Minning Selenskí Úkraínuforseti leggur hér blóm ásamt Mette Fredriksen, forsætisráðherra Dana, í minningarathöfn um fallna hermenn í Lvív.
Minning Selenskí Úkraínuforseti leggur hér blóm ásamt Mette Fredriksen, forsætisráðherra Dana, í minningarathöfn um fallna hermenn í Lvív. — AFP/Mads Claus Rasmussen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tvö ár eru liðin í dag frá því að Vladimír Pútín Rússlandsforseti fyrirskipaði herjum sínum að hertaka Úkraínu. Þó að hetjuleg vörn Úkraínumanna hafi náð að afstýra því að höfuðborgin Kænugarður félli, hafa síðustu vikur stríðsins ekki veitt mikla…

Fréttaskýring

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Tvö ár eru liðin í dag frá því að Vladimír Pútín Rússlandsforseti fyrirskipaði herjum sínum að hertaka Úkraínu. Þó að hetjuleg vörn Úkraínumanna hafi náð að afstýra því að höfuðborgin Kænugarður félli, hafa síðustu vikur stríðsins ekki veitt mikla von um bjartsýni, og má segja að mikil óvissa ríki á þessum tímamótum um það hvernig stríðinu muni lykta.

Staðan horfði öðruvísi við á sama tíma í fyrra, en þá höfðu Úkraínumenn ekki bara náð að verja höfuðborgina, heldur höfðu þeir einnig náð að þrýsta Rússum út úr megninu af Karkív-héraði, sem og öllu Kerson-héraði vestan Dnípró-fljótsins.

Gagnsóknin sem aldrei varð

Frammistaða Úkraínumanna á fyrsta ári styrjaldarinnar þótti benda til þess að með nægum stuðningi vesturveldanna myndu þeir geta endurtekið leikinn um vorið 2023 með gagnsókn, sem myndi miða að því að skera á það landsvæði sem Rússar höfðu lagt undir sig í héruðunum Saporísja og Kerson og um leið einangra Krímskaga frá Rússlandi.

Tafir sem urðu í undirbúningi gagnsóknarinnar leiddu hins vegar til þess að Rússar fengu nægan tíma til að undirbúa varnarlínur sínar, og þegar gagnsóknin loks hófst í júní 2023 kom í ljós að Úkraínumenn áttu erfitt með að mæta þeirri blöndu af eftirlitsdrónum, jarðsprengjubeltum og víggirðingum sem Rússar höfðu komið fyrir. Þótti þá ekki verjandi að hætta of miklu af takmörkuðum mannafla og gekk gagnsóknin því hægt.

Úkraínumenn náðu að frelsa um 14 þorp í Sapórísja-héraði í gagnsókn sinni, og var það mun minna en vonir þeirra og bandamanna stóðu til. Þegar vetur skall á þótti ljóst að það myndi taka tíma fyrir Úkraínumenn að byggja aftur upp nægan styrk til þess að sækja fram á nýjan leik.

Bárust seint eða illa

Þó að vesturveldin hétu því að þau myndu senda Úkraínumönnum hergögn bárust þau oftar en ekki seint eða illa og í takmörkuðu magni. Bandaríkin sendu til dæmis 31 M1A1 Abrams-skriðdreka og Bretar sendu 14 Challenger 2-skriðdreka.

Á sama tíma ákváðu Þjóðverjar eftir mikinn þrýsting í byrjun árs 2023 að hefja sendingar á Leopard 2-skriðdrekanum sínum, og um leið að leyfa öðrum ríkjum að senda sín eintök af skriðdrekanum til Úkraínu. Úkraínuher ræður nú yfir um 130 slíkum skriðdrekum, á sama tíma og yfirmenn hersins áætluðu að þeir þyrftu allt að tífalt fleiri slíka til þess að ná örugglega í gegnum varnarlínu Rússa.

Sama gilti um vestrænar orrustuþotur og langdrægar eldflaugar, sem Úkraínumenn hafa lengi óskað eftir. Þau vopn gætu hjálpað þeim að skera á birgðalínur Rússa á hernumdu svæðunum, ekki síst til Krímskagans, en slíkar aðgerðir eru nauðsynlegur undanfari þess að Úkraínumenn geti leitt hugann að gagnsókn á ný.

Þrátt fyrir að samþykki hafi fengist frá Bandaríkjastjórn í ágúst síðastliðnum um að Úkraínumenn gætu fengið F-16-herþotur, stefnir allt í að fyrstu eintökin berist þeim ekki fyrr en nú í júní árið 2024, tæpu ári síðar.

