Breiðfylkingin … meðan allt lék í lyndi. Verkalýðsforkólfar í Karphúsinu með Ragnar Þór Ingólfsson lengst til vinstri. Hann vildi ekki una við að samið væri um verðbólguviðmið 0,2% frá kröfu VR og sagði sig því frá breiðfylkingunni.
Breiðfylkingin … meðan allt lék í lyndi. Verkalýðsforkólfar í Karphúsinu með Ragnar Þór Ingólfsson lengst til vinstri. Hann vildi ekki una við að samið væri um verðbólguviðmið 0,2% frá kröfu VR og sagði sig því frá breiðfylkingunni. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Samtök ferðaþjónustunnar kvörtuðu undan því að samkeppnisstaða Íslands væri að versna í geira sínum. Álösuðu þó ekki sjálfum sér. Ferðamenn, sem komu til opnunar Bláa lónsins, kvörtuðu undan því að vellandi hraunkviku væri hvergi að sjá

17.2-23.2.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Samtök ferðaþjónustunnar kvörtuðu undan því að samkeppnisstaða Íslands væri að versna í geira sínum. Álösuðu þó ekki sjálfum sér.

Ferðamenn, sem komu til opnunar Bláa lónsins, kvörtuðu undan því að vellandi hraunkviku væri hvergi að sjá.

Skipulagsbreytingar á Landspítalanum urðu til þess að auka afköst án þess að fjölga starfsfólki.

Gjaldþol Náttúruhamfaratryggingar Íslands mun veikjast mjög nýti ráðherra fé úr sjóðum hennar til að kaupa upp íbúðarhúsnæði í Grindavík. Ósennilegt er að það reynist síðustu hamfarir í landinu.

Interpol lýsti eftir Pétri Jökli Jónassyni, íslensku athafnaskáldi á sviði efnaútflutnings frá Brasilíu til Íslands

Sjómannasambandið samþykkti nýgerðan kjarasamning við útgerðarmenn til langs tíma.

Orkustofnun samþykkti óvænt öll áform Landsnets um endurbætur á orkuflutningskerfi þess.

Vorboðinn ljúfi, skattframtalið, verður opnað fyrir landsmönnum hinn 1. mars og hyggst Skatturinn veita skattborgurunum margvíslega aðstoð af þeim sökum. Þó engar bónusgreiðslur.

Greint var frá því að hin norrænu ríkin hefðu boðið fram aðstoð sína við Grindvíkinga, m.a. varðandi innflutning á einingahúsum.

Ömurlegar niðurstöður PISA um kunnáttu íslenskra skólabarna hafa orðið til þess að sala á barnabókum tók kipp.

Guðrún Hafsteinsdóttir boðaði frumvarp um breytt lögreglulög, sem miðar að því að fá lögregluþjónum auknar heimildir í baráttu við skipulagða glæpastarfsemi.

Söngvakeppni Ríkisútvarpsins kostar um 125 m.kr., en óvíst er um kostnað við Evrósjón þar sem hvorki keppendur né utanríkisráðherra hafa viljað taka ómakið af Stefáni Eiríkssyni útvarpsstjóra um að ákveða hvort óhætt sé að Íslendingar keppi við gyðinga.

Innviðaráðherra upplýsti að árið 2022 hefði verið áætlað að 2.474 hefðu búið í atvinnuhúsnæði af ýmsu tagi, einkum þá erlendir verkamenn.

Harpa, tónlistarhöll alþýðunnar, ætlar að kaupa hljóðblöndunarborð fyrir 180 milljónir kr. Húsið var tekið í notkun 2011.

Fæðingar á Íslandi voru ámóta margar í fyrra og árið á undan, en alls komu 4.300 börn í heiminn.

Rafmagnslaust varð á Suðurlandi um tíma á sunnudag.

Egill Sigurðsson, bóndi og fv. oddviti Áshrepps, dó 64 ára.

Grindavík var opnuð á nýjan leik og má dvelja þar og starfa allan sólarhringinn. Yfirvöld tóku þó skýrt fram að bærinn væri ekki staður fyrir börn.

Jarðfræðingar undirbjuggu sig fyrir neðansjávargos í námunda við Eldey, en verði af því gæti það létt á eldstöðvarkerfi Svartsengis.

Þórdís Gylfadóttir fjármálaráðherra fór þess á leit við óbyggðanefnd að hún endurskoðaði afstöðu sína í þjóðlendumálinu. Nefndin hefur til þessa hunsað tilmæli ráðherra.

Stjórnarflokkarnir ræddu um nýtt frumvarp til útlendingalaga, sérstaklega hvað hælisleitendur varðaði, og mörkuðu nýja stefnu.

