Óvissa Vilhjálmur Birgisson og Ragnar Þór Ingólfsson.
Óvissa Vilhjálmur Birgisson og Ragnar Þór Ingólfsson. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
VR tók þá ákvörðun í gær að slíta sig frá breiðfylkingu stéttarfélaga Alþýðusambandsins í samningaviðræðunum við Samtök atvinnulífsins (SA) en Starfsgreinasambandið, Efling og Samiðn munu halda sínu striki í kjaraviðræðunum við SA

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

VR tók þá ákvörðun í gær að slíta sig frá breiðfylkingu stéttarfélaga Alþýðusambandsins í samningaviðræðunum við Samtök atvinnulífsins (SA) en Starfsgreinasambandið, Efling og Samiðn munu halda sínu striki í kjaraviðræðunum við SA.

Breiðfylkingin og SA hittust á fundi í Karphúsinu í gærmorgun en þá hafði sátt náðst í stærsta deilumálinu hvað varðar forsenduákvæðin. VR neitaði að skrifa undir það ákvæði. Um hádegisbil í gær dró til tíðinda þegar VR ákvað að kljúfa sig frá breiðfylkingunni ásamt Landssambandi íslenzkra verslunarmanna, LÍV.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir við Morgunblaðið að helsta ástæða þess að VR hafi ákveðið að slíta sig frá breiðfylkingunni hafi verið sú að Samtök atvinnulífsins hafi sett VR afarkosti í fyrrakvöld varðandi forsenduákvæðin.

„Við í breiðfylkingunni vorum ósammála hvort forsenduákvæðin gengju nógu langt eða ekki og við ákváðum að stíga til hliðar,“ sagði Ragnar við Morgunblaðið. Spurður hvað sé í forsenduákvæðunum sem VR sætti sig ekki við segir hann: „Ég er ekki tilbúinn til þess að ræða það í smáatriðum. Þetta er flókin aðferðafræði sem vorum að vinna með og það er fullmikil einföldun að draga eitthvað eitt út. Í grunninn fannst okkur þau ekki ganga nógu langt.“

Langtímasamningur stefnan

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, segir það vonbrigði að ná ekki að semja við breiðfylkinguna í óbreyttri mynd en verkefnið sé enn til staðar. Hún segir að ennþá sé stefnt á að gera langtímakjarasamninga sem hafi það að markmiði að ná niður verðbólgu og skapa skilyrði fyrir vaxtalækkunum. „Ákvörðun VR kemur á óvart þar sem búið var að samþykkja launaliðinn og forsenduákvæðin þar sem ákveðið hafði verið að horfa til verðbólgumarkmiða árin 2025 og 2026,“ sagði Sigríður Margrét.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfgreinasambandsins, segir að VR hafi kosið að fara þessa leið en Starfsgreinasambandið í samfloti með Eflingu og Samiðn ætli að halda sínu striki í samningaviðræðunum við SA. Spurður hvort það sé ekki högg fyrir breiðfylkinguna að VR, stærsta verkalýðsfélagið, hafi kosið að slíta sig frá samstarfinu segir Vilhjálmur: „Samstaðan er það sem skiptir máli í öllu því sem fólk tekur sér fyrir hendur, hvort sem það er í félagasamtökum, íþróttum eða hverju sem er. Þetta var niðurstaða VR. Samningsumboðið liggur hjá hverju landssambandi og félagi fyrir sig og þannig er lýðræðið.“

Ragnar segist óska þeim sem eftir eru í breiðfylkingunni alls hins besta í þeirri vinnu sem þau eiga fyrir höndum og hún muni að öllum líkindum gera alvarlega atlögu að því að klára samningana um helgina. „Það er mín einlæga ósk að þau nái ásættanlegri niðurstöðu fyrir sína hópa og það yrði þá grunnur sem við getum byggt á og getum þá tekið upp þráðinn til að fylgja þeirri vinnu eftir og náð því í gegn sem við teljum vanta inn í samninginn fyrir okkar hópa,“ sagði Ragnar við Morgunblaðið. Hann segir að ekkert hafi verið ákveðið hvort VR hyggist fara í samflot með öðrum félögum en orðómur hefur verið í gangi að VR gæti farið í bandalag með iðnaðarmönnum en samninganefndir fagfélaga iðn- og tæknifólks samþykktu í gær að stofna aðgerðahóp til að undirbúa verkfall.