Heimsendingar Katrín Aagestad Gunnarsdóttir og Elisabeth Stenersen fagna samstarfinu.
Heimsendingar Katrín Aagestad Gunnarsdóttir og Elisabeth Stenersen fagna samstarfinu. — Ljósmynd/Viktor Richardsson
Netverslunin Heimkaup hefur samið við heimsendingarfyrirtækið Wolt um hraðsendingar á vörum til viðskiptavina Heimkaupa. Katrín Aagestad Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri markaðsmála Heimkaupa, segir í samtali við Morgunblaðið að um hreina viðbót við…

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Netverslunin Heimkaup hefur samið við heimsendingarfyrirtækið Wolt um hraðsendingar á vörum til viðskiptavina Heimkaupa.

Katrín Aagestad Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri markaðsmála Heimkaupa, segir í samtali við Morgunblaðið að um hreina viðbót við núverandi heimsendingarþjónustu Heimkaupa sé að ræða.

„Við höfum ákveðið að nota þjónustu Wolt fyrir allar hraðsendingar, allt sem þarf að vera komið til viðskiptavinar innan 60 mínútna,“ segir Katrín. Hún bætir við að sendingin geti mögulega verið komin heim til fólks innan 30 mínútna með Wolt.

Hefðbundin heimsending áfram í boði

Hefðbundin heimsending verður áfram í boði hjá Heimkaupum en þá er rýmri afhendingartími eins og Katrín útskýrir.

„Ef þú velur að fá sent milli kl. 16-18 eða frá 18-22 til dæmis þá koma sendlar Heimkaupa með vörurnar. En ef þú hefur óvart gleymt lykilhráefni í matinn sem þú ert að elda eða vantar veitingar með hraði af öðrum ástæðum, þá kemur Wolt á örskotsstundu.“

Þjónusta Wolt nær yfir stærstan hluta höfuðborgarsvæðisins að sögn Katrínar.

„Vöruhúsið okkar er í Faxafeni. Við miðum við ákveðinn radíus í kringum það til að geta staðið við þjónustuloforðið, að afhenda á þessum skamma tíma. Mosfellsbær og Hafnarfjörður falla til dæmis ekki þar undir ennþá en við erum auðvitað strax byrjuð að skoða leiðir til að stækka svæðið.“

Ekki finna upp hjólið

Katrín segir að samstarf Wolt og Heimkaupa sé nokkuð sem báðir aðilar græði á.

„Þau eru sérfræðingar í hraðsendingum og við sáum okkur þarna leik á borði. Maður þarf ekki alltaf að vera að finna upp hjólið. Með þessu eykur Wolt vöruúrvalið hjá sér, að geta sent matvöru heim, og við fáum traustan samstarfsaðila.“

Spurð um þróun netverslunar síðustu misseri segir Katrín að geirinn sé mjög árstíðabundinn. Það geri hann mjög skemmtilegan.

„Jólin eru alltaf mjög annasöm. Svo er ákaflega sterk fylgni milli pantana hjá okkur og þess þegar byrjar að kólna og snjóa. Veðrið hefur rosaleg áhrif. Fólki finnst notalegt að panta og fá heimsent þegar færðin versnar.“

Einnig er að sögn Katrínar hægt að sækja vörur í vöruhúsið í Faxafeni.

„Þá er hægt að sækja á afhendingarstaði Dropp um allan bæ og hjá Pikkoló. Það getur verið hentugt að koma við þar á leið heim úr vinnu til dæmis,“ segir Katrín.

Mikilvægur áfangi

Elisabeth Stenersen, framkvæmdastjóri Wolt í Noregi og á Íslandi, segir að samstarfið við Heimkaup sé mikilvægur áfangi þar sem Heimkaup séu fyrsta stóra matvöruverslunin í viðskiptavinahópnum.

„Reynsla okkar af sambærilegum samstarfsaðilum í Noregi er mjög góð. Viðskiptavinir elska þessa þjónustu og finnst afar þægilegt að geta verslað í ró og næði heima við og fengið afhent innan hálfíma,“ segir Stenersen.

Wolt

Wolt hóf heimsendingar á Íslandi á vormánuðum 2023.

Stofnað í Finnlandi árið 2014.

Bandaríski heimsendingarrisinn Door Dash keypti Wolt árið 2021 fyrir sjö milljarða evra í hlutabréfum.

Door Dash starfar í 29 löndum, þar af í 25 undir merkjum Wolt.