Guðrún Karlsdóttir fæddist í Brekkuhúsi í Hnífsdal 1. janúar 1945. Hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans við Hringbraut 17. febrúar 2024.

Foreldrar hennar voru Karl Kristján Sigurðsson, f. 14. maí 1918, og Kristjana Hjartardóttir, f. 1. júlí 1918, d. 30. ágúst 2013.

Systkini: Grétar Þórðarson, f. 1939, d. 2023, Ásgeir Kristján, f. 1941, d. 1966, Hjördís, f. 1949, d. 2018, Sigríður Ingibjörg, f. 1952, og Halldóra, f. 1961.

Guðrún trúlofaðist Hermanni Lútherssyni, f. 20.6. 1941, sem fórst með Svani RE 2 í Ísafjarðardjúpi 22.12. 1967 ásamt Ásgeiri Kristjáni bróður hennar. Dóttir þeirra er Kristjana, f. 8.5. 1967, gift Jóhannesi Ólafsyni, f. 15.11. 1965, dætur þeirra eru Sigurbjörg, f. 1992, Jóhanna, f. 1994, og Sæbjörg, f. 2002. Eiga þau fjögur barnabörn.

Guðrún giftist Úlfari Víglundssyni, f. 29.8. 1942, d. 7.5. 2011, hinn 17. júlí 1969. Foreldrar hans voru Víglundur Jónsson, f. 29. júlí 1910, d. 9. nóvember 1994, og Kristjana Þórey Tómasdóttir, f. 17. maí 1917, d. 6. júní 1986. Börn þeirra eru: 1) Brynja Björk, f. 19. janúar 1970, gift Jóhannesi Hjálmarssyni, f. 25. nóvember 1969, dætur þeirra eru Guðrún Kolbrún, f. 1993, Aría, f. 1995, og Mýra, f. 2002. Eiga þau tvö barnabörn. 2) Hermann, f. 31.12. 1971, giftur Ágústu Gunnarsdóttur, f. 7.5. 1972. Börn Hermanns úr fyrra sambandi eru Jana Rún, f. 2001, og Halldór Hugi, f. 2005, stjúpdóttir Sigríður Elma Svanbjargardóttir, f. 1997. Hermann á Kára Kristján, f. 2013, með Ágústu, núverandi konu sinni, og fyrir átti hún Enzu Marey Massaro, f. 1998. 3) Þórey, f. 25.4. 1977, sonur hennar með Þresti Pétri Sigurðssyni er Úlfar Ingi, f. 2004.

Guðrún ólst upp í Hnífsdal, gekk þar í barnaskóla og fór svo á Héraðsskólann að Núpi í Dýrafirði og útskrifaðist með gagnfræðapróf þaðan. 15 ára fór hún á síld á Siglufirði með mömmu sinni. Síðar lá leiðin til Reykjavíkur þar sem hún byrjaði að vinna á Kópavogshæli og útskrifaðist þaðan sem þroskaþjálfi. Var kaupfélagsstjóri í Hnífsdal ásamt Ingigerði Friðriksdóttur frænku sinni.

Til Ólafsvíkur flutti hún 1969 með Úlfari og byrjuðu þau að búa á neðri hæð hjá foreldrum Úlfars. Byggðu þau sér svo hús að Lindarholti 10 og bjuggu þar allan sinn búskap. Í Ólafsvík vann hún ýmis störf svo sem á skrifstofu og í fiskvinnslu hjá Hróa hf. sem var í eigu fjölskyldunnar. Vann hún í 25 ár á leikskólanum í Ólafsvík sem þroskaþjálfi, deildarstjóri og leikskólastjóri. Endaði hún starfsævina 70 ára.

Guðrún var mikil félagsvera, hún var í mörg ár í sóknarnefnd, Kvenfélagi Ólafsvíkur, Slysavarnafélaginu Sumargjöf og stofnfélagi í Lionessuklúbbnum Rán sem síðar varð Lionsklúbburinn Rán og var sæmd Melvin Jones-orðunni 2019.

Útför Guðrúnar fer fram frá Ólafsvíkurkirkju í dag, 24. febrúar 2024, kl. 13, streymi: https://fb.me/e/6BQt14FUo

Elsku mamma.

Þetta er svo sárt og óraunverulegt að þú sért farin frá okkur. Þú varst kletturinn minn og hans Úlfars Inga, alltaf til staðar og við alltaf til staðar fyrir þig. Þú og pabbi genguð Úlfari Inga í föðurstað eftir að ég varð ein með hann og missirinn er mikill. Þetta verður allt saman skrítið og mikill tómleiki. Ef eitthvað var planað, hvort sem það var að fara í sumarbústað á sumrin, til Ísafjarðar, á fótboltaleiki eða einhver ferðalög þá vorum það við þrjú eftir að pabbi dó. En síðan vorum við svo heppin að það bættist elskuleg manneskja í líf okkar, Arnheiður kærasta Úlfars Inga sem mömmu þótti svo vænt um og elskaði hennar nærveru. Okkar samverustaður var á Hjallabrekku 2, heimili mömmu og vorum við þar meira og minna. Mamma, hvað eigum við að elda í kvöld? var spurning dagsins. Æ höfum það bara eitthvað létt, var iðulega svarið frá mömmu á seinni árum. En samt var hún alltaf tilbúin í góða máltíð.

Mamma var stöðugt með hugann hjá fjölskyldunni sinni og vildi öllum vel, enda sóttum við börnin hennar og barnabörn í að fara til mömmu/ömmu Gunnu. Mamma var mikil húsmóðir en alltaf fyrir jólin voru tíu smákökusortir, soðbrauð, hveitikökur, lagtertur og fleira. Það átti að vera nóg að borða enda stór fjölskylda. Ég man þegar ég var lítil er mamma var búin að baka, þá setti hún smákökurnar í box og límdi fyrir þannig að enginn væri nú að laumast í boxið. En auðvitað stalst ég í boxið og nældi mér reglulega í súkkulaðibitakökurnar.

Mamma var mjög ósérhlífin og hörkudugleg kona, hún var með stórt heimili og þegar ég var lítil vann hún á skrifstofunni í Hróa á daginn og á vertíðum vann hún á kvöldin við fiskvinnsluna. Hún var í mörgum félagasamtökum. Lionsklúbburinn Rán skipaði stóran sess í hjarta hennar og var hún heiðruð með Melvin Jones-viðurkenningunni og þótti henni vænt um það. Mamma var algjört hörkutól og kvartaði aldrei. Mamma vann á Krílakoti til sjötugs, eða í tuttugu og fimm ár sem þroskaþjálfi, leikskólastjóri og/eða deildarstjóri. Þegar hún hætti að vinna ætlaði hún að njóta lífsins og fara á fullt í eldri borgara starfið en það gat hún svo sannarlega ekki. Það var alltaf eitthvað sem kom upp á hjá henni varðandi hennar heilsu – kona sem var aldrei frá vinnu stóð eins og klettur við hlið pabba í hans veikindum og var einnig búin að upplifa mikla sorg þegar bróðir hennar og unnusti fórust í sjóslysi. Það komu oft spurningar frá henni: Hvað hef ég gert honum þarna uppi? Af hverju er allt þetta á mig lagt?

Elsku mamma, þetta er og verður erfitt að vera án þín og hjartað mitt grætur. Samband okkar var einstakt, við töluðum saman alla daga, sendum skilaboð á milli okkar alla daga og mörgum sinnum á dag, borðuðum saman, vorum bara alltaf saman. Stórt skarð er höggvið í okkar fjölskyldu. Ég veit að pabbi tekur vel á móti þér og passar upp á Gunnu sína. Takk fyrir allt, elsku kletturinn okkar, þú varst einfaldlega best og munum við varðveita minningu þína. Við elskum þig svo heitt, elsku mamma og amma.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Þórey og Úlfar Ingi.

