„Ég trúi enn á góða framtíð fyrir Úkraínu og því er nauðsynlegt að úkraínsk ungmenni og börn sem eru hér fái góða menntun og öðlist þekkingu svo þau geti byggt upp nýja Úkraínu. Þau eru grunnurinn að okkar framtíð,“ segir Iryna.
„Ég trúi enn á góða framtíð fyrir Úkraínu og því er nauðsynlegt að úkraínsk ungmenni og börn sem eru hér fái góða menntun og öðlist þekkingu svo þau geti byggt upp nýja Úkraínu. Þau eru grunnurinn að okkar framtíð,“ segir Iryna. — Morgunblaðið/Ásdís
Maður tapar öllu sínu gamla lífi, fjölskyldu og vinum, heimilinu og vinnunni. Við hittumst stundum nokkrir vinir frá Úkraínu til að hlæja og gráta saman. Líkaminn er hér en hugur okkar er enn í Úkraínu. Lífið er á bið og við erum hætt að plana framtíð okkar.

Iryna Hordiienko flúði Úkraínu í upphafi stríðins, en heima í Kænugarði átti hún glæstan feril í sjónvarpi. Á Íslandi vinnur hún sem verkefnastjóri hjá Rauða krossinum í málefnum flóttamanna. Iryna er ekki bjartsýn á að stríðið endi í bráð en á sér þó enn von um frjálsa Úkraínu.

Vaknaði við sprengjur og sírenur

„Í Kænugarði var ég að vinna sem pródúsent og þáttagerðarstjórnandi þegar stríðið braust út. Ég þurfti að fela mig í neðanjarðarskúr í rúmlega tvær vikur en fékk svo samning hjá gríska sjónvarpinu og fór þangað ásamt samstarfsmanni. Við fórum þangað að vinna við þáttagerð fyrir sjónvarpið í Aþenu en að þremur mánuðum liðnum rann samningurinn út og ég fór aftur heim,“ segir hún.

„Ég fór að sofa um kvöldið og vaknaði um miðja nótt við sprengjur og sírenur. Ég fékk taugaáfall og skalf og grét. Íbúðin mín var á 17. hæð og ég vissi að ef sprengja myndi lenda á byggingunni ætti ég mér enga von,“ segir hún og ákvað þá og þegar að flýja til Íslands næsta morgun, en hér átti hún vini sem höfðu komið við upphaf stríðsins.

„Foreldrar mínir eru enn í Saporísja, minni heimaborg. Því miður er héraðið undir stjórn Rússa en borgin er eina borgin sem enn er undir stjórn Úkraínu. Lífið er erfitt fyrir fólkið sem er þarna og það er aldrei hægt að venjast þeirri tilhugsun að vita ekki hvort þú lifir eða deyrð á næsta augnabliki. Fólkið býr við stanslaust sprengjuregn; á hverjum degi eru ekki færri en 120 árásir á borgina og þar deyr fólk daglega.“

Upphafið að grimmara stríði

Iryna, sem búið hefur hér nú í eitt og hálft ár, segist í upphafi hafa alið þá von í brjósti að stríðið yrði ekki langt.

„Ég hélt að Rússland myndi þurfa að sæta alls kyns viðskiptaþvingunum og að heimurinn myndi standa með okkur. En væntingar mínar voru of háleitar. Við erum þakklát öllum stuðningi sem við fáum en það dugir ekki til. Við þurfum vopn og vistir og við þurfum strangari viðskiptahömlur,“ segir hún og nefnir að áform um að lama rússneskt efnahagslíf hafi mistekist, enda segir hún að Rússar fái vopn frá Norður-Kóreu og Kína.

„Það hefur ekki lamast; þeir stórgræða á að selja olíu til Indlands og eru ekki að tapa peningum. Þeir eyða síðan öllu í hernað því það er eina leiðin fyrir Pútín og hans menn til að halda völdum.“

Hvernig heldurðu að þetta fari að lokum?

