Eiríkur Örn Jónsson fæddist 4. september 1990. Hann lést á 7. febrúar 2024. Útför hans fór fram 23. febrúar 2024.

Einlægur, hjálpsamur og yfirvegaður.

Þessi orð lýstu þér svo vel sem persónu. Alltaf var þægilegt að vera með þér á bíl. Spjallið og þögnin, verkefnin eða útkallið. Þú varst ávallt reiðubúinn að leiðbeina mér frá byrjun og fylgdist alltaf mjög vel með mér. Því verð ég ævinlega þakklát. Það er hoggið stórt skarð í starfsmannahópinn okkar en við stöndum saman sem ein heild og komumst í gegnum þessa erfiðu tíma.

Hvíldu í friði, kæri vinur, og takk fyrir allt.

Samúðarkveðjur til ykkar allra sem þekktuð Eirík.

Farðu í friði vinur minn kær.

Faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær.

Aldrei ég skal þér gleyma.

(Bubbi)

Sigurrós Antonsdóttir.

Meistari, kyntröll, góð manneskja, góð nærvera, hugrakkur, tanaður, lausnamiðaður, algjör klettur, einlægur, ljúfur, góður vinur, vinur vina sinna, jákvæður, áreiðanlegur, vandvirkur, metnaðarfullur, þolinmóður, brosmildur, hress.

Þetta eru orð sem lýsa Eiríki okkar best.

Mikið var sárt að heyra að vinur og samstarfsfélagi okkar Eiríkur Örn hefði lent í hræðilegu umferðarslysi þann 30. janúar sl. sem varð til þess að hann var tekinn frá okkur alltof fljótt. Svo óraunverulegt er þetta slys og erfitt fyrir okkur að geta ekkert gert þar sem okkar starf felst í því að aðstoða fólk og koma því til bjargar en núna erum við ósjálfbjarga í þessum aðstæðum.

Eiríkur hafði einstaklega góða nærveru og hafði sérstakt lag á að ná því góða fram í fólkinu sem í kringum hann var. Það var ávallt hægt að treysta á hann í starfi og starfshættir hans endurspegluðu vönduð og fagleg vinnubrögð. Hann var algjör klettur fyrir vaktina sem sýndi sig mest í mikilli einlægni og óbilandi jákvæðni. Hann hafði einstakt lag á því að hressa fólk við, hann fór ósparlega með hrós og það var alltaf gaman að vera þar sem Eiríkur var. Þegar hann tók á móti manni þá fékk maður alltaf bros sem var svo hlýtt að það bræddi allt og alla, þvílíkur eiginleiki að geta brætt fólk með augunum en þann eiginleika hafði Eiríkur. Hann sá alltaf möguleika þegar aðrir sáu hindranir og ekkert var óyfirstíganlegt. Hann var mikill vinur vina sinna og vildi allt fyrir alla gera.

Við erum svo þakklát fyrir allar þær góðu minningar sem við sköpuðum saman og munu þær lifa um ókomna tíð. Við vinnufélagarnir erum ein stór fjölskylda og að missa Eika okkar skilur eftir stórt skarð í hjörtum okkar og allra sem til hans þekktu og er missir okkar mikill.

Lagið „Þriggja daga vakt“ með GusGus og Nýdanskri var lagið hans Eika. Það lag kom Eika okkar alltaf til að brosa sem smitaði vel út frá sér og því er þetta núna lagið okkar á C-vaktinni og mun verða spilað óspart næstu misseri í eftirlitsferðum okkar.

Ég gái út um gluggann minn

hvort gangir þú um hliðið inn.

Mér alltaf sýnist ég sjái þig.

Ég rýni út um rifurnar.

Ég reyndar sé þig alls staðar.

Þá napurt er, það næðir hér

og nístir mig.

(Vilhjálmur Vilhjálmsson)

Elsku börn Eiríks, foreldrar, Vilhjálmur og Svandís okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Ástarkveðja, C-vaktin hjá Lögreglunni á Suðurnesjum.

Andri Þór, Andrea, Arnar Már, Atli Gunn, Árni
Fannar, Elva, Hrafnhildur, Írena, Kristján, Ólöf, Óli
Örvar, Reynir, Sigurrós, Sveinn Ólafur, Sveinn Þór, Theodór og Þorsteinn.

Ég var að vinna í húsinu mínu þegar ég fékk símtal frá konunni minni um að það hefðir verið þú sem lentir í umferðarslysinu við Straumsvík. Við höfðum oft rætt saman um framkvæmdirnar hjá mér og þú svo oft sagt við mig að ég mætti hringja í þig hvenær sem væri ef mig vantaði aðstoð. Það var akkúrat einn af þínum frábærum kostum, alltaf tilbúinn að bjóða fram aðstoð. Alltaf tilbúinn að leggja til hliðar það sem þú varst að gera til að hjálpa öðrum. Vinnuumhverfi okkar var ekki alltaf auðvelt en það var alltaf hægt að treysta á þig þegar mikið gekk á. Þú varst frábærum kostum búinn og vinnubrögðin þín voru alltaf til fyrirmyndar og fagleg. Ég talaði alltaf um þig og Reyni sem strákana mína og þykir mér óendanlega væntum okkar vinskap. Ég er svo þakklátur fyrir allar okkar góðu stundir og þær góðu minningar sem við sköpuðum og ég mun halda utan um þær um ókomna tíð. Þér hefur verið ætlað stærra hlutverk hjá okkar besta og öfunda ég hann af því.

Fjölskylda Eiríks, Svandís og börn Eiríks, ég sendi ykkur mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Arnar Már Jónsson.

Elsku vinur minn, það er svo sárt að þú sért farinn frá okkur og lífið verður skrítið án þín. Ég er svo þakklátur fyrir þig og mun varðveita allar okkar minningar saman. Löngu lærdómskvöldin, ferðalögin okkar og öll krefjandi og skemmtilegu verkefnin sem við tókumst á við í vinnunni saman – þú gerðir þetta allt einfaldlega skemmtilegra. Þú kenndir mér svo margt, varst alltaf tilbúinn að hjálpa og það var alltaf hægt að treysta á þig. Það verður skrítið að horfa yfir árganginn okkar útskrifast í júní og sjá þig ekki þar, en ég mun heiðra þig og veit að þú verður með okkur í anda. Elska þig, vinur.

Ég sendi fjölskyldu og börnum þinum mína dýpstu samúðarkveðju á þessum erfiðu tímum.

Kærleikskveðja, þinn vinur,

Reynir Þór Reynisson.

Elsku vinur minn Eiríkur.

Lífið getur verið svo ósanngjarnt og sárt. Ég er svo þakklát fyrir að hafa kynnst þér og átt þig sem vin. Góðu minningarnar okkar munu alltaf lifa. Það verður skrítið að fara í vinnuna og sjá þig ekki þar, ég er alltaf að bíða eftir því að þú labbir inn um dyrnar.

Vængir þínir voru tilbúnir þótt hjarta mitt hafi ekki verið það.

Ég mun alltaf sakna þín.

Ég votta fjölskyldu þinni og börnunum þínum innilega samúð og sendi þeim styrk á þessum erfiðum tímum.

Þín vinkona,

Hildigunnur.