Elsku amma Gunna okkar.

Tilhugsunin um að þú sért farin frá okkur er enn óraunveruleg. Í sorginni reynum við að hugga okkur við hlýjar minningar. Allar stundirnar sem við áttum með þér og afa á Lindarholtinu. Barnabörnin voru alltaf velkomin og mætti okkur alltaf ást og umhyggja við komu. Það var oftar en ekki sýning í stofunni þar sem við dönsuðum og sungum fyrir áhorfendur en á sumrin eyddum við heilu dögunum úti í garði. Við fengum að hjálpa til við garðverkin og fengum svo rabarbara með sykri að launum. Þú hugsaðir alltaf svo vel um garðinn á Lindarholtinu þegar þú hafðir heilsu til og var hann eins og ævintýraveröld. Stundum vorum við frænkurnar fengnar til að tína rifsber af runnunum en það varð aldrei mikið eftir í sultugerð því flest berin fóru beint upp í litla munna. Það var alltaf mikið fjör og endalaus gestagangur. Í minningunni var alltaf einhver í heimsókn og alltaf eitthvað með kaffinu. Eftir að þú fluttir upp á Hjallabrekku breyttist það ekki, það var alltaf til eitthvað að narta í fyrir barnabarnabörnin og gestagangurinn sá sami, alltaf stöðugt streymi.

Þú varst alltaf mikill húmoristi. Það var aldrei langt í grínið, allt frá því við vorum litlar og alveg fram að síðustu stundu. Þrátt fyrir að krafturinn hafi farið dvínandi áttirðu alltaf til hnyttin tilsvör og góða brandara sem við minnumst með brosi á vör.

Þú varst alltaf svo handlagin. Stelpurnar okkar munu búa að þeim gersemum sem þú hefur gefið þeim alla ævi. Allar dúkkurnar eru klæddar í prjónuð föt frá ömmu Gunnu. Babyborn-fötin eru bara ekki jafn spennandi og falleg. Þó að við myndum helst vilja ramma allar flíkurnar inn til þess að varðveita þær þá væri það ekki það sem þú vildir. Þú vilt að stelpurnar klæðist flíkunum og noti þær stoltar.

Þú sagðir við okkur að við ættum ekki að vera að gráta yfir þessum örlögum þínum. Þú vildir ekki hafa neitt drama, bara gleði og gaman. Við reynum að virða þá ósk í sorginni og minnast alls þess góða sem þú gafst okkur alla tíð.

Góða ferð, amma Gunna. Við elskum þig.

Þínar ömmustelpur,

Sigurbjörg, Jóhanna
og Sæbjörg.

„Mamma, ertu vakandi mamma mín?“ Þetta var það fyrsta sem fór í gegnum hugann þegar ég sá að baráttan þín var búin eftir svo mörg erfið ár. Það var svo oft þegar ég kom til þín klukkan tvö á daginn þessa seinustu daga þína heima á Hjallabrekkunni að þá varstu sofandi uppi í rúmi að leggja þig eftir hádegisfréttirnar. Alltaf komstu fram og sagðist verða svo syfjuð yfir 12-fréttunum. En þú varst orðin svo mikið veik og vildir ekki láta okkur vita af því. Þú vildir bara fá að vera heima og þoldir ekki að þurfa að fara á sjúkrahús. Við systkinin vorum öll svo háð þér og barnabörnin líka enda varstu vinur og trúnaðarmaður okkar allra. Öll gátum við sagt þér allt án þess að vera dæmd. Ástin sem þú gafst okkur öllum var einstök, elsku mamma mín. Það er svo sárt að kveðja þig og það verður aldrei hægt að fylla skarðið þitt. En ég veit að það eru svo margir ástvinir sem bíða eftir að taka á móti þér í Sumarlandinu okkar.

Elsku mamma mín, það er mín trú að í landinu fallega verðir þú heilbrigð og kærleiksljósið sem þú umvafðir okkur vermi þig. Góða ferð elsku hjartað mitt. Takk fyrir allt. Ég elska þig.