„Það fer allt eftir þeim stuðningi sem við fáum. Ef við fáum meiri stuðning frá Evrópusambandinu og Bandaríkjunum getum við kannski haldið Rússum frá landamærum okkar. Við viljum aðeins frið í landinu okkar og fá að byggja það upp á ný. Við viljum snúa aftur til fósturjarðarinnar. En ef við fáum ekki stuðninginn munum við tapa og það verður einnig tap fyrir lýðræðið. Pútín brýtur allar reglur og fremur alls kyns glæpi og enginn er látinn svara til saka fyrir stríðsglæpina. Hann sýnir þar með öðrum einræðisherrum heimsins að þeir geta gert hvað sem þeir vilja og enginn mun veita mótspyrnu. Áróðursefni í Rússlandi lýsir því hvernig þeir ætli að endurheimta öll fyrri lönd Sovétríkjanna. Þeir segjast ætla til Eistlands, Lettlands, Litháens og Póllands og til fleiri landa. Þeir munu ekki láta staðar numið við Úkraínu. Þetta segja yfirvöldin, og meira að segja tala þeir um að taka Kasakstan. Ef, eða þegar, Úkraína tapar stríðinu, verður það aðeins upphafið að stærra og grimmara stríði. Því miður er þetta aðeins upphafið.“

Voðaverk gegn konum og börnum

Að sögn Irynu eru hryllileg voðaverk framin daglega í Úkraínu. Hún segir marga rússnesku hermannanna vera fanga og í þeim hópi eru nauðgarar, barnaníðingar og morðingjar sem eru leystir úr fangelsi gegn því að fara í stríðið. Aðrir rússneskir karlmenn fara í stríð því að kaupið er gott.

„Sumir fara í herinn af því launin eru góð og þeir sjá tækifæri til að ræna og rupla frá Úkraínu. Hermenn hafa nauðgað og pyntað fólk og þetta gerist trekk í trekk. Fjölmiðlar segja ekki alltaf frá þessu öllu því þetta er svo mikill hryllingur og það er erfitt að skilja að á 21. öldinni sé verið að fremja slík barbarísk voðaverk gegn konum og börnum,“ segir Iryna og segir sönnunargögnin oft vera myndbönd frá sjálfum hermönnunum sem skrásetja sín eigin voðaverk með því að taka þau upp á síma og birta á netinu.

Langar þig að fara heim ef stríðinu lýkur, jafnvel þótt landið sé rjúkandi rústir?

„Já. En jafnvel þótt lýst yrði yfir stríðslokum á morgun vitum við samt að stríðinu er ekki lokið því Rússar munu aldrei hætta að reyna að ná yfirráðum yfir Úkraínu því þeir halda því fram að landsvæði Úkraínu tilheyri Rússlandi. Eftir fimm eða sjö ár hafa þeir læknað stríðssárin og safnað saman fleiri vopnum og geta hafið stríð á ný. Eini möguleikinn á að stríðinu ljúki endanlega er að Rússland liðist í sundur í minni lönd. Rússland er risastórt en í raun er rússneski hlutinn mjög smár. Hinar þjóðirnar eru af asískum uppruna. En fólkið er undir ógnarstjórn, heilaþvegið af stjórnvöldum og neytt til þess að læra rússnesku og lifa eftir rússneskum siðum á meðan þeirra eigin menning og tunga er upprætt. Í ríkustu héröðum Rússlands er fátækasta fólkið; fólk sem býr ofan á gaslindum hefur ekki sjálft gas til að kynda hús sín. Og þaðan er fólk tekið til að fara í herinn; ekki frá Moskvu og Pétursborg, heldur frá fátækum svæðum langt í burtu. Fólkið má ekki mótmæla því þá er því varpað í fangelsi. Nú hafa Úkraínumenn barist fyrir sjálfstæði sínu og það er tækifæri fyrir aðrar þjóðir að gera það sama,“ segir hún.

„Rússland verður að liðast í sundur því þá fá þessar þjóðir möguleika á að rísa upp og öðlast sjálfstæði.“

Sérðu það gerast?

