— Morgunblaðið/Eyþór
Hver er Frímann Gunnarsson? Hann er persóna sem ég bjó til með bróður mínum Ragga fyrir átján árum. Frímanni finnst hann vera sá gáfaðasti af þeim öllum. Hann setur sig endalaust í stellingar og er með stór og mikil plön, vill marka djúp spor og…

Hver er Frímann Gunnarsson?

Hann er persóna sem ég bjó til með bróður mínum Ragga fyrir átján árum. Frímanni finnst hann vera sá gáfaðasti af þeim öllum. Hann setur sig endalaust í stellingar og er með stór og mikil plön, vill marka djúp spor og breyta lífi fólks til framtíðar, eina vandamálið er að hann er því miður langt því frá að vera gáfaður og er engan veginn til þess fallinn að standa við sín háleitu markmið. Engu að síður ætlar hann samt enn og aftur að gera tilraun til þess á þessari sýningu; 11 Spor – Til hamingju! Hann vill hleypa fólki inn í sín leyndarmál sem hafa gert hann að þeim manni sem hann er og heldur auðvitað að það sé eftirsóknarvert. Hann er týpan sem við þekkjum, sem er algjörlega sannfærð um eigið ágæti og vill að tekið sé mark á sér en yfirleitt er engin innistæða fyrir því sem hann segir.

Hvað fleira ætlar Frímann að bjóða upp á í Bæjarbíói?

Þetta er auðvitað fyrst og fremst grín- og skemmtikvöld með tónlist. Frímann syngur sem sagt sín uppáhaldslög og það er tónlistarmaður með honum á sviðinu allan tímann. Fyrir hlé býður Frímann upp á uppistand (frábærlega vel heppnað að hans mati!) og ljóðaáskorun, en hann er að eigin mati eitt mesta ljóðskáld samtímans. Eftir hlé er svo fyrirlestur í anda Ted-fyrirlestranna, sem heitir 11 Spor – Til hamingju! Þar er hann búinn að stytta leiðina til hamingjunnar um eitt spor, miðað við ónefnd 12 spora samtök, og sparar því áhorfendum eitt spor!

Lofar hann að fólk komi hamingjusamara út?

Já 100%, en með mjög löngum fyrirvara, samkvæmt ráðleggingum lögfræðinga hans. Hann fríar sig allri ábyrgð, en stendur að öðru leyti 100% við það að fyrirlesturinn færi áhorfendum hamingju, en tekur fram að þetta muni virka langbest fyrir fólk sem er hamingjusamt fyrir.

Er Frímann vinsæll?

Já, en hann er ekki allra. Húmorinn er ekkert flókinn. Ég hef verið að skemmta sem Frímann víða um land í alls kyns veislum og fólk er yfirleitt mjög fljótt að kveikja á húmornum því allir þekkja einhverja hlið á þessari týpu sem vill vera tekin alvarlega og vill koma fyrir sem gáfaður maður, en innistæðan er kannski ekki til staðar. Hann vill engum illt og húmorinn er alltaf á hans eigin kostnað, hann er sem sagt sjálfur „fíflið“. Kannski er besta lýsingin á honum að hann er „besserwisser“ sem því miður bara veit aldrei betur.

Hliðarsjálf Gunnars Hanssonar er Frímann Gunnarsson, en sá síðarnefndi mun skemmta fólki í Bæjarbíói á sýningu sem nefnist 11 spor – Til hamingju. Fjórar sýningar eru í boði; frá 29. febrúar til 8. mars. Miðar fást á tix.is.