Volodymyr Mazur segir margt líkt með Úkraínumönnum og Íslendingum.
Volodymyr Mazur segir margt líkt með Úkraínumönnum og Íslendingum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Tilfinningin er þrískipt. Í fyrsta lagi reiði. Í öðru lagi heiður. Og í þriðja lagi ótti.

Stór og stæðilegur maður tekur á móti mér. Handabandið er þétt. „Sæll vertu, Valdimar,“ segir hann og brosir kumpánlega. Það er sannarlega íslenska útgáfan af nafninu hans, Volodymyr. Hann hefur unað hag sínum vel á Íslandi og ber þjóðinni vel söguna. Íslendingar og Úkraínumenn séu um margt líkir að upplagi.

Volodymyr er frá borginni Zjytómýr, sem er um 100 km frá Kænugarði. Hann er kvæntur og á tvær ungar dætur, átta og tveggja ára. Það varð ungu fjölskyldunni að vonum mikið áfall þegar Rússar réðust inn í Úkraínu en eins og svo margir aðrir vonuðust þau til þess að stríðið yrði stutt. Í fyrstu íhuguðu þau ekki að yfirgefa landið en þegar skóli í borginni var sprengdur í loft upp strax í mars 2022 breyttist það viðhorf. „Fjölskyldan kemur fyrst og á því augnabliki vissi ég að ég yrði að koma konu minni og dætrum burt. Ég á vin sem hefur búið á Íslandi í sjö eða átta ár og þess vegna lá beinast við að senda þær hingað, í gegnum Pólland. Ferðalagið var hræðilega erfitt en yngri dóttir mín var ekki nema fimm mánaða á þessum tíma.“

Ólýsanleg tilfinning

Sjálfur varð Volodymyr eftir í Zjytómýr, þar sem hann starfaði sem yfirmaður hjá vegagerð borgarinnar. Hann vildi bíða aðeins og sjá hvernig stríðið kæmi til með að þróast. Mæðgurnar bjuggu fyrst um sinn hjá vini þeirra og fjölskyldu hans en fengu svo eigin íbúð í Garðabæ. „Við töluðum daglega saman í síma og á netinu en það er auðvitað ekki eins og að vera á staðnum,“ segir Volodymyr en mæðgurnar höfðu að vonum áhyggjur af honum enda þótt þær sjálfar væru komnar í öruggt skjól.

Sumarið 2022 kom hann síðan í stutta heimsókn til Íslands. „Það var ólýsanleg tilfinning að hitta þær á ný og sjá hversu vel fór um þær í þessu nýja, friðsæla og umfram allt örugga landi. Það voru gríðarleg viðbrigði að koma hingað úr allri spennunni heima. Okkur hafði aldrei dreymt um að eignast nýtt líf í öðru landi en neyðin kennir naktri konu að spinna og allt það.“

Þetta varð til þess að Volodymyr fór að skoða möguleikana á því að flytja sjálfur til Íslands, til að vera með fjölskyldu sinni. „Þarna var farið að blasa við að stríðinu myndi ekki ljúka í bráð og ég ákvað að flytja til Íslands í eitt ár og meta stöðuna að nýju eftir það. Mér fannst börnin mín verða að eiga möguleika á eðlilegu lífi.“

Hingað kom hann í nóvember 2022 og fékk fljótt vinnu í fiski en síðan hjá Kraftvélum í Kópavogi sem hann segir frábært fyrirtæki og að vel hafi verið tekið á móti sér.

Allir dagar á Íslandi byrja eins; Volodymyr les nýjustu fréttir af stríðinu, auk þess að hringja í vini og ættingja. Hugurinn er alfarið heima. „Okkur hefur liðið ákaflega vel á Íslandi en þegar ég var búinn að vera hér í ár, í nóvember síðastliðnum, tók ég ákvörðun um að snúa aftur heim, ganga í herinn og freista þess þannig að leggja mitt af mörkum. Ég þarf að vera kominn til Zjytómýr í síðasta lagi 7. apríl.“

– Við erum ekki að tala um herkvaðningu. Þetta er þitt val?

„Já, þetta er mitt val. Það er alltaf erfitt þegar stríð dregst á langinn og er frá líður verður sífellt erfiðara að manna hersveitirnar. Ég er ungur, 35 ára, og við góða heilsu og mér rennur hreinlega blóðið til skyldunnar. Mér þykir vænt um landið mitt og er stoltur af því að vera Úkraínumaður. Og nú þarf Úkraína á mér að halda. Ég verð að vera ærlegur við sjálfan mig. Gerði ég allt sem ég gat gert eða horfði ég bara á?“

– Hvað finnst konunni þinni um þessa ákvörðun?

„Hún er hrædd en skilur og styður þessa ákvörðun mína. Við veljum ekki tímana sem við fæðumst og lifum á.“

Eiginkona hans og dæturnar fara með honum heim. „Ætluðum við að dveljast áfram á Íslandi, þá yrðum við að þurrka út allt okkar minni. Gleyma öllu. Það verður gott að koma heim. Pabbi dó fyrir þremur árum og mamma er ein í Zjytómýr. Eins tengdamóðir mín. Tengdafaðir minn er í hernum. Þetta er okkar nánasta fólk.“

Fjölskyldan snýr heim í gömlu íbúðina sína og Volodymyr viðurkennir að því fylgi ákveðin áhætta; sérstaklega stafi hætta af eldflauga- og drónaárásum.

– Hvernig tilfinning er það að vera á leiðinni í stríð?

„Tilfinningin er þrískipt. Í fyrsta lagi reiði. Í öðru lagi heiður. Og í þriðja lagi ótti.“

Volodymyr hlaut grunnþjálfun í hernum meðan hann var í háskóla sem var valkvætt, þannig að hann kemur ekki alveg kaldur að málum. Fyrstu mánuðirnir fara þó í markvissa þjálfun áður en hann fær að vita hvert hlutverk hans verður í stríðinu. Sjálfur hefur hann ekkert um það að segja, liðþjálfarnir taka þá ákvörðun að undangengnu mati á getu og hæfileikum hvers og eins. „Á þessum tímapunkti hef ég ekki hugmynd um hvað bíður mín.“

Vinur minn lifir

– Hvað verður þú lengi í hernum?

„Í þrjú ár – ef ég lifi.“

Hann á vini í hinum ýmsu hlutverkum í hernum. Einn þeirra hefur verið í varnarliðinu í grennd Zjytómýr og segir það eins og öruggt og það geti orðið í stríði. Svo á hann annan vin sem átti aðild að 500 manna sveit sem lenti í hörðum bardögum og aðeins 50 sneru heilir heim. 450 manns ýmist týndu lífi, slösuðust eða er saknað. „Vinur minn lifir en enginn veit hvað gerist á morgun. Í hernum ræður maður sér ekki sjálfur.“

Volodymyr hefur ekki hugmynd um, frekar en aðrir, hversu lengi stríðið kemur til með að standa. Hann bendir á, að við ofurefli sé að etja; Rússar séu mun fleiri en Úkraínumenn og sjóðir ríkisins mun digrari. „Á þessum tímapunkti er áætlað að við getum safnað um þremur milljónum manna til að verjast og berjast. Þá er allt meðtalið, gamlir hermenn og óbreyttir borgarar. Ætli sambærileg tala hjá Rússum sé ekki 20 milljónir manna. Þess vegna skipti utanaðkomandi stuðningur sköpum. „Ef við leggjum niður vopn og hættum að berjast við Rússana þá fer fyrir okkur eins og gyðingunum í seinni heimsstyrjöldinni. Við þekkjum Rússa, hugarfar þeirra og grimmd, enda er þetta ekki í fyrsta sinn sem þeir ráðast á okkur. Sagan skelfir. Þeir eira engu og þess vegna verðum við að halda áfram að berjast fyrir frelsi okkar. Rússar munu heldur ekki nema staðar í Úkraínu. Úkraína er varnarhlið Evrópu og sigri þeir okkur munu þeir halda áfram og leggja undir sig gömlu Sovétlýðveldin, eitt af öðru. Þau stríð verða öll styttri. Þetta dylst engum. Eftir mun standa stærra, sterkara og fjölmennara Rússland. Viljum við það? Rússar eru snillingar í að sækja bjargir til annarra landa, þótt þeir eigi nóg til sjálfir.“

Verri en Hitler

– Þú nefnir Helförina í þessu sambandi. Ertu að segja að Pútín sé eins slæmur og Hitler?

Nú hugsar Volodymyr sig um stutta stund en svarar svo:

„Hann er jafnvel verri. Pútín hugsar meira eins og Ívan grimmi [Rússakeisari, sem var upp á 16. öld] og hans nótar en einræðisherrar 20. aldarinnar.“

Og ekki er bara við Pútín að etja. „Rússneska þjóðin stendur með honum, upp til hópa. Hún er ánægð með þetta stríð. Það búa 200 þúsund Rússar í Þýskalandi. Hefur þú orðið var við mótmæli þar? Rússar hugsa allir eins, það er bara stigsmunur á þeim, ekki eðlismunur. Hefði Navalní náð að velta Pútín úr sessi þá hefði hann líka orðið keisari; bara mildari keisari. Þetta er svo djúpt í blóðinu, eðlinu.“

Hann segir veröldina vera að breytast og því fyrr sem þjóðir átti sig á því, þeim mun betra. „Sjáðu bara Pólverja. Þeir skilja þetta og hafa verið að styrkja sig og vígbúast til að vera við öllu búnir. Í dag eiga þeir meira undir sér en Frakkar og Bretar, jafnvel Þjóðverjar. Pólverjar muna eftir fyrri og seinni heimsstyrjöldinni. Það getur verið lífshættulegt að sofa á verðinum.“

– Hvernig sérðu framtíðina?

„Enginn veit hvað verður. En það verður erfitt, alla vega næstu ár og misseri. En ég trúi á sigur Úkraínu í þessu stríði og langar að taka þátt í honum. Við munum berjast til síðasta manns.“

Handabandið er enn þéttara þegar við kveðjumst en þegar við heilsuðumst – enda ekki á hverjum degi sem viðmælandi manns er á leið í stríð.