Frá æfingu Vera segir æfingaferlið hafa gengið vel enda sé mikil tilhlökkun í hópnum fyrir tónleikunum í dag.
Frá æfingu Vera segir æfingaferlið hafa gengið vel enda sé mikil tilhlökkun í hópnum fyrir tónleikunum í dag.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Oratorio de Noel eftir Camille Saint-Saëns verður flutt af Kammerkór Seltjarnarneskirkju, hljóðfæraleikurum og einsöngvurum undir stjórn Stefans Sands, í Seltjarnarneskirkju í dag kl. 16, en kórstjóri Kammerkórs Seltjarnarneskirkju er Friðrik Vignir …

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

Oratorio de Noel eftir Camille Saint-Saëns verður flutt af Kammerkór Seltjarnarneskirkju, hljóðfæraleikurum og einsöngvurum undir stjórn Stefans Sands, í Seltjarnarneskirkju í dag kl. 16, en kórstjóri Kammerkórs Seltjarnarneskirkju er Friðrik Vignir Stefánsson

Einsöngvarar á tónleikunum eru þau Vera Hjördís Matsdóttir sópran, Kristín Sveinsóttir messósópran, Hildigunnur Einarsdóttir alt, Eggert Reginn Kjartansson tenór og Gunnlaugur Bjarnason barítón.

Völdu fallegar raddir

„Þetta byrjaði allt á því að ég og Gunnlaugur bjuggum í Hollandi og vorum þar við nám á meistarastigi í klassískum söng. Við vorum fengin til að flytja þetta verk sem sólistar og urðum bara svo ótrúlega hrifin af verkinu að ég fékk þessa hugdettu að fara með það til Íslands beint eftir námið og flytja það hér í góðra manna hópi, því hér eru svo margir flottir söngvarar og tónlistarmenn,“ segir Vera spurð að því hvernig það kom til að þetta tiltekna verk varð fyrir valinu hjá hópnum.

Saint-Saëns samdi Oratorio de Noel árið 1858 fyrir kór, fimm einsöngvara, strengjakvintett, hörpu- og orgelleikara. Er um að ræða framsetningu og frásögn af fæðingu frelsarans í formi tónlistar. Þá skiptist verkið í tíu þætti og inniheldur texta úr Biblíunni, auk latneskra sálma, en einnig vers sem leiða framvindu sögunnar áfram.

Innt eftir því hvernig hópurinn sé samsettur segir Vera flesta söngvarana tiltölulega nýkomna úr námi og tilbúna að hasla sér völl í tónlistinni. „Ég fékk Stefan Sand, sem er ungur og efnilegur stjórnandi frá Danmörku og hefur meðal annars stundað nám hér á landi, til liðs við mig. Við fléttuðum verkefnið saman og völdum söngvarana svolítið út frá röddunum. Við völdum fyrst og fremst fallegar raddir en líka raddir sem pössuðu saman,“ segir hún.

„Við fengum til dæmis Hildigunni Einarsdóttur, sem var valin söngvari ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum í fyrra, með okkur en þessi tiltekni hópur hefur ekki áður komið fram saman. Síðan fengum við frábæran kór til liðs við okkur, Kammerkór Seltjarnarneskirkju, sem hefur svo fallegan og þéttan hljóm, og þau færu og músíkölsku Pétur Nóa orgelleikara og Katie Buckley hörpuleikara.“

Bíða ekki við símann

Spurð að því hvort næg verkefni séu í boði hér á landi fyrir unga söngvara líkt og þennan hóp, sem er að koma aftur heim eftir nám að utan, segir Vera að vissulega séu verkefnin til staðar en söngvararnir verði að bera sig eftir þeim. „Ég gerði mér alveg grein fyrir því frekar snemma, eftir að ég var búin að átta mig á að þetta væri eitthvað sem mig langaði að leggja fyrir mig, að ef ég ætlaði að fara inn í þetta yrði ég að tileinka mér mikla framtakssemi. Maður þarf að vera duglegur að finna upp á því svolítið sjálfur. Það eru verkefni en svona fyrst um sinn getur maður ekki beðið eftir því að síminn hringi, maður verður bara að stíga fram og þora að fylgja hugmyndum sínum eftir. Það er alla vega mín sýn í þessu,“ segir hún.

Krefst mikillar hlustunar

Að sögn Veru er verkið að vissu leyti krefjandi þar sem fimm söngvarar og kór þurfa að smella saman við hljóðfæraleik.

„Verkið krefst mikillar hlustunar og samsöngs en við þurfum að syngja okkur svolítið saman. Við æfðum þetta sitt í hvoru lagi og þá var maður að fást við þessa frasa og hendingar en svo þegar við sungum þetta öll saman í fyrsta skipti bárum við hvert annað uppi. Það var svo þægilegt að setjast bara ofan á hljóminn og fljóta með,“ segir hún og bætir því við að lokum að mikil tilhlökkun sé í hópnum fyrir tónleikunum í dag sem fara fram með stuðningi frá Seltjarnarnesbæ sem hluti af afmælishátíð bæjarfélagsins, Tónlistarsjóði Rannís og Félagi íslenskra hljómlistarmanna.