„Ég held að sem lið höfum við varist vel í dag. Þær fengu lítið af opnum færum, sköpuðu helst hættu þegar fastar sendingar komu í gegnum vítateiginn, en í heildina séð var þetta ekki okkar besti leikur

„Ég held að sem lið höfum við varist vel í dag. Þær fengu lítið af opnum færum, sköpuðu helst hættu þegar fastar sendingar komu í gegnum vítateiginn, en í heildina séð var þetta ekki okkar besti leikur. Við vitum að við getum spilað miklu betur. Sérstaklega hvað varðar að halda boltanum,“ sagði Glódís Perla Viggósdóttir fyrirliði Íslands við Morgunblaðið eftir leikinn.

„Þær pressuðu okkur ekkert meira en við bjuggumst við, en við áttum að gera betur og tókum ekki alltaf réttar ákvarðanir eftir að hafa spilað okkur í gegnum pressuna.

En í heildina séð held ég að þetta hafi verið jafn leikur og úrslitin séu nokkuð sanngjörn. Við höfum allt að spila fyrir í seinni leiknum og eflaust voru bæði liðin með það í huga að fara ekki með slæma stöðu í hann,“ sagði Glódís Perla.

„Þetta var erfitt eins og við vissum að yrði gegn Serbíu á útivelli. Þær eru harðar og erfiðar, með hörkulið. Þær skoruðu mjög auðvelt mark þar sem minn varnarleikur var slakur. En við svöruðum því og 1:1 eru ásættanleg úrslit,“ sagði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir.

„Þetta er tveggja leikja einvígi svo við förum ekki á taugum yfir þessu. Seinni leikurinn er eftir, við hefðum viljað spila betur í dag en þetta er erfiður andstæðingur og við förum þó alla vega með jafntefli héðan,“ sagði Karólína.

Nánar er rætt við þær og fleiri leikmenn og þjálfara liðanna á mbl.is/sport.