Frammistaða íslenska liðsins í Stara Pazova var langt frá því að vera nægilega góð og óhætt er að segja að það hafi sloppið vel frá leiknum með jafntefli. Fyrir fram var talið að Serbía væri erfiðasti andstæðingurinn sem Ísland gat dregist gegn í þessu umspili og það er örugglega rétt

Frammistaða íslenska liðsins í Stara Pazova var langt frá því að vera nægilega góð og óhætt er að segja að það hafi sloppið vel frá leiknum með jafntefli.

Fyrir fram var talið að Serbía væri erfiðasti andstæðingurinn sem Ísland gat dregist gegn í þessu umspili og það er örugglega rétt. Serbneska liðið var betra á mörgum sviðum leiksins í gær, bæði hvað varðaði einstaklingsgæði og samvinnu leikmanna. Það eitt og sér er áhyggjuefni, íslenska liðið „á að vera“ sterkara, samkvæmt heimslista og fyrri árangri en miðað við þennan leik er serbneska liðið ekki lakara en það íslenska og freistar þess án efa að sækja til sigurs í seinni leiknum í Kópavogi á þriðjudaginn.

Það hefur áður háð íslenska liðinu hve illa því gengur að halda boltanum innan sinna raða og þannig var leikurinn í Stara Pazova í gær. Liðið skapaði sér alltof fáar alvörusóknir í leiknum og missti boltann alltof oft eftir tvær til þrjár sendingar.

Glódís Perla Viggósdóttir bar af í íslenska liðinu, og svo sem ekki í fyrsta skipti. Hún steig ekki feilspor í vörninni og stjórnaði liðinu og sá til þess að Serbar fengju takmörkuð tækifæri til að binda endahnút á sínar sóknir.

Það sem Glódís stöðvaði ekki sá Telma Ívarsdóttir um í markinu en hún spilaði af miklu öryggi allan tímann, varði þau skot sem hún þurfti og greip mjög vel inn í leikinn. Telma gat ekkert gert við glæsilegu marki Serbanna.