Þá sendu Bandaríkjamenn svonefndar ATACMS-eldflaugar í mjög takmörkuðu magni um haustið 2023, en Þjóðverjar rökræða enn hvort þeir eigi að senda sínar langdrægu eldflaugar af TAURUS-gerð.

Skammlíf uppreisn Wagner

Á meðan beðið var eftir gagnsókninni glímdu Rússar við sína eigin erfiðleika. Hinn 23. júní dró til tíðinda þegar Jevgení Prigósjín, leiðtogi Wagner-málaliðahópsins, ákvað að gera uppreisn gegn yfirstjórn rússneska hersins, einkum þeim Valerí Gerasímov, yfirmanni rússneska herráðsins, og Sergei Shoígú varnarmálaráðherra.

Wagner-hópurinn náði fyrst Belgorod á sitt vald og hélt svo norður til Moskvu. Voru sveitir Prigósjíns komnar um 300 kílómetra frá Moskvu þegar hann gerði samkomulag við Pútín sem fól í sér að hann og Wagner-hópurinn fóru í sjálfskipaða útlegð til Hvíta-Rússlands. Prigósjín sagði þar að Wagner myndi næst láta taka til sín í Afríku.

Prigósjín og Wagner-hópnum entist þó ekki aldur til þess að láta þá drauma rætast, því að 23. ágúst, tveimur mánuðum upp á dag eftir uppreisnina, hrapaði flugvél Prigósjíns, sem var á leiðinni frá St. Pétursborg til Moskvu, til jarðar.

Vesturveldin hafa sakað Pútín og rússnesk stjórnvöld um að hafa grandað vélinni, en flest bendir til þess að sprengja hafi verið flutt um borð í vínkassa skömmu fyrir flugtak.

Afleiðingar uppreisnarinnar eru margþættar, þar sem hún sýndi að mögulega væri tak Pútíns á hernum og rússnesku samfélagi ekki jafnsterkt og hann vildi vera láta, en Wagner-liðum var víðast hvar vel tekið þar sem þeir fóru í skammlífri sókn sinni að Moskvu. Á hinn bóginn náðu endalok uppreisnarinnar og hið sviplega fráfall Prigósjíns tveimur mánuðum síðar að styrkja stöðu Pútíns, en fáir eru nú eftir, sem taldir eru í stöðu til þess að ógna valdi hans innan Rússlands.

Ósætti í Washington-borg

Repúblikanar á Bandaríkjaþingi ákváðu í október 2023 að ekki yrði samþykkt frekari hernaðaraðstoð til erlendra ríkja, þar á meðal Úkraínu, nema hún yrði samtengd við aðgerðir gegn stórauknum fjölda hælisleitenda og ólöglegra innflytjenda á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó, en þverpólitískt samkomulag repúblikana og demókrata í byrjun febrúar 2024 náði ekki fram að ganga vegna andstöðu frá Donald Trump, sem nú er líklegastur til þess að verða frambjóðandi Repúblikanaflokksins.

Fjárheimildir Bandaríkjastjórnar til að senda hergögn til Úkraínu runnu út í lok janúar, en þar munaði mest um skotfæri handa því stórskotaliði sem Bandaríkjamenn hafa látið Úkraínumönnum í té. Frumvarp öldungadeildarinnar um aðstoð við Úkraínu, Ísrael og Taívan liggur nú fyrir fulltrúadeildinni, en ekki er vitað á þessari stundu hvenær fulltrúadeildin mun afgreiða það.

Ríki Evrópu hafa brugðist við þessari stöðu með því að auka sinn eigin stuðning við Úkraínu, á sama tíma og þau virðast nú vera að átta sig á því að hin nýja ógn frá Rússlandi kallar á frekari útgjöld til sinna eigin varnarmála. Framlag Evrópuríkjanna hefur þó til þessa ekki náð að koma í staðinn fyrir þau hergögn sem Bandaríkjamenn geta einir veitt.

Það þykir því bagaleg staða fyrir vesturveldin að eftir fögur fyrirheit ráðamanna í Bandaríkjunum, um að þau myndu standa við bak Úkraínu svo lengi sem þörf krefði á, hafi pólitískar innanríkisdeilur náð að lama vopnasendingar þeirra til landsins, a.m.k. tímabundið.

