— Morgunblaðið/Eggert
Það var ekki mikil arfleifð af stjórnarsetu Jóhönnu og Steingríms í vinstri stjórninni sem þau mynduðu eftir „hrunið“, sem var dálítið skondið, því hvorugt þeirra hafði varað við þeim ósköpum, hvorki aðdraganda eða þróun, eins og Seðlabanki landsins hafði gert oft og vandlega.

Það var ekki mikil arfleifð af stjórnarsetu Jóhönnu og Steingríms í vinstri stjórninni sem þau mynduðu eftir „hrunið“, sem var dálítið skondið, því hvorugt þeirra hafði varað við þeim ósköpum, hvorki aðdraganda eða þróun, eins og Seðlabanki landsins hafði gert oft og vandlega.

Þó má ekki gleyma garminum Katli eins og þeir höfðu það í Skugga-Sveini. Það verður nefnilega ekki af því skafið að skötuhjúin þessi náðu, auk annarra skaðæðisverka, að leggja á 104 skatta á stuttu valdaskeiði sínu, sem er ekki minnst fyrir neitt, nema helst þetta sem nefnt var og hina ömurlegu uppgjöf þeirra í Icesave-málinu. Nú hefði mátt ætla að vinstrið myndi vera frá sér numið af gleði út af öðrum eins skattaálögum á þjóðina og breytingunum rúmlega 100. Hvert og eitt þyngdi meira þann hlut sem almenningur skyldi bera. Það var auðvitað í anda þessa fólks að koma fjármununum til hins opinbera, frá fólkinu í landinu og láta búrókrata véla um það hvernig þeim skyldi eytt, þá sömu sem höfðu ekki unnið fyrir þeim.

Heimildarlaus gjörð

En þau skötuhjú reyndu þó að skilja ekki öll skemmdarverk sín eftir óunnin og sóttu um aðild að Evrópusambandinu. En Steingrímur J. hafði þó hvað eftir annað lofað því, að slíkt og þvílíkt myndi hann, að minnsta kosti, aldrei styðja að yrði gert! Seinasta skiptið sem hann gaf þjóðinni slíkt loforð var kvöldið fyrir kosningar 2009, en hann notaði daginn sem í hönd fór til að svíkja það helst, sem hann hafði löngum sagt sér heilagast, af öllu því sem hann hafði nokkru sinni lofað.

Einn aðili með stöðu samningamanns

Og það var farið í „samningaviðræður“ við Evrópusambandið. En þær voru allar á einn veg. Búrókratarnir frá Brussel útskýrðu fyrir íslensku „viðræðunefndinni“ hvernig aðrir „samningar“ litu út, sem alvöru ríki hefðu samþykkt misókát og aðrir gætu ekki fengið meira en þau. Vandinn í þessum málatilbúnaði fyrir íslensku „samningamennina“ var þegar þeim varð ljóst að allt sem þeir höfðu sagt við almenning eftir að hafa borið það helsta undir valdaparið stóðst enga skoðun. Samningamönnum varð smám saman ljóst að þeir væru ekki samningamenn. Eftir þetta áfall var ekki annað að gera en að mæta til „viðræðufunda“ – hljómar ekki mjög ólíkt „samningafundum“ – og upplýsa hina nýju húsbændur sína um hvað þeir íslensku höfðu þegar fært til bókar, hlýðnir og penir, af þeim fyrirmælum sem þeir fengu á síðasta fundi frá gestunum. Brussel-búrókratar merktu við það sem þeir töldu rétt þýtt, en annað fóru íslensku „samningamennirnir“ með til baka og lagfærðu í þeirri von að á næsta fundi fengju þeir kross í kladdann, sem þeir mundu svo vel að gladdi þá mjög á barnaskólaárunum. En þá gæti verið best að segja ekki þessum prófdómendum strax frá sjávarútveginum, sem „samningafólkið“ sjálft hafði, eins og þau Jóhanna og Steingrímur, fullyrt að yrði ekki vandamál frekar en annað.