Brynja Björk.

Elsku hjartans tengdamóðir mín, nú skiljast leiðir um stund. Mikið er ég þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þér og hafa átt með þér dásamlegar stundir síðustu ár. Þú varst svo sannarlega íslenska konan sem ætíð var skjól, skjöldur og hlíf fjölskyldu þinnar. Þú þerraðir tárin og þurrkaðir blóð.

Ég hugsa um sögu þína þar sem þú ferð út í lífið sem ung ekkja með barni. Þú misstir bróður þinn í sama slysi og sennilega varð lífið aldrei eins. Þessi lífsreynsla hefur gert þig að þessari sterku mögnuðu konu sem þú varst. Svo varðstu ekkja í annað sinn. Þú varst ambáttin hljóð og hógvær. Ekkert væl eða drama. Þú varst heiðarleg, blíð og amma svo góð. Það var alltaf gott að koma til þín með fullan bíl af börnum, hundi og öllu því sem fylgir. Við sátum og spjölluðum um allt milli himins og jarðar eða sátum í þögninni með kaffibollann og prjónana. Maður situr ekki með öllum í dýrmætri þögn mín kæra en það gátum við.

Við nutum þess að elda góðan mat saman og njóta lífsins hvort sem við vorum í Lindarholtinu, í Hjallabrekkunni, í bústað eða hjá okkur í Kópavoginum. Mikið eigum við eftir að sakna þín, elsku Guðrún mín. Já ég kallaði þig alltaf Guðrúnu og með húmorinn að vopni spurðir þú mig ekki alls fyrir löngu hvort þú hefðir gert mér eitthvað. Alls ekki, svaraði ég, „af hverju í ósköpunum heldur þú það Guðrún?“ „Nú … af því að þú ert að kalla mig Guðrúnu“ svaraðir þú og skellhlóst. Ég kalla hann Hermann þinn líka alltaf Hermann, einkason ykkar Úlfars heitins. En hann nefnduð þið hjónin í höfuðið á látnum unnusta þínum og barnsföður. Það lýsir vel hversu trygglynd þú varst og hversu dýrmæt fjölskyldan var þér. Það lýsir líka vel kærleik og vináttu ykkar hjóna finnst mér þó Úlla hafi ég ekki kynnst nema í gegnum ykkur fjölskylduna.

Lífsvilji þinn var sterkur og þú ætlaðir heim að prjóna peysur á elstu strákana þína, barnabörnin þín. Þú gafst allt sem þú áttir í baráttuna við meinið en þurftir að játa þig sigraða. Við lútum höfði og tár falla á fold.

Núna eruð þið hjónin sameimuð á ný og minning ykkar áfram lifir sem ljós í hjörtum fólksins ykkar. Við höldum áfram með lífið og mun ég ætíð minnast þín, elsku tengdamóðir mín, með hlýju í hjarta. Þangað til næst, kær kveðja.

Ágústa.

Elsku amma. Ég veit að þú ert farin eitthvert annað en ég finn þig samt svo nálægt mér. Ef ég hugsa til þín þá heyri ég ennþá röddina þína og sé fyrir mér andlitið þitt. Ég veit þú ert laus úr veikum líkama og vakir nú yfir okkur eins og þú gerðir öll þessi ár meðan þú varst hjá okkur. Þú varst límið í fjölskyldunni, allir gátu leitað til þín og knúsin frá ömmu Gunnu voru alltaf hlýjust og innilegust. Ég man enn hvernig þú straukst bakið á mér þegar þú huggaðir mig þegar ég var lítil – og ég geri það sjálf við barnið mitt í dag. Ég mun alltaf hugsa til þín þegar ég heyri lögin þín í útvarpinu og mun segja börnunum mínum frá þér og halda minningunni þinni lifandi. Ég lofa.

Takk fyrir allt, elsku amma, góða ferð og fljúgðu hátt. Við sjáumst síðar.

