Aðal Sverrir og Josephine í þáttunum.
Aðal Sverrir og Josephine í þáttunum.
Ég datt alveg óvart inn í sænska þáttaröð á Netflix, Älska mig, eða Elskaðu mig. Hún er ekki alveg ný af nálinni, var frumsýnd á Viaplay 2019, en þar sem ástin er algerlega tímalaus þá skiptir engu máli hvenær þættirnir voru gerðir

Kristín Heiða Kristinsdóttir

Ég datt alveg óvart inn í sænska þáttaröð á Netflix, Älska mig, eða Elskaðu mig. Hún er ekki alveg ný af nálinni, var frumsýnd á Viaplay 2019, en þar sem ástin er algerlega tímalaus þá skiptir engu máli hvenær þættirnir voru gerðir. Þetta eru sérdeilis notalegir þættir að horfa á, gefa gott í hjarta, eru fyndnir með dassi af dramatík, rétt eins og lífið sjálft.

Framvindan hverfist um eina fjölskyldu og ástarmál þeirra, foreldra sem eru komnir af léttasta skeiði, tæplega fertuga dóttur þeirra og son á háskólaaldri. Þættirnir fjalla um ástina, sorgina og tilfinningasambönd hjá ólíkum kynslóðum og ólíkum einstaklingum. Inn í atburði lífsins fléttast óhjákvæmilega annað fólk, vinir, kærastar og kærustur, vinnufélagar, skyldmenni og fleiri. Ungi sonurinn er mikil dramadrottning, en systir hans á fertugsaldri er svellköld og leikur sér á Tinder en svo þróast mál í alls konar óvæntar áttir, dauðinn bankar upp á og ekki takast allir með sama hætti á við þann gest.

Ég hef skemmt mér konunglega við þetta áhorf og nóg er af beru holdi og heitum ástarsenum, sem er kærkomið krydd á dimmum þorra. Gaman er að segja frá því að einn af aðalleikurunum er gullfallegi Íslendingurinn Sverrir Guðnason sem býr í Svíþjóð. Tvær seríur, góða skemmtun!