Áformað er að tvær nýjar rafmagnssnúrur verði lagðar til Vestmannaeyja á næsta ári.

Veski var hrifsað af konu á sjötugsaldri í Mjódd, sem lýsti gerandanum sem aðkomumanni.

Íslenska óperan verður lögð niður innan skamms eftir að stjórnvöld ákváðu að veita frekar fé til óstofnaðrar Þjóðaróperu, sem starfa á undir hatti Þjóðleikhússins en innan veggja Hörpu þar til Ásmundur Einar Daðason hefur reist Þjóðarhöllina.

Agnar Rafn L. Levy, bóndi í Hrísakoti og oddviti og hreppstjóri Þverárhrepps, dó 84 ára.

Samstaða náðist í ríkisstjórn um heildstæðar aðgerðir í útlendingamálum, þar sem meira samræmi verður í regluverki, dregið úr útgjöldum og málsmeðferðartími styttur. Tilhögun verður meira í ætt við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum og íslenskar sérreglur afnumdar, en þær þykja ekki hafa gefið góða raun.

Skatturinn hefur tekið snjallmennið Ask í þjónustu sína til þess að svara spurningum framteljenda. Vonast verður til þess að þar sé ekki notast við spunagreind.

Um 4.000 Úkraínumenn hafa hlotið hæli á Íslandi frá því að Rússar réðust á heimaland þeirra fyrir tveimur árum.

Nær 600 Grindvíkingar hafa óskað endurmats á brunabótamati vegna uppkaupa ríkissjóðs á íbúðarhúsnæði þeirra.

Vinnumarkaðurinn er sagður hafa kólnað, en áhrif hamfara í Grindavík eru þó óljós.

Fram komu áskoranir um endurskoðun laga um leigubílaakstur vegna gruns um ofbeldisbrot bílstjóra gagnvart farþegum.

Hildur Hermóðsdóttir, kennari og útgefandi, dó 73 ára.

Bílainnflytjendur harma margir hlutinn sinn, en hrun hefur orðið í sölu rafbíla eftir að skattgreiðendur hættu að niðurgreiða þá til sjálfra sín. Þar er um að ræða nær helmingssamdrátt milli ára.

Breiðfylking verkó og vinnuveitendur áttu í löngum og ströngum samningaviðræðum í Karphúsinu og var þar boðið upp á bananabrauð til þess að auðvelda liðinu að kyngja öðru sem á borðum var.

Sameyki, sem er stéttarfélag opinberra starfsmanna, gaf út orlofsblað en treysti sér ekki til að bjóða skjólstæðingunum upp á raunveruleikann, svo gervigreind var látin um myndirnar. Ljósmyndarar voru uggandi.

Handahófskenndar sektir Bílastæðasjóðs borgarinnar í úthverfum sættu gagnrýni.

Stykkishólmur ákvað að taka upp bílastæðagjöld af fólki sem fer bíllaust í Breiðafjarðarsiglingar.

Alþingi herti öryggisráðstafanir við þinghúsið og aðrar byggingar þingsins, en stutt er síðan mótmælandi Vinafélags Hamas við Austurvöll veittist að þingmanni.

Stjórnarandstaðan að Pírötum undanskildum tók ekki illa í útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra, nema Kristrún Frostadóttir sem kvaðst ekki hafa kynnt sér það og gæti því ekkert sagt, enda á Norðurlandi.

Páskafastan hófst í ÁTVR þegar 17 tegundir páskabjóra voru settar í sölu og annað eins væntanlegt í viðbót, allt í samræmi við lýðheilsumarkmið verslunarinnar um minni áfengisdrykkju.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra sagði að hún teldi Ísland ekki hafa bolmagn til þess að taka við nema í mesta lagi 500 hælisleitendum á ári. Hún sagði útlendingalagafrumvarpið nú aðeins fyrsta skrefið, annars frumvarps væri að vænta í haust og ýmissa aðgerða annarra.

Fiski var landað í Grindavík á ný við mikinn fögnuð. Ekki fiskanna þó.

Sátt náðist milli breiðfylkingarinnar og Samtaka atvinnulífsins um forsenduákvæðin svonefndu og þá ekkert eftir í kjarasamningum nema sérmál stakra félaga, sem ekki þykir líklegt að strandi á.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, reyndist hins vegar ekki sáttur við að samið væri um 0,2% minna en kröfur VR voru í fyrstu, svo hann sagði verslunarmenn frá breiðfylkingunni svonefndu.

Kvikusöfnun við Svartsengi hélt áfram og segja jarðvísindamenn að til tíðinda geti dregið í næstu viku.