Úrgangur Bannað er að losa lífrænan úrgang í Álfsnesi vegna lyktarmengunar og hefur það leitt til mikillar hækkunar kostnaðar.
Úrgangur Bannað er að losa lífrænan úrgang í Álfsnesi vegna lyktarmengunar og hefur það leitt til mikillar hækkunar kostnaðar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is

Baksvið

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Grafalvarleg staða er í urðunarmálum á suðvesturhorni landsins og í Árnessýslu, en á hvorugu svæðinu er hægt að urða seyru úr rotþróm eða fitu. Þetta er afleiðing þess að ekki er lengur heimilt að urða slíkan úrgang í Álfsnesi, þar sem í bráðabirgðaleyfi Umhverfisstofnunar um urðun í Álfsnesi sem gildir til næstu áramóta er tekið fram að óheimilt sé að urða þar lyktarsterkan og lífrænan úrgang. Aukinheldur er enginn urðunarstaður í Árnessýslu sem tekur við slíkum úrgangi. Fita úr fitugildrum á veitingastöðum og hótelum o.fl. og seyra úr rotþróm flokkast sem lífrænn úrgangur.

Enginn lífrænn úrgangur í Álfsnesi

Um sl. áramót heimilaði Umhverfisstofnun að áfram mætti urða allt að 38.000 tonn af úrgangi í Álfsnesi, að lífrænum undanskildum sem og bögguðum blönduðum úrgangi. Mosfellsbær hefur sett sig upp á móti urðun lífræns úrgangs í Álfsnesi sökum lyktarmengunar.

Ástandið betra á landsbyggðinni

Þessi staða mála er bundin við Suðvesturland, en ástand mála annars staðar er með öðrum og betri hætti, allt frá Þjórsá og austur og norður um land. Í þeim landshlutum eru sveitarfélögin með urðunarstaði sem geti tekið á móti seyrunni.

Að sögn viðmælanda Morgunblaðsins er staða urðunarmála lífræns úrgangs vond. Í Árnessýslu er enginn móttökustaður fyrir fitu, en Rangæingar eru betur settir hvað það varðar því að tekið er á móti slíkum úrgangi á Strönd.

Tekið á móti seyru á Flúðum hluta úr ári

Seyra er tvenns konar, annars vegar í fljótandi formi sem fjarlægð er úr dælustöðvum t.a.m. með holræsabíl. Hún er ekki sögð vandamál, því hana má setja í gegnum hreinsistöðvar eða dælustöðvar í sveitarfélögum og þaðan til sjávar. Öðru máli gegnir um seyru úr rotþróm, en þegar þær eru losaðar er aðeins þurrefninu dælt upp en vatninu skilað til baka, og þar liggur vandamálið.

Á Suðurlandi er einn móttökustaður fyrir þurrefni seyru, á Flúðum, en þar er seyran meðhöndluð og notuð sem áburður í uppgræðsluverkefnum á afréttum Biskupstungna. Vandamálið þar er að sá staður er aðeins opinn hluta úr ári, frá maí til október. Utan þess tíma er aðeins hægt að losa úr rotþróm með dælubíl, þar sem ekki er hægt að losna við þurrefnið úr þrónum, t.a.m. til dælustöðva vegna þess hve þurr seyran er.

Enginn staður á höfuðborgarsvæðinu

Á höfuðborgarsvæðinu tekur enginn staður við seyru úr rotþróm, allt frá Hvalfirði og suður til Sandgerðis, en á svæðinu eru um þúsund rotþrær og ekki er hægt að hreinsa þær eins og staðan er í dag.

Þetta ástand er nýtilkomið og hreinsun rotþróa ekki hafin enn að neinu marki. Fyrirtæki sem starfar á þessum vettvangi byrjaði á að hreinsa rotþrær í Kjósinni og fékkst undanþága til að losa seyruna á Fíflholti á Mýrum, en þar er urðunarstaður í eigu Sorpurðunar Vesturlands, en aðrir staðir eru ekki í boði eins og sakir standa. Svæðið sem undir er í þessum málum er Kjósarhreppur, Mosfellsdalur, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður og Reykjanesið, auk Reykjavíkur þar sem enn má finna rotþrær við íbúðarhús.

Eftir því sem Morgunblaðinu er tjáð er hið eina sem hægt væri að gera að taka allt efnið úr rotþrónum með holræsabíl sem myndi hafa gríðarlegan kostnað í för með sér fyrir verkkaupa, en sé þeirri aðferð beitt er unnt að losa miklu færri rotþrær en ella. Í rotþróarbíl væri hægt að losa innihaldið úr 20 til 30 rotþróm, en í holræsabíl komist aðeins innihald þriggja til fjögurra rotþróa, með tilheyrandi kostnaði.

Stórhækkað gjald, á bilinu 111 til 130%

Gjald vegna móttöku á fitu sem telst til lífræns úrgangs stórhækkaði um sl. áramót, var 33,11 krónur á kíló en er nú 70 krónur þegar við henni er tekið í móttöku- og flokkunarstöð. Nemur hækkunin 111% og er tilkomin vegna banns við urðun á lífrænum úrgangi í Álfsnesi, er úrgangurinn nú meðhöndlaður í fituskilju og komið í betri farveg en urðun, að sögn Gunnars Dofra Ólafssonar samskiptastjóra Sorpu.

Einnig hækkaði gjald vegna úrgangs úr sand- og olíugildrum úr 21,88 krónum á urðunarstað í 49,96 krónur. Hækkunin, sem er tæplega 130%, er tilkomin vegna mikillar minnkunar á magni til urðunar í Álfsnesi og er urðun orðin óhagkvæmari og dýrari kostur en áður, að sögn Gunnars Dofra sem segir að breytingarnar miði að því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af rekstri urðunarstaðar Sorpu.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson