Sveinn Guðberg Sveinsson fæddist á Tjörn á Skaga 10. ágúst 1932. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi 10. febrúar 2024.

Sveinn var sonur hjónanna Sveins Mikaels Sveinssonar, f. 29.9. 1890, og Guðbjargar Rannveigar Kristmundsdóttur, f. 2.10. 1897. Sveinn og Guðbjörg hófu búskap sinn í Kelduvík á Skaga árið 1915 og bjuggu þar uns þau fluttu að Tjörn árið 1923.

Sveinn var yngsta barn foreldra sinna. Systkini hans eru öll látin. Þau voru: María, f. 15.2. 1916, Þorgeir Mikael, f. 7.9. 1917, Guðbjörg, f. 25.6. 1919, Sigrún Ingibjörg, f. 10.7. 1920, Guðrún, f. 29.3. 1923, Sigurlaug Ásgerður, f. 10.9. 1924, Pétur Mikael, f. 27.6. 1927, óskírður drengur, f. 26.5. 1929, og Steinn Mikael, f. 3.10. 1930.

Þann 26. nóvember árið 1959 kvæntist Sveinn Maríu Kristjánsdóttur, f. 3.4. 1937, d. 27.6. 2017, frá Steinnýjarstöðum. Foreldrar hennar voru Kristján Guðmundsson, f. 12.7. 1896, og Guðríður Jónasdóttir, f. 3.8. 1908. Synir Sveins og Maríu eru: 1) Kristján, f. 21.4. 1960, kvæntur Önnu Þórðardóttur, f. 21.9. 1960. Börn þeirra eru: a) María, f. 22.2. 1984, gift Diyor Djumaev, f. 22.10. 1983. Þeirra börn eru: Elíor, f. 16.9. 2010, Leó, f. 8.8. 2013, og Íris, f. 17.3. 2022. b) Eyvindur, f. 28.5. 1986, maki Jóhanna Bryndís, f. 15.4. 1990. 2) Sveinn Mikael, f. 21.3. 1964, kvæntur Björk Guðbrandsdóttur, f. 11.8. 1964. Börn þeirra eru: a) Katrín Sigurbjörg, f. 13.1. 1984, b) Sigrún Tinna, f. 27.2. 1987, c) Sveinn Guðberg, f. 18.5. 1990, maki Agnes Erlingsdóttir, f. 17.6. 1990. Þeirra börn eru: Lára Björk, f. 10.7. 2021 og Sveinn Mikael, f. 21.8. 2023. 3) Vignir Ásmundur Sveinsson, f. 18.8. 1966. Maki hans er Helga B. Ingimarsdóttir f. 5.7. 1966. Börn þeirra eru: a) Skafti, f. 23.5. 1989, maki Lisa Inga Hälterlein, f. 10.5. 1988. Þeirra börn eru: Ingimar Emil, f. 30.3. 2017, Anton Þór, f. 18.9. 2018 og Eyrún Alma, f. 2.8. 2021. b) Ingimar, f. 14.2. 1991, maki Jenný Lind Sigurjónsdóttir, f. 28.7. 1985. Dóttir þeirra er Guðrún Freyja, f. 15.11. 2021. Með Maríu Petru Björnsdóttur, f. 25.9. 1991, á Ingimar Björn Helga, f. 8.3. 2011. c) Alma Dröfn, f. 2.8. 1995, maki Sæþór Bragi Ágústsson, f. 12.7. 1995. Þeirra börn eru: Glódís María, f. 23.8. 2020, og Óðinn Mikael, f. 12.5. 2022. Með Þuríði Helgu Guðbrandsdóttur, f. 10.10. 1970, á Vignir Söndru Dögg, f. 10.4. 1988. Börn hennar og Ragnars Daða Jóhannssonar, f. 30.4. 1984 eru: Unnar Nói, f. 28.6. 2009, og Eva Rebekka, f. 15.8. 2012. 4) Baldvin, f. 20.12. 1969, maki Bjarney Ragnhildur Jónsdóttir, f. 15.11. 1968. Börn þeirra eru: a) Kristmundur Elías, f. 21.3. 2002, b) Jón Árni, f. 10.9. 2004, og c) Sólveig Erla, f. 13.5. 2006.

Sveinn var bóndi á Tjörn á Skaga og þar var heimili hans ávallt.

Útför hans fer fram frá Hólaneskirkju á Skagaströnd í dag, 24. febrúar 2024, og hefst athöfnin kl. 14.

Stytt slóð á streymi:

https://www.mbl.is/go/35vzv

Faðir minn var yngstur í röð 10 systkina. Þegar hann kom í heiminn voru aðeins rétt um fjórir mánuðir frá því að faðir hans andaðist, 42 ára gamall, í gamla bænum á Tjörn sem fjölskyldan hafði flutt í tæpum áratug áður. Hann hlaut nöfn foreldra sinna í skírninni. Á fullorðinsárum þekktu hann margir sem Svein á Tjörn.