„Nei. Á meðan að refsiaðgerðir virka ekki, gerist það ekki. Við héldum í upphafi stríðs að það myndi aðeins taka eitt ár fyrir efnahaginn að hrynja í Rússlandi, en það gerðist ekki, og á meðan ísskápurinn hjá fólki er ekki tómur er öllum sama. Og jafnvel núna eftir lát Navalnís gerist ekkert, því þetta er ekki stríð Pútíns, þetta er stríð Rússlands. Rússum finnst þeir eigi að fara með heimsyfirráð.“

Enginn sækir líkin af Rússum

Afleiðingar stríðsins má sjá alls staðar í Úkraínu þar sem margar borgir eru í rúst og dánartölur fara hækkandi, að sögn Irynu.

„Réttar tölur fórnarlamba koma oft ekki fram því upplýsingar fást ekki, en til dæmis í Maríupol voru hundruð þúsunda drepin og grafin undir húsunum sem voru sprengd. Nú eru Rússarnir byrjaðir að byggja nýjar blokkir þar og Rússar eru byrjaðir að flytja inn í þær, auk þess sem þeir flytja inn í tómar íbúðir Úkraínumanna. Ef Úkraínumenn vilja snúa heim geta þeir það ekki því Rússar búa í íbúðunum þeirra,“ segir Iryna og segir marga Rússa gjarnan vilja búa á þessum fallega stað við Svartahafið sem er vinsæll sumarleyfisstaður.

Iryna segir illa farið með fanga frá Úkraínu á meðan rússneskir fangar fá réttláta meðferð.

„Rússneskir fangar fá heilbrigðisþjónustu, mat og aðgang að síma á meðan að úkraínskir fangar fá ekki slíka meðferð. Við tökum aðeins til fanga rússneska hermenn en þeir taka til fanga bæði hermenn og óbreytta borgara. Þegar við gerum fangaskipti sjáum við hvernig hefur verið farið með Úkraínumenn; þeir hafa horast niður, verið pyntaðir og jafnvel misst útlimi,“ segir hún.

„Rússar eru ekki að ná í hermenn sína af vígvellinum. Þeir láta fólk deyja þar og stundum drepa þeir þá sjálfir,“ segir hún og bætir við að Úkraínumenn bjargi stundum rússneskum hermönnum í von um að geta síðar notað þá í fangaskiptum.

„Þetta er mikil grimmd og í fyrstu fann ég til með þessum rússnesku hermönnum sem eru notaðir eins og kjöt á vígvellinum. Þeir eru ekki undirbúnir og eru látnir fórna sér,“ segir hún.

„Líkin af rússneskum hermönnum liggja eins og hráviði alls staðar og enginn sækir þau. Rússar eiga nóg af fólki sem þeir eru tilbúnir að fórna en í Úkraínu gerum við það ekki. Við virðum sérhvert líf. Við erum að missa okkar besta fólk; föðurlandssinna sem eru að fórna lífi sínu fyrir framtíð landsins okkar. Því við vitum að við munum ekki lifa af ef Rússar ná yfirráðum. Við munum hvað gerðist á tímum Sovétríkjanna. Þá drápu þeir milljónir Úkraínumanna með því að koma af stað hungursneyð. Landið er gjöfult en þeir komu til fjölskyldna okkar og rændu uppskerunni. Þeir drápu líka allt menntafólk og listafólk,“ segir Iryna og á við aðgerðir Stalíns á árunum 1932-33 til að útrýma fólki sem þráði sjálfstæði.

Ég átti fallegt og farsælt líf

Við snúum okkur að lífinu á Íslandi og framtíðinni.

„Ég er verkefnastjóri hjá Rauða krossinum og vinn með flóttamönnum og hælisleitendum. Ég vinn í móttökustöðinni og tek á móti fólki, skipulegg dagskrá fyrir það og bendi því á alls kyns námskeið. Það er vont ef fólk einangrar sig og lokar sig af og því reynum við að koma fólki út í samfélagið svo það geti lært eitthvað nýtt og hitt annað fólk,“ segir hún.

