Vegamál Bergþóra Þorkelsdóttir er forstjóri Vegagerðarinnar.
Vegamál Bergþóra Þorkelsdóttir er forstjóri Vegagerðarinnar.
„Það er gríðarlega hár verðmiði og fyrir mig, sem er í gríðarlega knappt fjármögnuðu umhverfi samgöngumála, svíður þessi verðmiði. Ég ætla ekkert að draga úr því.“ Þetta segir Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar í viðtali í…

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

„Það er gríðarlega hár verðmiði og fyrir mig, sem er í gríðarlega knappt fjármögnuðu umhverfi samgöngumála, svíður þessi verðmiði. Ég ætla ekkert að draga úr því.“ Þetta segir Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar í viðtali í Spursmálum þegar talið berst að fyrirhugaðri brú fyrir strætisvagna og hjólandi og gangandi vegfarendur yfir Fossvog. Verðmiðinn stendur nú í 8,8 milljörðum króna en var um 5 milljarðar þegar lagt var af stað í að koma framkvæmdinni á koppinn.

Bergþóra segir hins vegar að þessi framkvæmd verði alltaf dýr, enda sé um að ræða langa og mjög breiða brú en stefnt er að því að hún verði fimm mjóar akreinar og allt að 17 metrar á breidd á meðan brúin yfir Þorskafjörð, sem nefnd hefur verið í sömu andrá, er áþekk að lengd en aðeins 10 metra breið. Sú brú kostaði rétt ríflega 2 milljarða og var tekin í notkun í október í fyrra.

„Næsta spurning er hvort við getum leyft okkur að hafa þessa brú íburðarmeiri en aðrar brýr og borga í viðbót fyrir það. Ef það er snjallt að hafa brú yfir Fossvog þá verður það alltaf stór brú og hún mun alltaf kosta, ef við ætlum að hafa hana hönnunarbrú þá kostar það meira,“ segir Bergþóra.

Hún segist þó ekkert geta sagt til um hvað framkvæmd af þessu tagi myndi kosta ef ákveðið yrði að slá af kröfum um sérstakt útlit eða íburð.

Bergþóra segir að almennt mætti vanda betur til kostnaðaráætlana við frumathuganir á fýsileika framkvæmda. Spurð hvað valdi því að framkvæmdakostnaður við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins hafi blásið gríðarlega út á síðustu misserum, segist Bergþóra eiga erfitt með að svara því en að mikill þrýstingur hafi verið á að ýta verkefninu úr vör. Þar hafi ekki síst ráðið för sú knýjandi þörf sem fólk hafi séð á því að bæta úr samgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Núverandi utanríkisráðherra benti á það í grein í Morgunblaðinu í fyrra að uppfærðar áætlanir gerðu ráð fyrir að samgöngusáttmálinn myndi kosta um 300 milljarða en ekki 160 eins og lagt hefði verið upp með. Slíkt breyti öllum forsendum og nú liggja sérfræðingar yfir því að endurmeta kostnaðinn við þær framkvæmdir sem stefnt er að.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni frá því í byrjun mánaðar var það meðal annars nefnt sem ástæða fyrir hækkandi kostnaðarmati á brúnni að stálverð hefði hækkað gríðarlega vegna stríðsátakanna í Úkraínu. Í þættinum var forstjóra Vegagerðarinnar bent á að stálverð nú væri á svipuðum slóðum og árið 2019 og gæti því ekki talist röksemd í málinu. Benti forstjórinn þá á að þarna hefði starfsmanni stofnunarinnar orðið á í messunni og fréttin væri nú leiðrétt á vefnum. Ekki kemur fram í fréttinni að hún hafi verið leiðrétt eða vegna hvers. Hins vegar stendur fullyrðingin óhögguð í samsvarandi frétt á heimasíðu Betri samgangna.