Pútin getur ekki um frjálst höfuð strokið utan Rússlands vegna handtökuskipunar frá alþjóðlega sakamáladómstólnum, meðal annars fyrir skipulögð rán á börnum.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Þess er minnst í dag að tvö ár eru liðin frá því Vladimir Pútin Rússlandsforseti gaf fyrirmæli sín um ólögmæta og tilefnislausa innrás í Úkraínu. Að baki bjó draumur um endurreisn rússneska keisaradæmisins, þurrka skyldi Úkraínu af kortinu og gera út af við stjórnendur landsins – „afnazistavæða“ þjóðina eins og forsetinn orðaði það.

Þegar Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, var spurður álits á stríðinu fyrir skömmu svaraði hann: „Pútin er ekki á neinni sigurgöngu í Úkraínu. Það eru liðin tvö ár frá innrásinni og frá hans sjónarhóli er árangurinn hrikalegur. Við skulum ekki láta blekkjast af eigin tali um að bandalag okkar sé að brotna.“

Í þessum fáu orðum er vikið að tveimur meginatriðum sem hafa ber í huga á líðandi stundu. Annars vegar hefur Pútin mistekist að ná markmiðum sínum í Úkraínu og hins vegar er eins og svo oft áður alið á þeirri skoðun að Atlantshafsbandalagið sé að brotna. Varnartengslin séu að rofna á milli ríkjanna í Evrópu og Norður-Ameríku.

Við blasir að Pútin tekst ekki að þurrka Úkraínu út af kortinu. Hvort honum tekst að halda því sem hann hafði hernumið af landinu fyrir innrásina 24. febrúar 2022 kemur í ljós.

Landamerki eru eitt í þessu sambandi en hernaðarlegur og stjórnmálalegur veruleiki annað. Kostar það enn átök í langan tíma að tryggja Úkraínumönnum framtíðaröryggið sem þeir vilja? Þeir sætta sig að sjálfsögðu ekki við sama gervifriðinn og samið var um eftir hernaðarbrölt Rússa árið 2014. Þá skapaðist aðeins stund milli stríða sem Rússar nýttu til hervæðingar og undirbúnings alhliða innrásar.

Nú hefur Úkraínu verið opnuð leið inn í Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið (NATO) að uppfylltum skilyrðum. Ekkert þeirra snýr að því að Pútin segi eitthvað um aðildina. Hann hefur tapað þeirri refskák. Umskiptin sem urðu í Úkraínu fyrir 10 árum þegar leppum Rússa var bolað úr valdastólum sneru einmitt að því að nýir stjórnendur vildu stefna í vestur en ekki austur. Ferðin í vestur verður ekki stöðvuð hvað sem Pútin finnst.

Hann er sakaður um stríðsglæpi og getur ekki um frjálst höfuð strokið utan Rússlands vegna handtökuskipunar frá alþjóðlega sakamáladómstólnum, meðal annars fyrir skipulögð rán á börnum. Tugþúsundir barna hafa verið fluttar nauðugar frá Úkraínu til Rússlands samhliða fjöldamorðum.

Dauði Alexeis Navalníjs sem Pútin óttaðist mest vegna vinsælda hans meðal Rússa og afhjúpana hans á þjófræði Kremlverja er enn eitt dæmið um morðæðið í þágu Pútins, innan og utan Rússlands. Að harðstjóri leggi fæð á heila þjóð og beiti her sínum af blóðugu miskunnarleysi gegn henni er of fjarri heilbrigðri skynsemi til að hægt sé að átta sig til fulls á grimmdinni. Hún blasir hins vegar bláköld við í morðinu á Navalníj og feluleiknum með líkamsleifar hans.

Um 800.000 ungir Rússar, flestir vel menntaðir, hafa flúið til að komast hjá þátttöku í stríðinu og um 300.000 hafa lent í „kjötkvörninni“ eins og landher Rússa er uppnefndur vegna mannfallsins.

Skoðanakönnun í 12 ESB-löndum í janúar 2024 sýnir mikinn stuðning við Úkraínumenn en þeim fækkar frá því í fyrra sem telja að þeir sigri Rússa. Niðurstaðan segir, að sögn fræðinga, að haga eigi stuðningi Evrópuríkja við Úkraínu á þann „raunsæja“ hátt að Úkraínumenn öðlist varanlegan samningsbundinn frið sem falli að hagsmunum þeirra en ekki Pútins.

Chronicle, sjálfstæður rannsóknarhópur í Moskvu, kannaði í október 2023 afstöðu Rússa til Úkraínustríðsins og hafði stuðningur við það minnkað um næstum helming miðað við febrúar 2023, fallið úr 23% í 12%. Þá vildu 40% að rússneski herinn yrði kallaður heim frá Úkraínu þótt markmið stríðsins hefði ekki náðst.

Vegna óvissu um frekari stuðning Bandaríkjamanna við Úkraínu hafa umræður vaxið innan Evrópusambandsins (ESB) um sameiginlegan stuðning við Volodymyr Zelenskíj og stjórn hans. Leiðtogaráð ESB samþykkti nýlega að verja 50 milljörðum evra í þágu Úkraínu.

Innan ESB er rætt um að koma á fót embætti varnarmálastjóra í framkvæmdastjórninni eftir ESB-þingkosningarnar í sumar. Þá er einnig á döfinni að opna ESB-fjárfestingasjóði í þágu hergagnaframleiðslu.

Þótt Úkraínumenn hafi stóreflt eigin skotfæragerð standa þeir verr að vígi en Rússar, þá skortir til dæmis 155 mm fallbyssukúlur þegar Rússar – með aðstoð Norður-Kóreumanna – láta um 3.000 kúlum á dag rigna yfir Úkraínuher. Þá nota Úkraínumenn fleiri Patriot-varnarflaugar á mánuði en Bandaríkjamenn framleiða á ári og það er fimm ára afgreiðslufrestur á pöntunum.

Niðurstaða átakanna í Úkraínu ræðst hvað sem öðru líður af framtaki Bandaríkjamanna. Pólitísk spenna á kosningaári kemur í veg fyrir sameiginlegt átak bandarísku flokkanna í þágu Úkraínu. Staðan gegn Pútin veikist og hann eflist í þeirri trú að hann geti sigrað fleiri en Úkraínumenn. Þeim fjölgar sem óttast að verða næsta skotmark hans.

Münchenar-ráðstefnan um öryggismál var haldin fyrir viku. Norskir alþjóðamálafræðingar segja boðskapinn frá ráðstefnunni vera að ekki nægi að auka fjárveitingar til öryggismála í Evrópu heldur verði að gera það með hraði.

Það kosti átak í öllum lýðræðislöndum við að miðla upplýsingum og fræða almenning um nauðsyn þess að auka öryggi bæði hernaðarlegt og í þágu almannavarna. Séu forystumenn innan NATO ekki samstiga þar og við kynningu á ógnum að örygginu verði meiri vandi en ella að tryggja fjárveitingarnar.

Þetta á ekki síður við hér en annars staðar.