Jón Arason fæddist á Borg á Mýrum, Hornafirði, 13. ágúst 1929. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Skjólgarði 17. febrúar 2024.

Foreldrar hans voru Ari Sigurðsson, bóndi á Borg, f. 1891, d. 1957, og Sigríður Gísladóttir, húsfreyja á Borg, f. 1891, d. 1991. Jón var næstyngstur 11 systkina. Elstur var Vigfús, hálfbróðir þeirra sammæðra, f. 1911, d. 1975, þá Sigurður, f. 1916, d. 1943, Gísli Ólafur, f. 1917, d. 2017, Fjóla, f. 1919, d. 2013, Guðjón, f. 1921, d. 2016, Lilja, f. 1922, d. 2018, Ástvaldur, f. 1924, d. 2009, Steinunn, f. 1926, d. 2015, Ragnar, f. 1928, d. 2022 og yngst er Hólmfríður, f. 1933, en hún er búsett í Reykjavík.

Jón kvæntist Sigríði Vilhjálmsdóttur frá Gerði í Suðursveit, f. 4. apríl 1934, d. 6. desember 2015. Foreldrar hennar voru Vilhjálmur Guðmundsson frá Skálafelli í Suðursveit og Guðný Sigurbjörg Jónsdóttir frá Flatey á Mýrum.

Börn þeirra eru: 1) Guðrún Arndís viðskiptafræðingur, f. 29. júlí 1955, búsett á Akureyri. Dætur Guðrúnar og Magnúsar Jónssonar eru: a) Ragnheiður Reykjalín, f. 1977, gift Ólafi Pálma Guðnasyni og eiga þau 3 börn. b) Guðný Reykjalín, f. 1979, gift Hreiðari Mássyni og eiga þau tvo syni. 2) Elfa Signý hjúkrunarfræðingur, f. 12. mars 1957, gift Hannesi Höskuldssyni framkvæmdastjóra, f. 8. september 1956 en þau eru búsett á Húsavík. Börn Elfu og Hannesar eru: a) Jóna Björk, f. 1978, og á hún þrjú börn. b) Reynir Aðalsteinn, f. 1988, sambýliskona hans er Ásgerður Guðjónsdóttir og eiga þau einn son. c) Sigþór, f. 1992, sambýliskona hans er Helga Björg Heiðarsdóttir, eiga þau tvær dætur. d) Erna Sigríður, f. 1993, gift Hafþóri Mar Aðalgeirssyni, en þeirra börn eru þrjú. 3) Sigurður Gunnar bifvélavirki, f. 27. október 1976, búsettur á Höfn.

Jón og Sigga voru sín fyrstu búskaparár á Borg en fluttu árið 1960 að Nýpugörðum sem er nýbýli úr landi Borgar, þar bjuggu þau og stunduðu búskap til ársins 1972 en þá fluttu þau á Höfn. Tveimur árum seinna fluttu þau svo í Flatey á Mýrum þar sem Jón hafði umsjón með uppbyggingu á Graskögglaverksmiðjunni í Flatey. Þar var heimili þeirra til ársins 1985 er þau fluttu aftur til Hafnar og eftir það starfaði Jón hjá Sveitarfélaginu Hornafirði.

Útför Jóns fer fram frá Hafnarkirkju í dag, 24. febrúar, kl. 11.

Elsku pabbi! Nú ertu farinn í sumarlandið, örugglega feginn hvíldinni. Nokkur orð um óþekktarorminn mig. Ég er elst af krökkunum þínum. Við vorum nokkuð náin enda lík. Við þurftum oft ekki að tala saman heldur skildum hvort annað án samtals. Mamma sagði mér frá því einu sinni að í eitt skipti þegar ég er ca. ársgömul þá áttir þú að passa mig og fórst með mig í fjárhúsin á Kletti. Kindunum var gefið en þegar þú komst heim á Borg aftur var engin stelpa með þér, þú gleymdir mér í fjárhúsunum. Mamma sagðist aldrei hafa séð þig hlaupa eins hratt, ég sat bara í garðanum og spjallaði við kindurnar enda hafði ég alltaf mjög gaman af því að atast með þér í fjárhúsunum. Við þekktum allar kindurnar með nafni en kom fyrir að við þrættum um hver væri hvað.

Ófáar voru stundirnar sem við eyddum með hestunum og þú varst góður hestamaður, flinkur að temja og laginn við allar skepnur. Það kom fyrir að ég stal besta reiðhestinum þínum og þú sast eftir með trippin. En það var allt í lagi, þau fengu þá góða tamningu. Seinna sendir þú mér alla hestana norður í land.

Einu sinni gerði ég þér og mömmu stóran grikk. Kýrin hún Rósalind bar að sumri til, kálfurinn var tekinn undan eins og vera ber en það var heimalningur, (lamb) á Nýpugörðum sem ég vandi undir kúna þannig að hún mjólkaði ekki mikið það sumarið því lambið gekk undir henni. Lambið var gríðarvel á sig komið um haustið og vildi ég láta það lifa en þú hélst nú ekki, varst alveg kominn með nóg af þessu, en mér var fyrirgefið.

Oft tókum við í hljóðfæri saman, þú kenndir mér á harmonikku og þið mamma gáfuð mér gítar. Ég náði varla upp á orgelið þegar ég var búin að læra að spila Gamla Nóa. Það var mikið „djammað“ á heimilinu og mikið um tónlist og hljómsveitaræfingar.

Það voru mikil forréttindi að fá að alast upp hjá svo góðum foreldrum við frjálsræðið í sveitinni. En nú er komið að leiðarlokum, takk fyrir allt og allt.

Guðrún Arndís.

Elsku pabbi.

Nú þegar þú ert farinn streyma minningarnar fram. Þú varst yndislegur pabbi, ljúfur og skemmtilegur – og þolinmóður svona yfirleitt. En ef það átti að vinna eitthvað vildir þú láta hlutina ganga og klára verkið. Og ég fékk að vera með þér og reyna að hjálpa til þó ég væri ekki stór. Þú kenndir mér svo margt sem ég bý alltaf að.

Ég minnist stunda þegar þú fórst í fjósið til að mjólka. Við systur fórum með og sátum hvor á sínum fjósastólnum og þú sagðir okkur sögur. Af þeim kunnir þú mikið og hermdir þá gjarnan eftir sögupersónunum því þú varst góð eftirherma.

Svo var það tónlistin. Þú varst einstaklega tónelskur og gast spilað á ótal hljóðfæri. Þú sagðir oft frá því þegar þú varst lítill strákur á Borg, þá æfðir þú þig eins oft og færi gafst á stofuorgelið sem þar var til. En þitt aðalhljóðfæri var harmonikkan. Á hana spilaðir þú fyrir dansi frá unglingsaldri og varst í mörgum hljómsveitum. Og allt var spilað eftir eyranu. Þú þurftir aðeins að heyra lagið einu sinni þá gastu spilað það.

Ég minnist hljómsveitaræfinga heima á Nýpugörðum. Þá var mikið fjör og mamma kenndi okkur systrum að dansa. Harmonikkan var alltaf tekin upp þegar haldnar voru afmælisveislur eða ættarmót. Þá spiluðuð þið Ragnar bróðir þinn á nikkurnar og Gísli bróðir ykkar á munnhörpu. Söngur var líka stór þáttur í þínu lífi. Þið systkinin á Borg sunguð mikið saman og mér finnst þú alltaf hafa verið í einhverjum kór frá því ég man eftir mér. Ég man eftir kirkjukórsæfingum í sveitinni. Við fengum oft að koma með. Ég man hvað mér fannst tónlistin falleg og gaman að reyna að syngja með. Það er sennilega þess vegna sem ég hef sungið lengi í kirkjukór.

Þú varst einstaklega barngóður. Þess nutum við börnin þín og seinna barnabörnin.

Þið mamma byggðuð ykkur lítinn bústað í Heinabergi og þangað var alltaf farið með nesti þegar við heimsóttum ykkur á sumrin. Krakkarnir höfðu gaman af að leika sér þar í klettunum og best var þegar þau fengu að prófa gömlu Massey Ferguson með þér.

Síðustu árin dvaldir þú á hjúkrunarheimilinu Skjólgarði þar sem þú naust góðrar umönnunar og hlýju. Vil ég færa starfsfólki heimilisins hjartans þakkir fyrir.

Já elsku pabbi minn. Nú ertu farinn í sumarlandið, frjáls eins og fuglinn og vonandi farinn að spila þar á harmonikkuna.

Ég mun alltaf sakna þín.

Þín dóttir,

Elfa.