Eyðilegging Húsarústir í bænum Panteleimonovk í Donetsk-héraði. Eyðileggingin er víða gífurleg.
Eyðilegging Húsarústir í bænum Panteleimonovk í Donetsk-héraði. Eyðileggingin er víða gífurleg. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úkraínsk kona búsett á Íslandi segir rússnesk stjórnvöld markvisst vinna að því að eyða menningu Úkraínumanna á herteknum svæðum í Úkraínu. Frá sjónarhóli valdhafa í Kreml séu hernumdu svæðin orðin hluti af Rússlandi og liggi jafnvel dauðarefsing við að hreyfa mótmælum

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Úkraínsk kona búsett á Íslandi segir rússnesk stjórnvöld markvisst vinna að því að eyða menningu Úkraínumanna á herteknum svæðum í Úkraínu. Frá sjónarhóli valdhafa í Kreml séu hernumdu svæðin orðin hluti af Rússlandi og liggi jafnvel dauðarefsing við að hreyfa mótmælum.

Konan á ættingja á hernumdum svæðum í Úkraínu og kemur því ekki fram undir nafni.

„Þegar Rússar komu fyrst bönnuðu þeir úkraínskt sjónvarp og úkraínska farsímakerfið en markmið þeirra er að dreifa rússneskum áróðri. Úkraínskt útvarp virkar heldur ekki. Núna er bara rússneskt sjónvarp í boði fullt af áróðri. Úkraínumenn eru sagðir bandamenn nasista. Bandaríkin eru vond og Úkraínumenn drepa fólk. Úkraína var aldrei til, Lenín bjó til Úkraínu, Úkraína var alltaf hluti af Rússlandi. Við erum ein og sama þjóðin. Við erum eins og okkar tungumál er rússneska. Úkraínska er gervitungumál. Svo eru það sögubækurnar. Þar er sagan strikuð út,“ segir hún.

Náði ekki sambandi

Vegna alls þessa hafi hún á tímabili ekki náð sambandi við ættingja sína. Nú sé hins vegar meðal annars hægt að nota Viper og WhatsApp til að eiga í samskiptum við vini og ættingja.

„Rússar hlusta á öll samtöl. Ef fólk talar illa um Rússland, styður Úkraínu og vill að Úkraína endurheimti herteknu svæðin á það á hættu að Rússar komi heim til þess og beiti refsingum. Þeir vita hvar það býr en framvísa þarf vegabréfi til að fá rússneskt símkort og allt er skráð. Það er aðeins hægt að nota rússnesk símkort í farsímum en Rússar bönnuðu sem áður segir úkraínska símkerfið. Rússar beita einnig pyntingum. Ef þú ert þjóðernissinnaður Úkraínumaður, föðurlandsvinur, áttu á hættu að verða pyntaður eða tekinn af lífi.“

Beita pyntingum

Hvernig finna þeir út að einstaklingarnir séu föðurlandsvinir?

„Þeir hlusta á símtölin og núna er netið rússneskt. Án aðgangs að því kemst fólk ekki á netið. Rússar fylgjast með fólki. Nágrannar þínir líka geta sagt til þín, ef þú ert föðurlandsvinur.“

Þannig að þetta er eins og í Sovétríkjunum þegar óttaslegið fólk lét vita ef nágranninn var ekki sannur kommúnisti?

„Það má segja það. Rússar eru alls staðar og athuga reglulega símann hjá fólki sem er á ferðinni í leit að merkjum um að það styðji Úkraínu. Fyrst eftir að stríðið braust út var fólk að mótmæla. Það þekkist sumt af ljósmyndum og á því á hættu að Rússar komi og pynti það. Rússar vita hvar fólkið er að finna. Það er hættulegt að láta skoðun sína í ljós þannig að Rússar komist að því að þú sért föðurlandsvinur. Rússar fara reglulega inn á heimili fólks og athuga vegabréf og aðra hluti. Þegar fólk ferðast milli þorpa eða borga þarf það að framvísa vegabréfi og ef það hefur það ekki við höndina getur það haft afleiðingar.“

Markviss leit að fólki

Þannig að það er markvisst leitað að fólki sem talið er styðja Úkraínu og fólkið síðan eftir atvikum pyntað eða drepið. Það er ekki einfaldlega sent í burtu?

„Það fer eftir því í hvaða skapi rússneskir hermenn eru, hvort þú ert heppinn eða ekki og hversu mikill föðurlandsvinur þú ert. Ef þú hefur skipulagt mótmæli eða verið of mikill aðgerðasinni þá ertu dauðans matur.“

Þannig að Rússar fylgjast með símtölum í rauntíma?

