Að þessu loknu vjek hann sjer svo að þeim sem framgjarnastir höfðu verið í áhlaupum sínum og dustaði framan í þá ryki nokkru.

Pistill

Orri Páll Ormarsson

Orri@mbl.is

Kannist þið við Magnús Kristjánsson? Svalur gaur, fín föt. Nei, ef til vill ekki, enda er ykkur svo sem vorkunn í ljósi þess að hann lést fyrir tæpum 100 árum, á aðventunni 1928. Magnús var athafna- og stjórnmálamaður sem sat á Alþingi í rúma tvo áratugi. Þá var hann forstjóri Landsverslunarinnar frá 1918-27.

Og hvers vegna er hann kominn hér upp á dekk? Jú, ég hef verið með annan fótinn í fortíðinni upp á síðkastið vegna verkefna fyrir mitt ágæta blað og var svo heppinn að hafna á þingpöllum vorið 1922 í vikunni. Nánar má lesa um það í laugardagsblaðinu, sem fylgir þessu blaði. Þar tókust menn á um téða Landsverslun og fóru mikinn, svo vægt sé til orða tekið, ekki síst Magnús. „Þá kom Magnús Kristjánsson fram á vígvöllinn,“ sagði gamli Mogginn. „Var ægishjálmur í augum hans og girntust mótstöðumenn hans lítt að horfast í augu við hann. Kvað hann skrípaleik mikinn hjer háðan. En lítt myndi hann nenna að verða þátttakandi leiks þess. […] Væri lítið um beinar ásakanir en reynt að gera alt sem tortryggilegast í von um að það gæti helst verkað á einhverja lítilsiglda þingmenn sem lítt þektu málavexti. Að þessu loknu vjek hann sjer svo að þeim sem framgjarnastir höfðu verið í áhlaupum sínum og dustaði framan í þá ryki nokkru.“

Er það bara ég, eða er þingið okkar í dag ekki hálf mélkisulegt?

Af öðrum köppum, sem urðu á vegi mínum í vikunni, má nefna mann sem handtekinn var fyrir að gefa lögregluhrossi á lúðurinn.

Hvers vegna barði hann lögregluhross?

Hann vissi ekki að þetta væri lögregluhross?

Hvers vegna ekki?

Hrossið var ekki á vakt.

Svo því sé til haga haldið þá er ég ekki að búa þetta til. Ég varð vitni að þessu samtali – í sjónvarpinu.

Þar rakst ég einnig á öldrunarlækni nokkurn sem fékk þá stórbrotnu hugmynd að hjálpa mætti alzheimers-sjúklingum og fólki með elliglöp að muna hluti með því að setja það í aðstæður úr fortíðinni, hús, bíl o.s.frv. Fékk í þetta öldung sem mundi ekki neitt. Og viti menn, hann fór skyndilega að muna alls konar hluti. Á móti kom að hann reyndist vera ofbeldisfullur rasisti, uppfullur af kvenfyrirlitningu, jafnvel morðingi. En góðu fréttirnar voru þær að meðferðin var að virka.

Loks er það nafn vikunnar: Ayden Heaven. Ungmenni sem sat á bekknum hjá Arsenal í grátlegu tapi gegn Porto í Meistaradeildinni. Ætli ekki margir hvái þegar hann segir til nafns: Ha, Made in Heaven?

Ayden Heaven slær þó ekki við nafni ársins í íþróttunum en það er vitaskuld franska varnarbuffið í handboltanum, Karl Konan.