Pyrrhosarsigur eða vendi- punktur fyrir Rússa?

Skotfæraskorturinn hefur haft ýmsar afleiðingar í för með sér, þar sem stórskotaliði Úkraínumanna er helst beitt til þess að draga úr sóknarkrafti rússneska hersins. Hann hóf í októbermánuði sókn að bænum Avdívka í Donetsk-héraði, sem Úkraínumenn hafa haft á valdi sínu frá árinu 2015, þrátt fyrir að Rússar réðu yfir Donetsk-borg um 10 kílómetrum sunnar.

Tilraunir Rússa til að hertaka bæinn þóttu mjög kostnaðarsamar, en í vetur bárust stöðugt fregnir af mannfalli og eyðilögðum vígtólum Rússa í nágrenni bæjarins. Rússar náðu hins vegar sífellt meir að vinna á, þar sem stórskotalið Úkraínumanna gat ekki lengur dregið tennurnar úr árásum þeirra, og náðu þeir bænum á sitt vald 17. febrúar í síðustu viku.

Mannfallstölur Rússa í Avdívka eru ekki á hreinu, en rússneski stríðsbloggarinn Murz, sagði að í heildina hefðu 16.000 Rússar fallið og um 300 skriðdrekar og bryndrekar eyðilagst í tilraunum þeirra til að hertaka bæinn, sem er nú rústir einar. Þrýst var á Murz, sem var eindreginn stuðningsmaður innrásarinnar, að eyða færslu sinni, og ákvað hann í kjölfarið að taka eigið líf.

Séu þessar tölur um mannfall Rússa í orrustunni um Avdívka réttar, er freistandi að tala um Pyrrhosarsigur þeirra í orrustunni um Avdívka. Slík fullyrðing lítur þó framhjá því að Úkraínumenn hafa sjálfir beðið nokkurt mannfall á síðustu mánuðum. Þá þykir sigur Rússa í Avdívka benda eindregið til þess að frumkvæðið í stríðinu sé nú komið kirfilega í þeirra hendur, og Kremlverjar hafa gert allt sem þeir geta til þess að ýkja vægi bæjarins í stríðinu.

En þó að ólíklegt sé að orrustan um Avdívka reynist sá vendipunktur sem Rússar vonast eftir er ljóst að Úkraínumenn munu þurfa að hafa sig alla við til þess að hindra að Rússar nái að leggja undir sig fleiri þorp og bæi. Þá ýtir ósigurinn undir þá ímynd á Vesturlöndum, sem Úkraínumenn mega illa við, að Rússar hafi nú öll tögl og hagldir, en það gæti dregið úr stuðningi til Úkraínumanna úr vestri.

Þriðjungur í varnarmál

Tíminn vinnur því með Kremlverjum að þeirra mati. Hergagnaiðnaður þeirra er nú kominn á fullt flug og talið er líklegt að Pútín muni boða til herkvaðningar allt að 400.000 manns þegar niðurstaðan úr forsetakosningunum 15.-17. mars er ljós. Staða hans meðal rússneskra valdamanna þykir trygg og helsti andstæðingur hans, Alexei Navalní, lést í gúlaginu í síðustu viku eftir illa meðferð í þrjú ár.

Rétt er þó að hafa einnig í huga að þriðjungur rússneskra ríkisútgjalda rennur nú í varnarmálahítina, og hið mikla mannfall í Úkraínu hefur þegar ýtt undir ókyrrð í sumum af úthéruðum Rússlands, sem hafa veitt hernum obbann af nýliðum sínum.

Jákvæðu fréttirnar fyrir Úkraínumenn eru helst þær, að þeim hefur tekist að hrekja Svartahafsflota Rússa frá vesturhluta hafsins. Sú þróun gæti skipt sköpum, þar sem helstu útflutningsvörur Úkraínu þurfa að fara sjóleiðina til annarra ríkja og hafnbann Rússa, sem hefði annars getað svelt Úkraínu til hlýðni, hefur ekki náð að halda.

Það eru því ýmsar blikur á lofti. Fyrir Úkraínumenn veltur margt á því að hernaðaraðstoð berist á ný frá Bandaríkjunum, en ljóst er að þeir munu ekki gefast upp fyrr en í fulla hnefana. Á sama tíma bendir ekkert til þess að Rússar hafi vikið frá upphaflegum stríðsmarkmiðum sínum um að knésetja sjálfstæði Úkraínu fyrir fullt og allt.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson