Konan var ekki ánægð með lestur á Sölku Völku í útvarpinu árið 1954.
Konan var ekki ánægð með lestur á Sölku Völku í útvarpinu árið 1954. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
Kona ein ritaði Velvakanda bréf í febrúar 1954 og var allhyggjufull út af ástandinu í andlegum málum okkar Íslendinga. „Erum við á leiðinni að afkristna landið?“ spurði hún. Og taldi upp ýmislegt, sem hún taldi benda til þess: lestur…

Kona ein ritaði Velvakanda bréf í febrúar 1954 og var allhyggjufull út af ástandinu í andlegum málum okkar Íslendinga.

„Erum við á leiðinni að afkristna landið?“ spurði hún. Og taldi upp ýmislegt, sem hún taldi benda til þess: lestur óguðlegrar skáldsögu í útvarpinu [Sölku Völku eftir Halldór Laxness], sem tók við strax að lestri passíusálmanna loknum, útgáfu Menningarsjóðs á skáldsögu eins og Musteri óttans [eftir Guðmund Daníelsson], sem kom út fyrr um veturinn, og í þriðja lagi flutning Ríkisútvarpsins á leikritinu Fátt segir af einum. „Er ekki hið illa að verða yfirsterkara því góða?“ spurði konan í lok bréfs síns.

Velvakandi þakkaði konunni fyrir bréfið og sagði svo: „Hún er ekki ein um þá skoðun, að heimurinn fari stöðugt versnandi, að það illa hafi aldrei leikið betur lausum hala en einmitt í dag. Reyndar hefir þetta verið þannig frá því fyrsta. Þeir eldri sjá yngri kynslóðina stöðugt á barmi glötunarinnar, en einhvern veginn erum við samt komin fram á þennan dag.“

Annars sagði Velvakandi að Salka Valka væri óneitanlega fagurt skáldverk, „þó að lífsskoðun og trúarskoðun höfundarins, sem þar kemur fram, kunni að vera frábrugðin okkar“.