Grindavík Vinnsla var í fullum gangi í gær hjá Einhamri Seafood.
Grindavík Vinnsla var í fullum gangi í gær hjá Einhamri Seafood. — Morgunblaðið/Eggert
Frumvörpin um tímabundinn rekstrarstuðning vegna náttúruhamfaranna í Grindavík og um kaup á íbúðarhúsnæði í bænum eru bæði orðin að lögum frá Alþingi. Voru frumvörpin samþykkt samhljóða upp úr miðnætti í fyrrakvöld af öllum viðstöddum þingmönnum á þingfundinum

Frumvörpin um tímabundinn rekstrarstuðning vegna náttúruhamfaranna í Grindavík og um kaup á íbúðarhúsnæði í bænum eru bæði orðin að lögum frá Alþingi. Voru frumvörpin samþykkt samhljóða upp úr miðnætti í fyrrakvöld af öllum viðstöddum þingmönnum á þingfundinum.

Gerðar voru nokkrar breytingar á frumvarpinu um rekstrarstuðning vegna tekjufalls í umfjöllun efnahags- og viðskiptanefndar. Verður stuðningurinn veittur vegna tímabilsins frá nóvember sl. til loka júnímánaðar á þessu ári en í upphaflegu frumvarpi var gert ráð fyrir að gildistími rekstrarstuðningsins rynni út 1. maí. Einnig var samþykkt að tillögu þingnefndarinnar að lengja umsóknarfrest um úrræðið til 30. september nk.

Áætlaður kostnaður 61 ma.kr.

Samhliða þessari lagasetningu var frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra til fjáraukalaga fyrir yfirstandandi ár samþykkt sem lög. Breytingarnar á fjárlögum ársins varða eingöngu ráðstafanir vegna náttúruhamfaranna í Grindavík. Ríkissjóði er með fjáraukalögunum veitt heimild til allt að 30 milljarða króna lántöku til viðbótar við 200 milljarða sem heimild er fyrir í fjárlögum. Ekki liggur fyrir hvort viðbótarheimildin verður nýtt að fullu en hún er hugsuð í varúðarskyni.

Samþykkt var heimild ríkissjóðs til að endurlána allt að 12,5 milljarða til eignaumsýslufélagsins sem mun annast kaup, umsýslu og ráðstöfun á íbúðarhúsnæði í Grindavík. Auk þess er gert ráð fyrir að félagið fái sambankalán frá lánveitendum íbúðarhúsnæðisins. Unnið er að samkomulagi við lánastofnanir um yfirtöku lána en það liggur ekki fyrir enn.

Áætlaður kostnaður ríkisins við uppkaupin er um 61 milljarður króna. Gert hefur verið ráð fyrir að eiginfjárframlag ríkisins til félagsins gæti orðið um 26 milljarðar en nefndin bendir á að nú sé líklegra að það verði nokkru hærra, m.a. vegna óska íbúðareigenda um endurmat á brunabótamati íbúðarhúsnæðis. Að mati ráðuneytisins er nú talið líklegt að umfang efnahagsreiknings félagsins verði um 60 milljarðar miðað við fulla þátttöku íbúðareigenda, skuldir þess gætu orðið 25 milljarðar sem skiptast á milli lántöku ríkissjóðs og sambankaláns lánveitenda. Eigið fé félagsins yrði þá um 35 milljarðar.