Sæludagur Gott er að fara í pott. Lífið sjálft er að fara í Laugardalslaugina.
Sæludagur Gott er að fara í pott. Lífið sjálft er að fara í Laugardalslaugina. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Afgreiðslutími sundlauga í Reykjavík verður lengdur til muna á hátíðisdögum skv. samþykkt íþrótta- og tómstundaráðs borgarinnar í gær. Tillaga um þetta tók mið af gagnrýni á opnun lauganna um síðustu jól

Afgreiðslutími sundlauga í Reykjavík verður lengdur til muna á hátíðisdögum skv. samþykkt íþrótta- og tómstundaráðs borgarinnar í gær. Tillaga um þetta tók mið af gagnrýni á opnun lauganna um síðustu jól. Ný áætlun uppfyllir markmið um hagræðingu, en jafnframt er séð til þess að fólk komist í sund á rauðum dögum almanaksársins.

Heildaropnun sundlauga í Reykjavík um jól og áramót í ár verður 219 klukkustundir, en var 93 klukkustundir í fyrra. Einmitt þá voru laugar lokaðar á mismunandi tímum og opnun þeirra skipt milli borgarhluta. Nú verður jóladagur eini dagur ársins þar sem allar laugar borgarinnar verða lokaðar. Á móti þessu til hagræðingar verður afgreiðslutími lauga innan dagsins styttur í einhverjum tilvikum. Þá verður viðhaldslokun lauga lengd úr fimm dögum í átta.

Frá og með 1. apríl nk. verða sundlaugarnar í Reykjavík opnar til kl. 21 um helgar í stað kl. 22. Áfram helst þó að laugarnar verða opnar lengst allra á landinu. Er þó af talsverðu að taka, svo mikilvægt er sund Íslendingum og laugar víða. sbs@mbl.is