Mannanöfn Frumvarp er til meðferðar á Alþingi sem miðar að því að tryggja rétt einstaklinga til að bera það nafn eða nöfn sem þeir kjósa.
Mannanöfn Frumvarp er til meðferðar á Alþingi sem miðar að því að tryggja rétt einstaklinga til að bera það nafn eða nöfn sem þeir kjósa. — Morgunblaðið/Eggert
Guðmundur Sv. Hermannsson gummi@mbl.is Þjóðskrá geldur varhug við því að einstaklingum verði heimilt að skipta oft um nafn, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpi sem er til umfjöllunar á Alþingi. Einnig bendir Þjóðskrá á að verði engar takmarkanir á fjölda nafna sem einstaklingar bera, eins og frumvarpið feli í sér, gæti það orðið erfitt í framkvæmd.

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Þjóðskrá geldur varhug við því að einstaklingum verði heimilt að skipta oft um nafn, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpi sem er til umfjöllunar á Alþingi. Einnig bendir Þjóðskrá á að verði engar takmarkanir á fjölda nafna sem einstaklingar bera, eins og frumvarpið feli í sér, gæti það orðið erfitt í framkvæmd.

Um er að ræða frumvarp, sem hefur verið lagt nokkrum sinnum fram á Alþingi á síðustu árum og er nú á ný til meðferðar í allsherjar- og menntamálanefnd þingsins. Guðbrandur Einarsson þingmaður Viðreisnar er fyrsti flutningsmaður að þessu sinni en þrír aðrir þingmenn Viðreisnar og fimm þingmenn Pírata eru meðflutningsmenn. Í greinargerð segir að markmiðið með frumvarpinu sé m.a. að tryggja rétt einstaklinga til að bera það nafn eða þau nöfn sem þeir kjósa og tryggja að lög um mannanöfn takmarki ekki persónufrelsi fólks eða frelsi fólks til að skilgreina sig.

Þjóðskrá segir í umsögn um frumvarpið að að gefinni reynslu við framkvæmd núverandi mannanafnalaga sé tímabært að laga þau að breyttum tíðaranda og bæta úr vanköntum enda eru lögin frá árinu 1996.

En stofnunin gerir nokkrar athugasemdir við frumvarpið, m.a. að þar sé ekki að finna neina takmörkun á því hversu oft er hægt að skipta um nafn. Í núgildandi lögum sé kveðið á um að nafnbreyting skuli einungis heimiluð einu sinni nema sérstaklega standi á. Í framkvæmd hafi ákvæðið verið túlkað rúmt og hafi kynsegin einstaklingum verið veittur mun rýmri réttur. „Hins vegar er staðan sú að ákveðinn fjöldi einstaklinga sækir um nafnbreytingu oft á ári. Slíkt yrði afar vandasamt í framkvæmd og gæti skapað vandamál við auðkenningu ef jafn auðvelt yrði að skipta um nafn og frumvarpið gerir ráð fyrir,“ segir Þjóðskrá og leggur til að bætt verði inn í frumvarpið sambærilegu ákvæði og er í núgildandi lögum eða að réttur verði takmarkaður t.d. við einu sinni á ári.

Takmarkaður fjöldi stafabila

Þá segir Þjóðskrá að samkvæmt frumvarpinu eigi að leggja niður ákvæði núgildandi laga um takmörkun á fjölda nafna sem einstaklingur getur borið í þjóðskrá. Tilgangur með núverandi takmörkun á fjölda nafna sé að kerfi Þjóðskrár Íslands og kerfi sem tengjast kerfum stofnunarinnar geti ekki miðlað eða tekið á móti fleiri en 31 stafabili. Sé þetta ástæða þess að núgildandi lög um mannanöfn innihaldi takmörkun á hversu mörg nöfn einstaklingar geta borið.

Verði engin takmörk á nafnafjölda einstaklinga sé nauðsynlegt að Þjóðskrá Íslands verði tryggð heimild til að geta áfram skráð og miðlað styttri ritun nafna þar sem ljóst sé að tölvukerfi sem vinna með nöfn einstaklinga muni almennt ekki geta borið óendanlegan fjölda stafabila. Þannig geti vegabréf, sem gefin eru út af Þjóðskrá Íslands, að hámarki borið 38 stafabil. Enn færri stafabil séu samkvæmt alþjóðlegum reglum og stöðlum, en þar er miðað við 30 stafabil í vélrænt lesanlegum hluta skilríkja eins og nafnskírteina, en útgáfa þeirra hefst um næstu mánaðamót.

Kenna sig við afa eða ömmu

Einnig sé ekki að finna heimild í frumvarpinu fyrir ófeðrað barn til að vera kennt til afa eða ömmu. Þjóðskrá segir að í núgildandi lögum sé heimild til þess að kenna til afa fyrir hendi. Hafi þessi heimild verið nýtt í ófá skipti og telji stofnunin mikilvægt að henni sé haldið inni.

Höf.: Guðmundur Sv. Hermannsson