Diana er hér á mynd með yngri syni sínum Nikita sem er tíu ára.
Diana er hér á mynd með yngri syni sínum Nikita sem er tíu ára. — Morgunblaðið/Ásdís
Ég gæti hugsað mér að búa hér áfram en hjarta mitt er alltaf í Úkraínu og ég myndi vilja eiga möguleika á að heimsækja fjölskyldu mína heima. Ísland er núna mitt annað heimili og hér var tekið vel á móti okkur.

Diana flúði stríðið og kom til Íslands 18. mars 2022, nokkrum vikum eftir að stríð braust út í heimalandinu Úkraínu. Markmið hennar var fyrst og fremst að koma sonum sínum tveimur í öruggt skjól.

Hef áhyggjur af framtíðinni

„Allt hefur gengið vel á Íslandi og við erum ánægð með að Íslendingar tóku vel á móti okkur en ég hef áhyggjur af framtíðinni,“ segir Diana sem vinnur á leikskólanum Mánahvoli í Urriðaholti þar sem hún býr ásamt sonum sínum, tíu og sextán ára.

„Ég er að vinna með yngstu börnunum og það er mjög fín vinna, en heima í Úkraínu var ég bæði að vinna á leikskóla og að sauma brúðarkjóla,“ segir hún.

Fjölskyldan fékk fljótlega eftir komuna úthlutaða litla íbúð í nýrri blokk í Urriðaholti en Diana segir að eftir að leigufélagið Alma keypti húsnæðið hafi leiguverðið sífellt hækkað.

„Leigan er rosalega há og nú í mars rennur leigusamningurinn út og eftir það hækkar verðið enn meira. Þá mun leigan hækka úr 322 þúsundum í 340 þúsund,“ segir Diana og segist fá húsaleigubætur og styrk frá Garðabæ.

„En nú fékk ég skilaboð frá bænum um að þau myndu hætta að styrkja mig. Ég hef verið að leita að ódýrara húsnæði en ég finn ekkert og við viljum ekki flytja úr hverfinu þar sem ég vinn hér rétt hjá og yngri sonurinn er hér í skóla, og ég á ekki bíl,“ segir hún.

Diana segir strákana hafi aðlagast ágætlega lífinu á Íslandi; sérstaklega eldri drengurinn sem stundar nám í Tækniskólanum. Strákarnir eru farnir að skilja og tala töluvert í íslensku, en sjálf segist Diana geta talað smávegis, en er nú á námskeiði sem Garðabær býður upp á.

„Það er kennt á ensku, sem er erfitt, en þegar ég kom hingað talaði ég enga ensku því ég lærði frönsku í skóla. Ég er því að læra tvö tungumál á sama tíma,“ segir hún og brosir.

Ungur frændi drepinn

Diönu grunaði ekki að stríðið myndi standa svona lengi og segist hafa haldið að hún yrði komin aftur heim þremur mánuðum eftir að hún flúði til Íslands. Hún segist nú ekki hafa hugmynd um hvað stríðið muni vara lengi, en í síðustu viku missti hún náinn frænda sinn.

„Frændi minn, sem átti konu og lítið barn, átti tvær vikur í þrítugsafmælið sitt þegar hann var var skotinn af leyniskyttu. Hann hafði verið hermaður í sjö ár, því í raun hófst stríðið árið 2014. Hann var því 23 ára þegar hann gerðist atvinnuhermaður,“ segir hún.

„Við vorum systkinabörn, alin upp í sömu götu. Hann var litli frændi minn,“ segir Diana og segir hann þann eina úr fjölskyldunni sem hafi týnt lífinu í stríðinu en hins vegar hafi bæði vinir og nágrannar verið drepnir.

Spurð hvernig andrúmsloftið sé heima fyrir, svarar hún:

„Í síðustu viku missti fólkið borgina sína og öllum leið illa en Úkraínubúar eru harðir af sér og láta ekki buga sig. Úkraínumenn gefast ekki upp. En ef Rússarnir vinna stríðið fer ég ekki til baka,“ segir Diana.

„Ef ég færi heim myndi eldri sonur minn enda sem hermaður í stríði og það má ekki gerast,“ segir hún og nefnir að pabbi hennar og amma séu enn í Úkraínu. Flestir vinir hennar hafa flúið land.

Rússneskir ættingjar í afneitun

Við ræðum yfirstandandi stríð og segir Diana vanta mikið upp á stuðning annarra ríkja.

„Það þarf að taka betri ákvarðanir. Við fáum smávegis stuðning frá öðrum löndum en alls ekki nóg. Ef við fáum ekki hjálp frá öðrum þjóðum mun stríðið halda áfram um ókomna tíð,“ segir Diana og að almenningur í Rússlandi viti ekki hvað sé að gerast í raun í stríðinu.

„Ég á skyldmenni í Rússlandi sem trúa ekki því sem er að gerast í Úkraínu. Þau segja að Pútín hafi ekki áhuga á Úkraínu heldur sé einungis að hjálpa okkur. Þau segja að Rússar séu að vernda Úkraínu frá því að önnur lönd ráðist þar inn. Nú þegar frændi okkur lést nýlega, þá heyrist lítið í þessu frændfólki okkar í Rússlandi. Við erum öll saman í spjallhópi en nú er bara þögn þeirra megin,“ segir hún og nefnir að stríðið sé að sundra fjölskyldum því margir Úkraínumenn eigi fjölskyldu í Rússlandi.

„Í Rússlandi er takmarkað aðgengi að internetinu og fólk fær ekki neinar upplýsingar, nema frá stjórnvöldum.“

Ísland mitt annað heimili

Ef stríðið endar, segjum eftir ár, myndir þú vilja flytja aftur heim í land sem er í rúst?

„Eldri strákurinn minn er að verða stór og ég myndi sjá til hvað strákarnir mínir myndu vilja gera,“ segir Diana, en borgin hennar Tsjernívtsí er í dag ein af fáum borgum sem enn eru ekki eyðilagðar af sprengjum, en sírenur hljóma þar oft á tíðum. Áður en hún flúði þurfti hún að fela sig í kjallaranum og tók fljótt ákvörðun um að flýja.

„Ég er hrædd við sprengjur og atómsprengjur og vildi fara eins langt frá Rússlandi og ég gæti. Ég gæti hugsað mér að búa hér áfram en hjarta mitt er alltaf í Úkraínu og ég myndi vilja eiga möguleika á að heimsækja fjölskyldu mína heima. Ísland er núna mitt annað heimili og hér var tekið vel á móti okkur,“ segir hún og segist hafa mætt hér miklum velvilja allra.

„Lífið hér gengur sinn vanagang en allt er mjög dýrt. En ég á hér góða vini sem hjálpa mér og færa mér stundum mat og föt. Drengirnir eru oftast glaðir, en það var erfitt fyrir þá að flytja í nýtt land. Yngri sonur minn er leiður yfir því að hafa þurft að skilja hundinn sinn eftir í Úkraínu.“