[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég er að lesa The Plotters eftir Kim Un-Su um þessar mundir. Hún er upprunalega á kóresku og fjallar um leigumorðingja í Seúl. Ég er komin stutt með hana en finnst spennandi að lesa um heim sem er svo fjarskyldur mér

Ég er að lesa The Plotters eftir Kim Un-Su um þessar mundir. Hún er upprunalega á kóresku og fjallar um leigumorðingja í Seúl. Ég er komin stutt með hana en finnst spennandi að lesa um heim sem er svo fjarskyldur mér.

Ég er almennt mjög hrifin af erlendum bókmenntum, þá sérstaklega japönskum raunfantasíum (e. magical realism). Lonely Castle in the Mirror er heilnæm saga sem ég las nýlega eftir Mizuki Tsujimura. Bókin leiðir mann inn í töfrandi heim barna sem eiga við geðsjúkdóma að stríða. Hún er skemmtilega skrifuð og grípur vináttu barna vel.

Einnig mæli ég eindregið með Before the Coffee Gets Cold eftir Toshikazu Kawaguchi. Sagan gerist á kaffihúsi í Tókýó þar sem boðið er upp á að fara aftur í tímann með því skilyrði að klára kaffibollann áður en hann verður kaldur. Ný persóna fylgir hverjum kafla sem fer aftur í tímann og vekur hugleiðingar um mannveruna. Bókin er stutt og fullkomin til að lesa með kaffibollanum.

Í fyrra komst ég í það að hlusta á hljóðbækur. Í síðasta mánuði hlustaði ég meðal annars á Leave the World Behind eftir Rumaan Alam. Í fyrra kom út kvikmynd með sama nafni en mér fannst bókin mun betri og áhrifameiri eins og oft tíðkast. Bókin kemur með áhugaverða ádeilu á mikilvægi siðmenningarinnar og þörf okkar fyrir síma og internetið til að halda okkur tengdum við alheiminn í samtímanum.

Mín allra mesta uppáhaldsbók er Bókaþjófurinn (The Book Thief) eftir Markus Zusak. Ég las hana fyrst 15 ára og er búin að missa töluna á því hversu oft ég hef lesið hana síðan. Dauðinn segir söguna frá sínu sjónarhorni og hún gerist í Þýskalandi í seinni heimsstyrjöldinni. Bókin er undurfallega skrifuð og ljóðræn. Dauðinn er ekki látinn líta út fyrir að vera illkvittinn heldur er hann fremur hlutlaus og kemur með vangaveltur um manneskjuna á meðan hann sinnir því hlutverki sínu að taka á móti sálum.