Þín nafna,

Guðrún Kolbrún

Jóhannesdóttir.

Kær mágkona mín Guðrún hefur kvatt okkur eftir erfið veikindi.

Man svo vel þegar hún kom í fjölskylduna, Úlfar bróðir minn hafði hitt ástina sína. Man líka hvað mamma var spennt að kynnast tilvonandi tengdadóttur sem var glæsileg. Með Gunnu kom Kristjana dóttir hennar á öðru ári, mikill sólargeisli. Hún var mjög opin og skemmtileg. Kristjana litla var fyrsta barnabarn foreldra minna.

Það var alltaf gefandi og hressandi að vera í kringum Gunnu, og á ég eftir að sakna hennar.

Gunna og Úlli byrjuðu búskap á neðri hæð heima í Skálholtinu og byggðu síðan hús við Lindarholt. Einnig byggðu Guðrún systir mín og Pétur hús á sömu lóð.

Þannig að alltaf var mikill samgangur á milli heimilanna.

Um hver áramót var mikil afmælisgleði, afmælisdagur Gunnu 1. janúar og Hermann sonur þeirra á afmæli 31. desember.

Það er fjársjóður að fletta í eldri myndaalbúmum fjölskyldunnar og skoða myndir frá jólaboðum, fjölskylduboðum, ættarmótum, ferðalögum og mörgu fleiru.

Þegar Gunna var 60 ára fór ég með henni og Úlla ásamt Kristjönu, Jóa og dætrum þeirra til Gran Canari. Það var yndislegt að vera með þeim og skemmtum við okkur vel um jól og áramót.

Innilegar samúðarkveðjur til Karls Sigurssonar föður Gunnu sem býr á Ísafirði. Einnig samúðarkveðjur til systranna Halldóru og Sigríðar.

Elsku Kristjana, Brynja, Hermann, Þórey og fjölskyldur, missir ykkar er mikill. Mamma ykkar var alltaf kletturinn í lífi ykkar.

Elsku Gunna, þakklæti og vinátta er mér efst í huga þegar ég kveð þig.

Ragnheiður
Víglundsdóttir.

Við Gunna Kalla, eins og ég kalla vinkonu mína, kynntumst 1964 þegar við hófum gæslusystranám á Kópavogshæli. Starfsheitið gæslusystir breyttist síðar í þroskaþjálfa. Við bjuggum í starfsmannahúsi við Kópavogsbraut ásamt mörgum öðrum ungum stúlkum. Margt var brallað og skemmtanalífið í borginni heimsótt svo eitthvað sé nefnt. Alltaf var gaman að taka lagið og spila undir á gítar. Sungum við þá raddað áður en við fórum út á lífið. Ekki var nemakaupið hátt svo við vorum blankar um miðjan mánuð og þá þurfti að hægja á.

Sumarið 1965 ákváðum við Gunna að fara vestur í Hnífsdal í sumarfríinu okkar og vinna í frystihúsinu til að bæta fjárhaginn. Mikil sumarblíða var fyrir vestan svo við drógum að byrja vinnuna og lágum í sólbaði þar til frystihússtjórinn hringdi og skipaði okkur að mæta. Þannig voru fyrstu ár okkar Gunnu saman, glens og gleði.

Haustið 1966 ákváðu Gunna og kærastinn hennar, hann Hemmi, að flytja vestur í Hnífsdal og hann réði sig á bát hjá Ásgeiri bróður Gunnu. Báturinn fórst í desember 1966 og allir sem með honum voru. Þar missti Gunna Hemma, föður Kristjönu, og Ásgeir bróður sinn. Þetta var mikið áfall en Gunna lagði ekki árar í bát, fluttist til Reykjavíkur og starfaði sem þroskaþjálfi með Kristjönu litla. Þá fann hún Úlfar sinn sem varð hennar gæfa og þá bættust við Brynja, Hermann og Þórey.

Gunna fluttist til Ólafsvíkur með Úlfari, við héldum alltaf sambandi og hittumst reglulega í fjölskylduboðum hvor hjá annarri og heyrðumst oft í síma. Þegar Úlfar og Gunna komu í bæinn fórum við Guðjón með þeim út að dansa og áttum góða stund saman. Ég skrapp stundum vestur í Ólafsvík á fótboltaleiki þegar Víkingur og Fram voru að spila og kíkti á Gunnu í leiðinni. Gunna var einstök persóna, mikill vinur barna sinna, enda mjög stolt af afkomendum sínum og fjölskyldan samhent.

Síðast þegar ég heyrði í Gunnu núna í janúar var heilsa hennar farin að gefa sig og nú er lífi hennar lokið. Já, hún Gunna vinkona var yndisleg og hennar verður sárt saknað. Elsku fjölskylda. Innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra og megi minningin um elsku Gunnu Kalla lifa.

Helga Ívarsdóttir.

Jarðsett er í dag frá Ólafsvíkurkirkju Guðrún Jóakims Karlsdóttir sem okkur er bæði ljúft og skylt að minnast. Guðrún kemur til Ólafsvíkur 1969 með litlu stúlkuna sína hana Kristjönu. Kristjana var þá tveggja ára en þau voru þá trúlofuð, móðir hennar Guðrún og Úlfar Víglundsson. Úlfar sem lést 2011 var mikill sómamaður og góður Guð blessi minninu hans. Gunna eins og hún var ávallt kölluð var frá Hnífsdal og Vestfirðingur í báðar ættir. Hún var dóttir sómahjónanna Kristjönu Hjartardóttur og Karls Sigurðssonar sem lengi var skipstjóri á Mími ÍS frá Hnífsdal. Hann lifir nú dóttur sína en Karl verður 106 ára á þessu ári.

Við fjölskyldurnar byggðum okkur hús á sama tíma sitt hvorum megin við götuna, Úlfar og Gunna í Lindarholti 10 og við í Skálholti 13. Mikil og dýrmæt samskipti voru á milli okkar þessi 47 ár sem við bjuggum svo nálægt hvert öðru. Við söknuðum þeirra mikið úr húsinu þeirra flotta við Lindarholt 10 er þau fluttu.

Börnin okkar sem á eftir komu léku sér mikið saman og alltaf var líf og mikið fjör í Skálholtinu og Lindarholtinu. Afmælisdaginn hennar Gunnu bar upp á nýjársdag og þá var gaman. Oftast var labbað yfir götuna eftir miðnætti og flotta afmæliskökuhlaðborðið að hætti hennar beið allra sem til hennar komu. Man alltaf eftir súkkulaðiperutertunni hennar góðu. Svo var setið og spjallað fram á nótt.

Gunna var mjög traust og áreiðanleg kona og með mikla réttlætiskennd. Hugsaði ávallt um þá sem áttu erfitt. Hún sagði sína meiningu og allir vissu hvar þeir höfðu hana. Hún var félagslynd og valdist oft til forystu í hinum ýmsum málum sem upp komu. Hún starfaði lengi á leikskólanum Krílakoti í Ólafsvík og var mjög vel liðin bæði meðal barnanna og starfsfólksins.

Gunna bar alltaf mjög mikla umhyggju fyrir fjölskyldu sinni. Hugsaði mjög vel um börnin sín og ráðlagði þeim allt það besta. Barnabörnin hændust að henni og hún var þeim afar góð.

Vinátta og samvera er það dýrmætasta sem við eignumst í lífinu. Við erum þakklát fyrir að hafa átt Gunnu og vináttu hennar og fjölskyldu að allan þennan tíma.

Að leiðarlokum viljum við þakka þér, elsku Gunna okkar, góðu kynnin alla tíð. Minningarnar lifa áfram. Við fjölskyldan úr Skálholti 13 vottum allri hennar kæru fjölskyldu innilega samúð. Missir þeirra er mikill. Guð blessi minningu Guðrúnu Jóakims Karlsdóttur.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

(Valdimar Briem)

Pétur Steinar
Jóhannsson og

L. Guðrún Víglundsdóttir.

Þei, þei og ró.

