Heimilin vilja frekar verðtryggð lán.
Heimilin vilja frekar verðtryggð lán.
Ný útlán til heimila að frádregnum uppgreiðslum námu 7,9 mö.kr. í janúar. Verðtryggð útlán námu um 17 mö.kr. og jukust um rúman hálfan milljarð á milli mánaða. Á sama tíma nam uppgreiðsla á óverðtryggðum lánum um 9 mö.kr

Ný útlán til heimila að frádregnum uppgreiðslum námu 7,9 mö.kr. í janúar. Verðtryggð útlán námu um 17 mö.kr. og jukust um rúman hálfan milljarð á milli mánaða. Á sama tíma nam uppgreiðsla á óverðtryggðum lánum um 9 mö.kr. samkvæmt nýjum hagtölum Seðlabankans. Meginþorri verðtryggðra lána í desember, tæpir 15 ma.kr., var með breytilegum vöxtum.

Uppgreiðsla á óverðtryggðum lánum, að langmestu leyti á breytilegum vöxtum, heldur þannig áfram á meðan verðtryggð lán aukast hjá heimilum, en þessar tölur eru í samræmi við þá þróun sem hefur átt sér stað á liðnum 18 mánuðum eða svo. Heimilin tóku í fyrra tæpa 170 ma.kr. í verðtryggð lán á meðan nettóupphæð óverðtryggðra lána var neikvæð um um 72 ma.kr. Þetta var töluverð breyting á milli ára, en árið 2022 námu verðtryggð lán aðeins um 34,8 milljörðum króna en óverðtryggð lán um 158 mö.kr.

Bílalán drógust töluvert saman á milli mánaða í janúar. Þannig námu ný bílalán um 790 m.kr, samanborið við 1,5 ma.kr. í desember. Bílalán hafa ekki verið minni í tæp þrjú ár, eða frá því í mars 2021.