Tónlist? Halla Steinunn Stefánsdóttir er ein þeirra sem hafa unnið á listrænan hátt úr hljóðum umhverfisins.
Tónlist? Halla Steinunn Stefánsdóttir er ein þeirra sem hafa unnið á listrænan hátt úr hljóðum umhverfisins.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Plötur þar sem útgangspunkturinn er umhverfis- og/eða náttúruhljóð eða einslags vettvangshljóðritanir (e. field recordings).

TÓNLIST

Arnar Eggert Thoroddsen

arnareggert@arnareggert.is

Þar sem ég skannaði útgáfur síðasta árs varð ég var við nokkrar plötur sem hafa að gera með það sem lýst er í inngangi. Plötur þar sem útgangspunkturinn er umhverfis- og/eða náttúruhljóð eða einslags vettvangshljóðritanir (e. field recordings). Tónlist er svo gjarnan í bland, í mismiklum mæli þó og stundum bara alls ekki. Ég fór að hugsa um hvort þetta hafi verið sérstaklega einkennandi fyrir síðasta ár, hvort einhver svona bylgja sé í gangi en komst að því að svo er ekki. Svona verk koma reglulega út – og hafa gert síðan hljóðritun hófst – og síðasta ár ekkert ólíkt öðrum þegar nánar er að gáð. Það sem opnaði augu mín (eyru?) fyrir því að líklega væri engin sérstök bylgja í gangi var að ég spurði internetið (Fjasbók) um þessa iðkun og þá var eins og allir og amma þeirra væru í þessum bransa. Já, ég veit. Fæðing þessa pistils er einkennileg og á tíma ætlaði ég að sleppa honum. En þrjóskaðist við. Eitthvað þarf ég nú að skrifa um!

Þannig að. Ég ætla að byrja á því að tefla fram verkunum frá síðasta ári, þeim sem hrundu skrifunum/pælingunum af stað. Fyrst ber að nefna plötuna Travel Kit eftir Halldór Eldjárn, þriggja laga stuttskífu með lögunum „Flateyri“, „Gullbringa“ og „Nykurtjörn“. Hér er að finna hægstreyma „ambient“-tónlist með náttúruhljóðum frá stöðum sem Halldór nýtir í sköpunina. Umhverfið mótar rammann ef svo mætti segja. Bergur Anderson, sem býr og starfar í Hollandi, hefur verið að gefa út plötur, einn og í samstarfi við aðra, þar sem tónlist, umhverfishljóð og talað mál fléttast saman. Nýjasta verkið kom út seint í nóvember í fyrra en það vann hann með Katrinu Niebergal. Ben Frost hefur þá unnið plötu sem nýtir sér hljóð úr Amazon-skóginum (Broken Spectre, líka nafnið á stærra verkefni sem er unnið með Richard Mosse ljósmyndara og Trevor Tweeten kvikmyndatökumanni) og í fyrra komu Vakning og Meradalir út, plötur sem Frost vinnur með Francesco Fabris en þar er eldfjallavirkni Íslands nýtt í hljóðmyndina/tónlistina. Kjartan Ólafsson tónskáld gaf þá út plötuna Music from Mother Nature – Weather report from Iceland með lýsandi titlum eins og „Earthquake“ og „Water“.

Þetta allt rataði inn í hausinn minn þegar farið var yfir síðasta ár í tónlist og eitthvað áþekkt fór ábyggilega fram hjá mér.

Þess ber að geta að hryggjarstykkið í þessum efnum, þessari listiðkun, hefur undanfarin ár legið í ranni kvenna. Þóranna Björnsdóttir hefur t.d. verið mikilvirk í þessum geira, nýtur alþjóðlegrar virðingar og vinnur tónlist/hljóðlist ein og í samstarfi við aðra þvert á mæri listgreina (sjá umfjöllun mína á arnareggert.is og þar er reyndar að finna texta um flestalla þá sem hér eru nefndir). Hafdís Bjarnadóttir hefur unnið með náttúruhljóð í sínum verkum (sjá t.d. hið volduga Sounds of Iceland, 2015), líkt og Halla Steinunn Stefánsdóttir (sjá mynd) og fleiri og fleiri og fleiri.

Í vikunni poppaði svo Þorsteinn Eyfjörð tónlistarmaður upp í Messenger-skjóðunni minni til að segja mér frá plötu sem hann var að hlaða upp á Bandcamp og er af þessum toga. Þorsteinn hefur m.a. unnið með Magnúsi nokkrum Bergssyni sem hefur verið að hljóðrita „landið“ í tæplega hálfa öld (fieldrecording.net/). Ég ætla þá að hlífa ykkur við þeim tugum ábendinga sem mér bárust á Snjáldrunni.

Svo ég komi aftur að tildrögunum. Ég hjó sérstaklega eftir þessum nefndu plötum á síðasta ári og langaði til að sjá hvort þetta væri í sérstakri tísku nú um stundir en dreg þá ályktun að svo sé ekki. Vissulega er ekkert af þessu listafólki svamlandi um í meginstraumnum og þessi beina, meðvitaða notkun á „ó“-tónlist í bland við melódíur fellur oftast undir hina listrænu hlið tónlistarsköpunar. Á sama tíma er þetta þó alls staðar, frá þotuhreyflinum í „Back in the U.S.S.R.“ til fuglagargs í Laddalögum.

Ég fer ekki dýpra í bili. Greinasafnið mitt heitir „Tónlist er tónlist“ en stundum er tónlist ekki tónlist.