Minning Kona leggur blóm til minningar um Navalní í Moskvu.
Minning Kona leggur blóm til minningar um Navalní í Moskvu. — AFP/Natalía Kolesikóva
Rússneskir embættismenn hótuðu því í gær að lík andófsmannsins Alexeis Navalnís yrði jarðsett á lóð fangabúðanna þar sem hann lést í síðustu viku, ef fjölskylda Navalnís samþykkti ekki að halda lokaða útför

Rússneskir embættismenn hótuðu því í gær að lík andófsmannsins Alexeis Navalnís yrði jarðsett á lóð fangabúðanna þar sem hann lést í síðustu viku, ef fjölskylda Navalnís samþykkti ekki að halda lokaða útför.

Talsmaður stuðningsmanna Navalnís skrifaði á samskiptamiðlinum X að hringt hefði verið í móður Navalnís í gær og henni settir úrslitakostir. Hún hefði fengið þriggja klukkustunda frest til að samþykkja að útför Navalnís færi fram með leynd, en ella yrði hann jarðsettur í fangabúðunum. Móðirin, Ljúdmíla Navalnaía, hefði að sjálfsögðu hafnað því enda hefðu þeir enga heimild til að ákveða hvar eða hvernig sonur hennar yrði grafinn.

Navalní, sem var einn helsti gagnrýnandi Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta, lést 16. febrúar eftir að hafa setið í fangelsi í þrjú ár. Almennt er litið svo á að fangelsisdómar sem hann sætti hafi verið kveðnir upp í refsingarskyni fyrir að hann beitti sér gegn stjórnvöldum í Kreml. Segja stuðningsmenn Navalnís að rússnesk stjórnvöld óttist hann jafnvel eftir dauða hans.