Langanesbyggð Verðlaunahryssan Arney á Ytra-Álandi með Úlfhildi Ídu eiganda sínum og heimasætunum á Ytra-Álandi, þeim Þóreyju og Láru.
Langanesbyggð Verðlaunahryssan Arney á Ytra-Álandi með Úlfhildi Ídu eiganda sínum og heimasætunum á Ytra-Álandi, þeim Þóreyju og Láru. — Morgunblaðið/Líney Sigurðardóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á bænum Ytra-Álandi í Þistilfirði býr fólk sem metur drauma sína ekki til fjár, þau Úlfhildur Ída Helgadóttir og Ragnar Skúlason ásamt dætrunum Þóreyju og Láru. Í rúmgóðu hesthúsi við bæinn býr stóri draumurinn, verðlaunahryssan Arney sem setti heimsmet í fyrravor í flokki fjögurra vetra hryssa

Úr bæjarlífinu

Líney Sigurðardóttir

Skrifar frá Þórshöfn

Á bænum Ytra-Álandi í Þistilfirði býr fólk sem metur drauma sína ekki til fjár, þau Úlfhildur Ída Helgadóttir og Ragnar Skúlason ásamt dætrunum Þóreyju og Láru. Í rúmgóðu hesthúsi við bæinn býr stóri draumurinn, verðlaunahryssan Arney sem setti heimsmet í fyrravor í flokki fjögurra vetra hryssa. Úlfhildur er ræktandi og eigandi Arneyjar ásamt Ragnari og aðspurð segist hún hafa fengið verulega há kauptilboð í hryssuna sem vissulega voru mjög freistandi: „Ég lá heila nótt og hugsaði mig rækilega um en að lokum ákvað ég að eiga drauminn minn frekar en að selja hann.“

Hryssan Arney er því í góðu yfirlæti í heimahögunum, litlu systurnar á bænum elska hana. Úlfhildur segir aðdragandann að því að Arney varð til vera nokkuð sérstakan:

„Ég lenti í umferðaróhappi og upp úr því fór ég að skoða lífsgildi mín, ein af óskum mínum var að eignast gæðing svo ég fylgdi þeim draumi eftir og keypti unga og álitlega ræktunarhryssu, Erlu frá Skák. Þjálfun hennar gekk vel og hlaut hún 8,73 fyrir hæfileika í kynbótadómi. Það var svo sjónvarpsþátturinn „Maður er manns gaman“ með Magnúsi Hlyni Hreiðarssyni sem hafði veruleg áhrif á stóðhestavalið. Þar sást Skýr frá Skálakoti hlaupa um hagann og eigandinn brölta á bak honum berbakt og ég sagði strax að ég ætlaði að halda undir Ský. Úr því kom Arney og á Ragnar bóndi minn heiðurinn af tamningunni á henni. Í fyrravor fórum við með hryssuna á vorsýninguna á Hólum en þar setti hún heimsmet og hlaut hæstu aðaleinkunn í sínum aldursflokki, 8,62, sem er mögnuð einkunn fyrir svo ungt hross, þá sýnd af Agnari Þór Magnússyni.“

Þessir ungu bændur hafa sannarlega uppskorið árangur vinnu sinnar. Arney er í þjálfun í vetur og er stefnt á aðra sýningu í vor og folaldseignir upp frá því.

Þau Úlfhildur og Ragnar eru bæði uppalin í sveit, hann á Ytra-Álandi þar sem þau búa en hún er frá Núpasveit. Þau eru nú tekin við búinu á Ytra-Álandi af foreldrum Ragnars, búa með sauðfé auk hesta.

Leikfélag Þórshafnar er nú að rísa upp úr öskustónni eftir langan dvala en rúm tíu ár eru frá síðasta leikverki þess. Góð mæting var á endurreisnarfund félagsins og mikill hugur í fólki að finna hentugt leikverk og troða upp í félagsheimilinu í fyllingu tímans. Hugsanlega hefur firnagott nýliðið þorrablót kveikt í fólki og minnt á hversu gaman það er að hittast og leika sér saman enda segir orðið á götunni að sjónvarpið sé afspyrnulélegt sem og streymisveitur en fólkið heima miklu skemmtilegra.

Ekkert bólar á loðnu og verði ekki af loðnuvertíð þá er það mikill tekjumissir fyrir sjávarútvegsfyrirtækin sem og þjóðarbúið allt. Stöðug bolfiskvinnsla hefur verið hjá Ísfélaginu á Þórshöfn en góður þorskur hefur mokveiðst á línu undanfarið. Þegar þorskinn vantar fæðu þá sækir hann í línuna og ætið á henni, segja sjómenn, en í maga hans hefur lítið fundist nema beitan á línunni, ekki loðna eða annað. Sama má segja um svartfuglinn, hann virðist veslast upp af ætisleysi og finnst dauður rekinn á fjörur bæði við Þórshöfn og úti á Langanesi. Frá Þórshöfn róa núna tveir línubátar og einn er á netum en netaveiði er dræmari þegar þorskurinn eltist við ætið á línunni.

Í Langanesbyggð, líkt og víðar, eru miklar breytingar að verða á skipulagi umhverfis- og sorpmála vegna gildistöku nýrra laga um móttöku og meðhöndlun úrgangs. Sveitarfélagið hefur ráðið umhverfisfulltrúa sem tekur til starfa í byrjun mars og er hlutverk hans nokkuð víðfeðmt og tekur til allra þátta í umhverfis- og sorphirðumálum í Langanesbyggð, dreifbýli sem þéttbýli. Byggð verður ný móttökustöð sorps á gámasvæðinu og áætlað er að hún verði tilbúin nú í sumar en umhverfisfulltrúi sér einnig um rekstur hennar.

Markmið nýju laganna í þessum málaflokki er einkum að stuðla að myndun endurvinnslusamfélags og að draga úr myndun úrgangs, með markvissri flokkun og eftirfylgni en sama flokkunarkerfi gildir þá um allt land. Úrbóta var þörf í sorpmálum í sveitarfélaginu svo væntanlega mun nýráðinn umhverfisfulltrúi hafa ærin verkefni í byrjun.

Hátt raforkuverð er íbúum hér mikill þyrnir í augum en hitun húsa er eingöngu með raforku. Fólk hefur í auknum mæli kynnt sér verð sem orkusalarnir bjóða og færa sig þangað sem hagstæðast er. Rarik sér um dreifingu eða flutning orkunnar og þykir fólki sá liður hár og fer síhækkandi. Á málþingi í fyrravor voru m.a. kannaðar leiðir og möguleikar á að Landsnet kæmi einnig að flutningi og dreifingu raforku á Þórshöfn en skýrslugerð um málið er í vinnslu.