„Fólk er mjög brotið og varnarlaust og okkar hlutverk er að hjálpa því að skilja hvernig allt virkar á Íslandi. Ég er líka í sjálfboðaliðastarfi fyrir Rauða krossinn og kenni þá ensku, dans og leikfimi fyrir Úkraínubúa,“ segir hún.

„Ég trúi enn á góða framtíð fyrir Úkraínu og því er nauðsynlegt að úkraínsk ungmenni og börn sem eru hér fái góða menntun og öðlist þekkingu svo þau geti byggt upp nýja Úkraínu. Þau eru grunnurinn að framtíð okkar.“

En hvernig gengur hjá þér sjálfri að aðlagast lífinu hér?

„Ég hef alltaf verið mikill ferðalangur en að vera túristi er ekki það sama og að vera flóttamaður. Andlega var mjög erfitt fyrir mig að koma hingað. Í Úkraínu átti ég flottan starfsferil og hafði skapað mér góðan orðstír. Auk þess var ég á fínum launum og var mjög hamingjusöm manneskja sem var heppin að geta valið sér sjálf sín verkefni í vinnunni. Ég átti fallegt og farsælt líf. Á einu augnabliki hvarf allt. Ég missti allt og sjálfsálitið hvarf, ég er með þrjár meistaragráður en þegar ég kom hingað var ég „ekkert“,“ segir Iryna og nefnir að áður en hún fékk vinnu hjá Rauða krossinum hafi hún alls staðar komið að lokuðum dyrum.

„Á hverjum degi sendi ég út 20 umsóknir en heima var mér boðin vinna alls staðar,“ segir hún og segir mjög erfitt fyrir sig, hámenntaða konu sem talar mörg tungumál, að vera sífellt hafnað á vinnumarkaði.

Hjálpa öðrum og sjálfri mér

„Sjálfsvirðing mín minnkaði mikið. Ég er ekki tvítug; ég er fertug kona sem var búin að hasla sér völl á sínu sviði, en nú þarf ég að byrja alveg frá grunni. Ég ákvað að hjálpa sjálfri mér með því að hjálpa öðrum og byrjaði á að hjálpa Úkraínumönnum með því að túlka fyrir þá þegar þeir fóru á fundi hjá félagsþjónustu eða yfirvöldum. Þannig varð ég eins konar menningarlegur sendiherra fyrir Úkraínubúa hér á landi. Við sameinuðum okkar fólk og höfum skipulagt fundi, uppákomur og hátíðir,“ segir Iryna og segist kunna vel við starf sitt.

„Ég hjálpa öðrum og sjálfri mér í leiðinni. Þegar ég hef nóg að gera hef ég ekki tíma til að leggjast í þunglyndi. Ef ég er ein með hugsunum mínum dett ég ofan í svarthol. Ég fer að hugsa um fjölskyldu mína og daginn sem sprengjum rigndi yfir blokkina mína,“ segir Iryna og verður klökk.

„Ég byrja hvern dag á því að hringja í foreldra mína og fá fréttir af þeim,“ segir hún og segir erfitt að þurfa að flýja sitt eigið land.

„Maður tapar öllu sínu gamla lífi, fjölskyldu og vinum, heimilinu og vinnunni. Við hittumst stundum nokkrir vinir frá Úkraínu til að hlæja og gráta saman. Líkaminn er hér en hugur okkar er enn í Úkraínu. Lífið er á bið og við erum hætt að plana framtíð okkar. Allt miðast við fyrir og eftir stríð og satt að segja erum við að verða örvæntingarfull. Við erum að deyja og sjáum ekki fyrir endann á því. Við erum ekki að biðja fólk að senda okkur hermenn; þetta er ekki ykkar stríð, en ég bið ykkur að senda okkur tól til að berjast, því Pútín mun aldrei stoppa. Það eina sem við viljum er að vera frjálst lýðræðisríki.“