Í þessum ónotalega skrípaleik var áfram látið eins og þeir íslensku hefðu almennt svigrúm eins og aðrir fulltrúar frjálsrar þjóðar, sem ekki stóðst, eins og fljótlega varð ekki falið lengur.

Ekkert að marka

Hollenskir og franskir bændur hafa sífellt betur fengið að finna fyrir því að fátt er að marka ESB. Ross Clark pistlahöfundur skrifar athyglisverða grein í Telegraph um það, hversu víða í Evrópu menn eru hver af öðrum að vakna upp við vondan draum. Hann segir einnig frá viðbrögðum aðalsamningamanns ESB í viðræðum við Breta eftir að breska þjóðin var komin með upp í kok og vildi komast burt úr myrkrastofu sambandsins, sem Edward Heath, og fleiri af þeirri tegund, hafði leitt þá inn í. Michel Barnier „samningamaður“ segir nú að þessir vesalingar, og fákænir Frakkar, hafi ekkert lært af Brexit og reyndi að hamra sama járn og Macron forseti, að komið sé á daginn að útganga Breta hafi verið herfileg mistök!

Clark segir að þessir tveir ættu að horfa heim í eigin rann, ef sú verður niðurstaðan, eins og nú virðist líklegast, að Marine Le Pen, leiðtogi Þjóðfylkingar, fái glæstan sigur í kosningum til Evrópuþingsins í júní næstkomandi. Með þeim úrslitum mun blasa við að franskir kjósendur sáu loks í gegnum sífelldar tilraunir æðstu kommissaranna í Brussel. Annars vegar til að tryggja að Bretar fengju sem allra aumasta útkomu úr „samningum“ um útgöngu, og hins vegar að þegar í ljós kom að Bretar vildu allt til vinna að komast burt frá ESB-gildrunni, yrði að refsa þeim með öllum ráðum fyrir útgöngu sína úr heilagleikanum.

En breskur almenningur gefur svo lágkúrulegum tilburðum langt nef, eins og sanngjarnt er. Þetta segja leiðtogarnir í Brussel, en bæta svo við að þótt refsingarnar beinist að Bretum og þeir eigi þær inni, þá séu þessar refsingar aðallega hugsaðar sem viðvörun um hvað bíða kunni þeirra þjóða sem gæli við það í alvöru að sleppa einnig burt frá Brussel-valdinu.

En það skondna er, að Bretar hafa blómstrað eftir útgönguna, á sama tíma og andúð á verunni í ESB fer vaxandi, jafnt og þétt, og ekki síst í Frakklandi. Og Ross Clark bendir á úrslit í síðustu kosningum
í Hollandi þar sem fylgi Geerts Wilders jókst myndarlega, en flokkur hans hefur atkvæðagreiðslu um útgöngu úr ESB einna efst á sínu blaði. AfD-flokkurinn í Þýskalandi hefur fengið mjög aukið fylgi í könnunum. AfD er sagður liggja hægra megin við miðjuna og þess vegna merkir hin skrítna fréttastofa „RÚV“ þann flokk sem hægri öfgaflokk. Enn hefur sú fréttastofa aldrei rekist á flokk sem sé svo langt til vinstri að hann verðskuldi öfgastimpil fréttastofunnar. Kommúnistaflokkur Stalíns fékk aldrei slíkan stimpil.

Afstaða ríkisstjórnar Ítalíu, undir forystu Georgiu Meloni, til verunnar í ESB er þekkt, þótt efnahagsstaða landsins og skuldir þess við Brussel geri þeim í Róm illa fært að stíga skrefið burt til fulls, þótt vilji allra stjórnarflokkanna þriggja liggi til þeirrar áttar.

Hvernig skyldi standa á því að Barnier, aðalsamningamaður ESB vegna útgönguvilja Breta, telur það vera sérstakt gleðiefni fyrir landa hans í hópi efasemdarmanna um veruna í ESB að fullyrða að Bretar hafi mátt búa við auknar viðskiptahömlur eftir útgöngu sína?

