Í tvö ár hefur Pútín háð blóðugt stríð í Úkraínu og nú mega menn ekki kikna í hnjánum í stuðningi við Úkraínumenn

Tvö ár eru í dag liðin frá því að glórulaus og grimmileg innrás Rússa í Úkraínu hófst. Í tvö ár hefur Vladimír Pútín, forseti Rússlands, látið eldi og brennisteini rigna yfir landið. Mannfallið er ófyrirgefanlegt og eyðileggingin yfirgengileg.

Rússar héldu augljóslega að Úkraína yrði auðveld bráð og sóttu hratt fram. En það reyndist öðru nær. Úkraínumenn brugðust öndverðir við.

Þar skipti ekki minnstu máli framganga Volodimírs Selenskís forseta. Hann afþakkaði pent boð Bandaríkjaforseta um þyrlu svo hann gæti forðað sér á braut og ákvað fremur að standa í stafni í Kænugarði og stappa stálinu í þjóðina.

Í framhaldinu tókst Úkraínumönnum að hrekja Rússa, sem komnir voru í útjaðar Kænugarðs, til baka þótt við ofurefli væri að etja. Óhugnaður blasti við í þeim borgum og bæjum sem Rússar höfðu lagt undir sig, þótt í skamman tíma væri. Lífið var murkað úr óbreyttum borgurum, menn höfðu verið pyntaðir og limlestir og konum nauðgað með skipulögðum hætti.

Um þessar mundir kemur út bók eftir finnsk-eistneska rithöfundinn Sofi Oksanen þar sem hún færir rök að því að Rússar noti nauðganir og kynferðisofbeldi sem vopn í stríðinu og falli aðfarirnar undir skilgreiningu þjóðarmorðs.

Sláandi vitnisburð um stríðið er að finna í heimildarmyndinni 20 dagar í Maríupol eftir úkraínska balaðamanninn Mstislav Tsjernov. Í tuttugu daga eftir innrás Rússa var hann í borginni og fylgdist með ásamt félögum sínum frá fréttaveitunni AP hvernig rússneski herinn þrengdi smám saman að borginni.

Engu var eirt. Rússarnir létu sprengjum rigna yfir íbúðarhús og spítala. Átakanlegt er að fylgjast með atriðum í myndinni þar sem læknum tekst ekki að bjarga börnum og fullorðnum, sem særðust í árásunum.

Rússar náðu Maríupol á sitt vald í maí 2022 eftir að hafa lagt helming íbúðarhúsa þar í rúst. Úkraínsk stjórnvöld telja að minnst 25 þúsund manns hafi fallið í umsátrinu um Maríupol, en í grein sem birtist fyrr í þessum mánuði í blaðinu Wall Street Journal segir að margir telji að þrefalt fleiri hafi fallið.

Í Morgunblaðinu í dag er viðtal við ungan Úkraínumann, sem ekki vill láta nafns getið vegna þess að skyldmenni hans eru á hernumdum svæðum Úkraínu. Þar eru hrollvekjandi lýsingar á því hvernig lífið þar gengur fyrir sig. Fólk er aldrei öruggt og minnsti vottur af stuðningi við málstað Úkraínu kemur fólki í alvarleg vandræði.

Í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins er rætt við þrjár konur og tvo karla sem komu hingað til lands eftir innrás Rússa. Þau hafa ólíkar sögur að segja, en hjá öllum þeirra kemur fram að ekki megi gefast upp fyrir Pútín því að hann muni aldrei hætta og Vesturlönd megi ekki kikna í hnjánum í stuðningi sínum við Úkraínumenn.

Einn viðmælendanna er Volodymyr Mazur, sem flúði hingað til lands ásamt eiginkonu og tveimur dætrum fyrir tæpum tveimur árum og vinnur nú á vélaverkstæði í Kópavogi. Nú ætlar hann að snúa aftur og ganga í herinn. Það gerir hann ekki af því að hann hafi verið kvaddur í herinn. Honum rennur blóðið til skyldunnar.

„Mér þykir vænt um landið mitt og er stoltur af því að vera Úkraínumaður,“ segir hann í viðtalinu. „Og nú þarf Úkraína á mér að halda. Ég verð að vera ærlegur við sjálfan mig. Gerði ég allt sem ég gat gert eða horfði ég bara á?“

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, kynnti á fimmtudag samning um hernaðarlega og borgaralega aðstoð við Úkraínu. „Ef við stöndum ekki saman fellur Úkraína og þá er óvíst um Evrópu,“ sagði hún og er ekki ein um að tala á þessum nótum. Hún bætti við að öllum mætti vera ljóst að Rússar legðu nú meiri áherslu á stríð en frið eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær: „Rússland er að breytast í raunverulegt hernaðarhagkerfi. Pólitískum andstæðingum er rutt úr vegi. Og Pútín hefur sýnt að hann vill fórna ungmennum landsins á vígvellinum. Rússar eiga auðvitað ekki að fá að ákveða landamæri Evrópu með hervaldi. Frelsið og lýðræðið munu sigra að lokum.“

Þetta eru sterk orð. Á sama tíma berast fréttir um að á vígstöðvunum skorti úkraínska herinn skotfæri og sprengjur til að stöðva sókn Rússa.

Staðreyndin er sú að refsiaðgerðirnar gegn Rússum voru ekki nógu beittar til að hafa þau áhrif sem lýst var yfir að þær myndu hafa. Það má ekki gleyma því að þótt rússneski herinn virðist nú hafa náð vopnum sínum og virðist endalaust geta sótt hermenn til að vera fallbyssufóður í Úkraínu á hann líka í vandræðum með hergögn og vígbúnað og hefur misst kraft og styrk.

Það er jafn brýnt nú og þegar innrásin hófst fyrir tveimur árum að styðja Úkraínumenn og hjálpa þeim að hrekja Rússa af höndum sér.