar leiðinlegur og lítið um færi þegar dæmt var víti eftir brot á Rudi Völler í teignum.

Ringulreið í úrslitaleik

„Ég stóð um 40 metra frá Rudi Völler og José Serrizuela [liðsmanni Argentínu] þegar dómarinn flautaði víti. Hann benti á vítapunktinn og úr varð dálítil ringulreið. Argentínumennirnir deildu æstir við dómarann og spörkuðu boltanum í burtu. Það liðu sjö til átta mínútur áður en ég loks gat skotið,“ rifjaði Brehme upp árið 2007.

„Það var hægt að dæma vítið, en það hefði líka mátt sleppa því. Hins vegar hafði okkur verið neitað um alveg klárt víti þegar brotið var á Klaus Augenthaler. Þetta jafnast alltaf út.“

Brehme skrifaði að þýska liðið hefði átt að vera búið að ná þriggja til fimm marka forustu eftir tuttugu mínútur. „Þegar lið á borð við Argentínu í svona úrslitaleik fær ekki eitt einasta horn, kemst varla í sókn, á ekki eitt einsata færi á 90 mínútum er ekki hægt að draga í efa að sigur okkar hafi verið verðskuldaður.“

Í marki Argentínumanna stóð Sergio Goycochea, sem þekktur var fyrir að verja víti.

„Mér varð strax ljóst að ég þyrfti að taka vítið. Það eru alltaf tilnefndar þrjár vítaskyttur fyrir leik: Rudi Völler – en það hafði verið brotið á honum og sá sem brotið er á á aldrei að skjóta sjálfur. Þá var það Lothar Matthäus – en honum fannst hann ekki vera upp á sitt besta. Fyrir okkur var nauðsynlegt að sá sem tæki vítið væri fullur sjálfstrausts og gæti skorað úr vítinu. Því fór ég.

En þá braust út þessi ringulreið! Verst var að Argentínumennirnir spörkuðu boltanum aftur í burtu eftir að ég hafði lagt hann fyrir mig. Ég varð að víkja því frá mér að Argentínumennirnir væru að reyna að gera mig óöruggan – og að allur heimurinn, milljónir sjónvarpsáhorfenda, væru að horfa á mig. Rudi Völler kom til mín og sagði: „Jæja, þú setur þennan inn, þá erum við heimsmeistarar.“ „Kærar þakkir,“ svaraði ég. „Ég held því til haga.“

„… svo lá hann í netinu“

Argentínski markmaðurinn Sergio Goycochea var annálaður vítabani og hafði varið nokkur víti í þessari keppni. Í tilhlaupinu hugsaði ég: Haltu ró þinni! Einbeittu þér að skotinu! Svo skaut ég með hægri. Þegar boltinn rúllaði að stönginni fór um mig í eina sekúndu, en svo lá hann í netinu.“

Þótt Brehme spilaði á vinstri kantinum var hann jafnvígur á báða fætur með boltann. Vítið tók hann með hægri. Goycochea skutlaði sér í rétta átt, en boltinn var svo nálægt stönginni að hann náði ekki til hans.

„Eftirleikurinn var ólýsanlegur. Myndirnar af fagnaðarlátunum hafa allir séð. Á þessu augnabliki vissum við allir að við værum orðnir heimsmeistarar. Sex eða átta liðsfélagar lágu ofan á mér, en maður tekur ekki eftir slíku í augnablikinu. Þá voru líka allir þrautþjálfaðir og nokkrum kílóum léttari en í dag. Við spiluðum afslappaðir áfram þar til flautað var til leiksloka níu mínútum síðar. Argentínumennirnir voru færri á vellinum og við hleyptum þeim ekki meir að boltanum.“

Brehme viðurkennir að úrslitaleikurinn hafi ekki verið góður. „Það vissum við allir. Við reyndum að spila vel, en Argentínumennirnir voru því miður mjög varnarsinnaðir og eyðilögðu leikinn, þeir vildu útkljá hann í vítaspyrnukepnni. Samt vorum við yfirmáta hamingjusamir og stoltir í leikslok. Fyrir fótboltamann er það að vera heimsmeistari mesti titillinn sem hægt er að ná.“

Verðskuldaður titill

Brehme bætir við að í úrslitunum í Mexíkó 1986 hafi Þýskaland ekki endilega verðskuldað að verða heimsmeistari. „Þá höfðu Argentínumenn sýnt mikla yfirburði allt mótið,“ skrifaði hann. Í leiknum komst Argentína í 2-0, en Þjóðverjum tókst að jafna. „Við hefðum getað unnið leikinn – þótt það hefði verið óverðskuldað – ef komið hefði til framlengingar. En við sóttum eins og í blindni og fengum á okkur mark úr skyndisókn mínútu fyrir leikslok. Það mátti ekki gerast. Þá gátum við sjálfum okkur um kennt að við misstum af titlinum.“

Hann skrifar að það hafi verið síðbúin fullnægja að leika aftur gegn Argentínu í Róm. „Á þeim fjórum árum sem liðin voru frá HM í Mexikó höfðum við þroskast, við vorum allir fjórum árum eldri, við vorum á besta aldri. Og það sem var mikilvægast, í liðinu var ótrúlegur samhljómur,“ skrifar hann. „Það var frábært samkomulag milli okkar allra, það var engin öfund og engin samkeppni. Á liðshótelinu deildi ég herbergi með Lothar Matthäus. Við höfðum verið liðsfélagar í Bayern München og Inter Mílanó og þar höfðum við líka alltaf verið saman í herbergi. En hinir leikmennirnir tuttugu voru allir jafningjar og hefðu allir getað tekið sína stöðu á vellinum.“

Franz Beckenbauer var þjálfari þýska landsliðsins á HM 1990. Hann lést 7. janúar. Það er stutt á milli fráfalls keisarans og hetju þýska landsliðsins 1990.

Við andlát Beckenbauers kvaðst Brehme eiga honum mikið að þakka og bætti við: „Ég held að á himnum muni hann stofna til undursamlegs þríeykis ásamt Pelé og Maradona.“ Brehme verður örugglega með inni á vellinum.