Bændur baula á yfirvöld

Frönsku bændurnir sem stöðvuðu almenna umferð á þjóðvegunum, í angist sinni vegna miklu lakari kjara en áður, voru ekki að biðja um að dregið yrði úr viðskiptahömlum í Frakklandi, þvert á móti. Þeir voru að kvarta yfir óþolandi undirboðum nágrannaríkja sem stunduðu slíkt í skjóli Brussel-valdsins. Þeim var þannig meðal annars mjög uppsigað við að vín væru flutt yfir Pýrenafjöllin frá Spáni og allir vissu eða máttu vita að slíkt myndi veikja þeirra stöðu, sem má ekki við miklu. Á hinn bóginn, ef þú værir í hópi þeirra sárafáu Frakka sem deila áhuga með Frökkum fyrir „frjálsum viðskiptum“, þá myndi þér ekki heldur þykja mikið koma til orða Barniers aðalsamningamanns. Því hann staðfesti með orðum sínum í raun það sem allir vissu þegar, það að Barnier, eins og ESB í heild, er í hjarta sínu og inn við beinið mjög hlynntur verndarstefnu í viðskiptum. ESB byggir auðvitað fyrst og síðast á verndarstefnu og vill helst af öllu reisa gaddavírsgirðingar við mörk ytri landamæranna. Þess vegna hlakkar í þeim þegar þeir japla á að Bretland þjáist af viðskiptavandræðum við ESB eftir útgöngu. Hvernig má það vera, þegar ESB segist styðja í orði og verki frjáls viðskipti og Bretar hafa einmitt sérstakan samning við sambandið um slíkt? Og svarið er einfalt. ESB hefur tileinkað sér að fara framhjá umsömdum „frjálsum viðskiptum“ með því að fella viðskipti, sem sögð eru frjáls, inn í martröð sviksamlegs skrifræðis, sem gerir meint frelsi að engu.

Stríð á tveggja ára afmæli

Það er ekki alltaf haldið upp á afmæli, þó að það sé þó meginreglan, sérstaklega ef afmælin eru af stærri gerðinni. Í gær átti innrás Rússa í Úkraínu tveggja ára afmæli. Almennt eru tvö ár ekki nægt tilefni þess að slá upp veislu. En þó uppfyllir tveggja ára stríðið í Úkraínu það skilyrði að teljast stórafmæli. Og afmælisbarnið hefur staðið sig betur en nokkur þorði að vona. Fæstir trúðu því í hjarta sínu að hin ójafna barátta úkraínsku þjóðarinnar myndi standa svo lengi. Vestræn ríki hófu sína aðstoð með því að setja á „mestu efnahagsþvinganir“ gegn einni þjóð sem nokkurt ríki hafði upplifað, að sögn. Nú er almennt viðurkennt að þær efnahagsþvinganir skiptu nánast engu máli. Þegar sérfræðingar voru að gera upp stríðið þessi tvö ár, sögðu þeir að þær „miklu“ ákvarðanir hefðu reynst að mestu vita gagnslausar og þar sem það var ekki svo, áttu Rússar ekki í neinum vandræðum með að komast í kringum refsingarnar.

Í tilefni dagsins í gær var svo bætt við 500 atriðum í bannhauginn og engum dettur í hug að eitthvað muni um það. Það verður sama sýndarmennskan og þær sem áttu að „kollsigla efnahagsstöðu Rússa“ á fáum vikum. Allmörg vestræn ríki hafa dregið verulega úr stuðningi við forystuna í Kænugarði, einkum vopnasendingum, þar sem þau höfðu gengið mjög langt í þeim efnum og sorfið jafnvel að eigin búnaði. Ástæðan fyrir því var fyrst og fremst áætlanir um gagnsókn Úkraínu gegn Rússum, sem þóttu trúverðugar. Þá þótti skipta miklu að hlaða vopnabúrið í Kænugarði eins og kostur væri og gera þannig sitt til að gagnsóknin myndi heppnast. Margir sérfræðingar töldu að Úkraína ætti góða möguleika á því að gagnsóknin gengi eftir. Því miður varð það ekki. Erfitt er að höfða til næstu gagnsóknar í náinni framtíð.

Bjartsýni Pútíns eykst því. Það var ekki það sem við þurftum.