Þögn breiðist yfir allt.

Hnigin er sól í sjó.

Sof þú í blíðri ró.

Við höfum vakað nóg.

Værðar þú njóta skalt.

Þei, þei og ró.

Þögn breiðist yfir allt.

(Jóhann Jónsson)

Elsku Gunna Karls hefur hvatt þetta líf eftir erfið veikindi. Mann setur hljóðan á svona stundu og hverfur aftur til minninganna.

Ég man svo vel þegar Jana í Skálholti sagði mér „stelpunni“ í trúnaði, að mér fannst, að Úlli væri kominn með kærustu. Þetta þótti mér fréttir og ég var mjög spennt yfir þessu. Svo þegar kærastan kom til Ólafsvíkur og ég skundaði í heimsókn til Jönu að sjá hana, varð ég ekki fyrir vonbrigðum. Man eftir henni koma út úr herberginu, geislandi og brosandi út að eyrum með rúllur í hárinu og litla sæta stelpu trítlandi á eftir sér. Gunna fagnaði mér eins og besta vini og hefur mér alltaf síðan þótt vænt um þessa yndislegu konu. Hún kunni að tala við mig, stelpukrakkann. Litla dóttir hennar kynnti sig og sagði „ég tegga áttunda maí“. Þessi setning hefur haldist við hana Kiddu litlu síðan, enda á hún afmæli 8. maí.

Gunna hafði yndislega nærveru og fannst mér alltaf gott að vera hjá henni. Fljótlega fór Gunna að treysta mér fyrir að passa Kiddu litlu.

Gunna og Úlli voru ekki að tvínóna við hlutina, byggðu myndarlegt hús í Lindarholtinu og börnin komu hvert af öðru. Brynja litla, mikill fjörkálfur og skemmtilegur krakki sem ég passaði líka. Hemmi, ljúfi strákurinn sem mér fannst alltaf svo sposkur á svip. Svo kom litla örverpið hún Þórey hægt og hljótt.

Það var mikið að gera hjá Gunnu með allan hópinn sinn og var þá nú gott að fá Halldóru litlu systur sína í sumarheimsókn. Við Halldóra urðum góðar vinkonur og brölluðum ýmislegt með barnahópnum. Við vorum orðnar unglingar og margt spennandi í gangi. Gunna hafði einstakt lag á okkur og gat verið jafningi okkar. Halldóra átti einstaka vinkonu í stóru systur sinni.

Eitthvað hefur Gunna séð í mér því oftar en einu sinni treysti hún mér fyrir að passa allan hópinn sinn þegar þau Úlli brugðu sér í helgarferð til Reykjavíkur. Ég hef verið 17-19 ára. Þetta gekk allt vel. Mér er minnisstætt að eina nóttina vaknaði Þórey litla og vildi fá mömmu sína. Ég gekk um gólf með hana og sagði sífellt „mamma kemur bráðum“, við þetta róaðist hún. Gunna mun örugglega halda verndarhendi yfir barnahópnum sínum. Getið þið börnin hennar huggað ykkur við yndislegar minningar um góða mömmu sem alltaf vildi ykkur það besta.

Gunna var alltaf mikil fjölskyldukona sem vildi hafa allt sitt fólk í kringum sig. Elskuð af afkomendum sínum. Það var mikið áfall fyrir fjölskylduna þegar Úlli féll frá, blessuð sé minning hans.

Vil ég þakka elsku Gunnu fyrir allt sem hún var mér sem stelpukrakka, unglingi og ungri konu. Hún snerti vissulega minn lífsins streng þegar ég var að vaxa og þroskast. Það gleymist ekki.

Elsku Kristjana, Brynja, Hermann og Þórey, innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra og fjölskyldunnar.

Blessuð sé minning Guðrúnar Karlsdóttur.

Svanfríður Þórðardóttir.