„Já. Sennilega eru notuð forrit sem bera kennsl á lykilorð og geta gert Rússum viðvart. Það kemur fyrir að símtölin séu rofin. Það kemur líka fyrir að það er engin nettenging í nokkra daga. Mín kenning er sú að þá séu Rússar að færa til hergögn og búnað og loki fyrir netið af öryggisástæðum.

Vegna yfirtöku Rússa á farsímakerfinu get ég ekki lengur hringt í farsíma. Rússnesku símkortin virka aðeins á herteknu svæðunum. Þetta eru ekki sömu símkortin og Rússar eiga að venjast í Rússlandi heldur eru að jafnaði notuð sérstök símkort fyrir hernumdu svæðin.

Það sama á við um banka. Nú verða til dæmis eftirlaunaþegar að nota rússneska banka.“

Því er haldið fram að auðmenn sem eru hliðhollir Pútín Rússlandsforseta skipti milli sín atvinnugreinum á hernumdu svæðunum. Einn fái til dæmis að vera verktakinn sem byggir upp eftir eyðilegginguna og annar fái að reka stórmarkaði og svo framvegis. Að Pútín og valdaklíka hans fái svo hlutdeild af arðinum sem einokunin skapar. Er eitthvað hæft í því?

„Já. Þessari aðferð er beitt kerfisbundið. Ríkir menn sem Pútín stjórnar eiga fyrirtækin,“ segir konan og tekur dæmi af því hvernig verð á sumum landbúnaðarafurðum hafi hrunið. Það hafi bitnað hart á fjárhag bænda en sumir hafi jafnvel misst landbúnaðarvélar sínar í hendur Rússa eða einstaklinga sem eru þeim hliðhollir.

Spurð hvað skýri verðlækkun á landbúnaðarvörum segir konan að Rússar hafi í sumum tilfellum einfaldlega snarlækkað verðið handvirkt. Staðan sé einna erfiðust hjá bændum sem framleiða ferskar afurðir en hætt sé við að þeim afurðum verði hent ef Rússar telja að ekki sé þörf fyrir vöruna á svæðunum. Markaðssvæði bændanna hafi verið skert og markaðslögmálin í raun verið tekin úr sambandi með miðstýringu.

„Því rússneska hernámsliðið stelur öllu. Rússar geta komið og stolið fyrirtækinu þínu, íbúðinni þinni og traktornum þínum. Það fer eftir því hversu heppinn þú ert.“

Taka íbúðirnar yfir

„Margir Úkraínumenn flúðu. Yfirgáfu heimili sín. Íbúðir og hús stóðu auð. Draumur margra aðkomumanna er að eignast íbúð. Ef fólk er handgengið Rússum, leggur þeim lið í áróðrinum og finnur út hver er föðurlandsvinur þá getur það fengið íbúð ókeypis. Margir Rússar koma til starfa á hernumdu svæðunum. Starfa t.d. sem kennarar og læknar og þurfa íbúð eða hús sem einhver hefur yfirgefið og hreiðra þar um sig. Svo koma margir Rússar sem vilja t.d. búa nálægt hafinu. Sumir koma frá borgum og bæjum sem eru í niðurníðslu og sjá fyrir sér betra líf á hernumdu svæðunum.“

Fá þannig ódýrari íbúðir?

„Já, eða ókeypis. Og koma með fjölskylduna. Það gera rússneskir hermenn líka,“ segir konan en frásögnin tekur á hana. Hún sýnir svo myndir og gögn til að renna stoðum undir frásögnina.

Umbunað fyrir samvinnu

Tengslin við valdhafa borga sig

Úkraínska konan sem blaðamaður settist niður með segir Rússa gera vel við fólk sem er þeim handgengið á hernumdu svæðunum. Það geti því borgað sig að ná kynnum við aðflutta valdhafa frá Rússlandi og gera sér dælt við fólk sem stjórnar svæðunum. Slík samvinna geti skilað því að fá fyrirtæki í hendurnar eða jafnvel íbúðir. Yfirtaka á íbúðarhúsnæði sé jafnvel réttlætt með því að íbúarnir hafi verið úkraínskir þjóðernissinnar. Þess sé þó ekki alltaf þörf og stundum sé húsnæðið einfaldlega tekið yfir. Minnir þessi lýsing á frásagnir af lífinu í Sovétríkjunum sálugu en þar áttu þegnarnir allt undir tengslum sínum við kommúnistaflokkinn. Til dæmis vegna úthlutunar á íbúðum í stórborgunum.

Spurð hversu margir hafi látið lífið í innrás Rússa í Úkraínu segir konan að minnsta kosti hundrað þúsund Úkraínumenn hafa týnt lífinu. Þá
sé áætlað að 300 þúsund rússneskir hermenn hafi fallið sem og
mikill fjöldi úkraínskra hermanna. Fullvíst sé að fleiri óbreyttir borgarar hafi fallið.