Brotakennd „Vaðlaheiðargöng eru nokkuð brotakennd sýning þar sem misvel hefur tekist að brjótast í gegnum vegginn og hreyfa við áhorfendum.“
Brotakennd „Vaðlaheiðargöng eru nokkuð brotakennd sýning þar sem misvel hefur tekist að brjótast í gegnum vegginn og hreyfa við áhorfendum.“ — Ljósmynd/Owen Fiene
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Borgarleikhúsið Vaðlaheiðargöng ★★★·· Eftir leikhópinn. Leikstjóri: Karl Ágúst Þorbergsson. Leikmynd og búningar: Júlíanna Lára Steingrímsdóttir. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Tónlist og hljóðheimur: Gunnar Karel Másson. Myndband: Valdimar Jóhannsson. Leikendur: Aðalheiður Árnadóttir, Hilmir Jensson og Kolbeinn Arnbjörnsson. Leikhópurinn Verkfræðingar í samstarfi við Borgarleikhúsið frumsýndi á Nýja sviðinu föstudaginn 2. febrúar 2024.

Leiklist

Þorgeir

Tryggvason

Allt orkar tvímælis þá gert er sagði Njáll, og það er vandalaust að heimfæra þá speki upp á Vaðlaheiðargöng og aðdraganda þess að þau voru boruð. Utan samgönguáætlunar í krafti málafylgju heimaríkra þingmanna og nokkuð skapandi arðsemisútreikninga. En núna eru þau staðreynd á þjóðvegi 1, og sjálfsagt mál í daglegu lífi íbúa Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslna, landsmanna og gesta þeirra. Það er eins og þau hafi alltaf verið þarna. Og kannski má segja að þau hafi alltaf verið þarna, í sama skilningi og styttur búa í marmarahlunkum þar til myndhöggvarinn kemst í að frelsa þær og gera sýnilegar.

En listin tekur Njál einatt á orðinu. Það eru ekki bara afdrifaríkar ákvarðanir sem orka tvímælis, heldur hreinlega allt mannlegt brölt. Þegar hin forna speki er skilin þeim skilningi má segja að lögspekingurinn á Bergþórshvoli hafi verið fyrsti absúrdistinn. Það er eftir þeim brautum sem leikhópurinn Verkfræðingar hefur nálgast verkefni sitt. Allt kemur áhorfendum spánskt fyrir sjónir af því að það er þannig sem það er sett fram, það er það sem vekur áhuga og kveikir neistann í Verkfræðingum.

Sumt af því er vissulega framkvæmdin sjálf. Bráðfyndin er kynningarsenan, þar sem þau Aðalheiður Árnadóttir, Hilmir Jensson og Kolbeinn Arnbjörnsson fara yfir framkvæmdina og stikla á stóru um hrakfarir og heimskupör henni tengd. Öllu rýrari er sena þar sem þykkum ádeilupensli er smurt yfir hugmyndir um gagnsemi þessara ganga. Þar virðist það hafa farið fram hjá Karli Ágústi Þorbergssyni og liðsmönnum hans að göngin liggja í báðar áttir, og nýtast ekki síður – jafnvel fremur – þeim sem þurfa að sækja eitthvað til Akureyrar en hinum sem eiga erindi austur.

Bróðurpartur sýningarinnar hefur síðan ekki nema lauslega snertipunkta við gangagerð og samgönguáætlanir, fyrir utan búninga og leikmynd Júlíönnu Láru Steingrímsdóttur, sem teygir sig eins nálægt raunsæinu og fátækur frjáls leikhópur hefur tök á, með stuðningi frá kröftugri hljóðmynd Gunnars Karels Mássonar, lýsingu Ólafs Ágústs Stefánssonar og myndböndum Valdimars Jóhannssonar.

Sumt er fullkomlega órætt og draumkennt, en eftirminnileg verður stór og mikil sena í glerbúri inni í göngunum þar sem kulnað starfsfólk á barmi taugaáfalls fer í gegnum skyndibitaúrvalið í nærliggjandi sjoppum og bakaríum, með sérstakri áherslu á akureyrska sköpunargleði í þeim geira. Sem lýkur á óvæntri heimsókn risaeðlu sem verður að teljast kómískur hápunktur kvöldsins.

Hin óræðu og mikið til þöglu atriði síðari hlutans reyna talsvert á þolinmæðina. Ansi hreint teygður lopi með óljóst erindi. Stundum óþægileg tilfinning fyrir að höfundum liggi fulllítið á hjarta og þurfi þess vegna að stilla í hægagang. Í leikstílunum er lögð áhersla á óútleysta spennu, sem er nokkuð áhrifaríkt, en verður of einsleitt til lengdar.

Vaðlaheiðargöng eru nokkuð brotakennd sýning þar sem misvel hefur tekist að brjótast í gegnum vegginn og hreyfa við áhorfendum. Best tekst það þegar kómíkin er aðferðin, enda þau Aðalheiður, Hilmir og Kolbeinn flink í henni og ná áreynslulaust að mynda samband við salinn í byrjun, áður en sýningin gerist einarðlega innhverf. Önnur brot ná síður að réttlæta sig og endurgjalda gestum athyglina.