30 ára Sigurður ólst upp í Hlíðunum í Reykjavík. Hann var virkur í æsku og æfði fótbolta og líka ýmsar bardagaíþróttir. Eftir Háteigsskóla fór hann í Verslunarskólann. „Eftir eina önn í Versló ákvað ég að fara frekar í Tækniskólann á tölvubraut

30 ára Sigurður ólst upp í Hlíðunum í Reykjavík. Hann var virkur í æsku og æfði fótbolta og líka ýmsar bardagaíþróttir. Eftir Háteigsskóla fór hann í Verslunarskólann. „Eftir eina önn í Versló ákvað ég að fara frekar í Tækniskólann á tölvubraut. Ég var búinn að vera að vinna við tölvur frá því ég byrjaði í 9. bekk, þegar ég fór að vinna hjá Humac, sem var á þeim tíma Apple-umboðið á Norðurlöndum.“

Sigurður segist hafa haft mjög mikinn áhuga á tölvum alveg frá því hann man eftir sér. „Ég man að þegar ég uppgötvaði þennan heim opnuðust einhverjar flóðgáttir í heilanum og ég vildi skilja þetta allt.“ Hann vann hjá Humac um sumarið en ákvað þá að hætta. „Ég fór út í eigin rekstur og var að gera við Apple-vörur heima hjá mér og það var nóg að gera meðfram skólanum. En þá hringdi Hörður Ágústsson stofnandi Maclands í mig og bauð mér vinnu hjá sér, sem ég þáði, varð þar með fyrsti starfsmaðurinn og þar var ég frá 2010-2016 en þá flutti ég til Berlínar.“

Sigurður var kominn með mikinn áhuga á jiu-jitsu og æfði tvisvar á dag og var að keppa í íþróttinni. „Ég flutti samt heim aftur 2019 og þegar ég er á flugvellinum hringir gamall starfsfélagi í mig og spyr hvort ég sé eitthvað að gera og hann býður mér vinnu hjá fyrirtæki sem heitir Viss, og þar vann ég sem tæknimaður, en svo tók Macland yfir þjónustuhlutann hjá Viss, svo ég enda aftur hjá mínum gamla vinnuveitanda og er þar til 2022.“

Þá fór Sigurður að vinna hjá heilsutæknifyrirtækinu Sidekick Health sem hefur þróað læknameðferðir í app-formi. „Þetta er mjög spennandi vettvangur og í miklum vexti,“ segir Sigurður og segir fyrirtækið brauðryðjanda í þessum geira. Sigurður vann á Íslandi fram í september en flutti þá aftur til Berlínar þar sem fyrirtækið hefur skrifstofur og starfsemi.

Helstu áhugamálin segir Sigurður ennþá vera tölvur og tækni og það sé alltaf númer eitt. „En fyrir utan það hef ég mikinn áhuga á jiu-jitsu, blönduðum bardagalistum, skíða- og snjóbrettamennsku, öllu sem tengist heilsu, fjárfestingum og fjármálum. Einnig hef ég gaman af því að ferðast og vonast til að gera meira af því í framtíðinni.“


Fjölskylda Foreldrar Sigurðar eru Valdimar Örn Flygenring leikari, búsettur í Landeyjum, og Ásdís Sigurðardóttir, ráðgjafi hjá Reykjavíkurborg, búsett í Kópavogi. Systkini Sigurðar eru Íris Tanja Flygenring leikkona og Þór Örn Flygenring flugþjónn. „Ég tileinka alltaf mömmu afmælisdaginn minn, því hún kom mér jú í heiminn og á þakkir skildar fyrir það.”