Það var efnahagskreppa og skuldir íþyngdu búskapnum en Guðbjörgu á Tjörn tókst að halda jörðinni. Og börnum sínum og heimili. Steinn á Hrauni, bróðir Sveins, lagði Tjarnarfólki lið í örðugleikunum og Baldvin Jóhannesson, gamall og góður vinur þeirra hjóna, kom einnig til liðs við fjölskylduna. Hann var á Tjörn í áratug meðan yngstu börnin voru að komast á legg. Yngsti sonur Sveins ber nafn þessa mæta manns.

Sveinn á Tjörn var þannig gerður maður að því sem hann tók sér fyrir hendur sinnti hann af einstakri elju og dugnaði. Hann gat verið skorpumaður til verka og sparaði sig þá ekki og þegar hann var á yngri árum gat gengið talsvert á því þá voru kraftarnir nógir. Minnisstæðari er hann þó fyrir úthaldið og einurðina. Það var ekki hans háttur að hvarfla frá settu marki. Hann hélt áfram og það var svo að segja sama á hverju gekk, hann lét sig ekki fyrr en hann hafði komið því í kring sem hann stefndi að. Það var í honum bæði hugur og dugur. Búskapurinn á Tjörn var ævistarf hans frá unga aldri. Þar fylgdi hann gangi árstíðanna og lífsins frá upphafi til enda.

Sveinn á Tjörn gaf sig talsvert að félagsmálum. Hann var lengi oddviti sinnar sveitar og sýslunefndarmaður. Þessi störf kröfðust oft mikillar vinnu og fjarvista frá búinu. Sveitungar Sveins kunnu yfirleitt vel að meta þetta framlag hans í þágu samfélagsins. Eitt sinn fékk hann öll greidd atkvæði í hreppsnefndarkosningu. Rússneska kosningu.

Hann var sjálfstæður í hugsun, sjálfmenntaður og óvenjulega talnaglöggur. Það kom sér vel þegar að því kom að gera reikninga sveitarfélagsins og við ýmislegt annað bókhaldsstúss. Hann eignaðist tengdadóttur með sérþekkingu á talnaspeki bókhalds og fjármála og stundum bar hann sitt hvað af þessu tagi undir hana. Það var jafnan lítið við hans verk að athuga og þau reyndust í langtum réttari skorðum en hjá mörgum sem höfðu mæðst við að læra þessi fræði lengi og kannski vel. „Hvernig stendur á því að það stemmir svona vel hjá Sveini gamla“ var spurt. „Það er vegna þess að hann gerir þetta allt rétt“ var svarið. Það getur víst oft átt við að þá er enginn vandi á höndum ef maður gerir allt rétt. Honum tókst það gjarnan.

Hann gekk aldeilis ekki einn æviveginn. María hans var hans hálfa líf og eftir að hún lést í júní 2017 varð tilvera hans aldrei söm. Hann hélt reisn sinni þótt ellin mæddi hann svo að hann varð að lokum að yfirgefa Tjörn, það eina heimili sem hann átti um dagana. Það ákvað hann sjálfur og æðraðist ekki. Í hinni háu elli var hann samur við sig í andanum en gamli þrekskrokkurinn var orðinn ærið hrumur og þegar hann lést á HNS á Blönduósi, þar sem hann dvaldi síðasta árið, var hann ferðbúinn.

Kristján Sveinsson.

Látinn er móðurbróðir okkar Sveinn Guðbergur Sveinsson á Tjörn. Hann var fæddur og uppalinn á Tjörn á Skaga þar sem brimið lúskrar á skaganum utan en hjalar þó líka við fjörustein. Yst er hið stórbrotna landslag útskagans, sem má ímynda sér að teljist til tunglsins, en innar heiðin í öllum sínum fjölbreytileika hvaðan Gunnar frá Bergskála á sögu bæði og minningar „um mosarinda við stararflá með vötnum og tærum tjörnum“. Náttúran mótaði bóndann og fólk hans, allt í kring stóðu kynslóðirnar föstum fótum og miðluðu reynslu sinni og enginn bifaðist þótt oft blési í þessum veðrarassi og vindhæli eins og Sveinn komst sjálfur að orði.

„Mörg er nú matarholan á Skaga,“ sagði Gunna frænka jafnan þegar henni fannst hallað á heimaslóðirnar og um of dregið fram hrjóstur þeirra. Hún hafði sannarlega rétt fyrir sér og minnumst við þá veiðiskapar í Skagaheiðinni. Að vitja um net í Laxárvatni og kannski fleiri vötnum tilheyrði almennri iðju á Tjörn þegar maður var barn hjá ömmu. Síðar meir urðu veiðarnar að áhugamáli sem hægt var að rækta hjá Sveini frænda, þá kannski frammi í Langavatni. Og Skagaheiðin mætti okkur bæði með Spánarveðri og norðan rigningarhvassviðriséljum sem ef til vill voru henni eiginlegri. Engu er gleymt.

Með fráfalli Sveins er síðasta systkinið frá Tjörn horfið okkur sjónum, síðasti þráðurinn slitinn og nú reynir á okkur sem eftir lifum að láta ekki vefinn rakna upp heldur muna og flytja sögu og þekkingu kynslóðanna áfram. Sveinn var yngstur í þessum stóra systkinahópi og varð bóndi á Tjörn ásamt Pétri bróður sínum. Sumarheimsóknir til ömmu á Tjörn tilheyrðu ævintýrum bernskunnar og þeim ævintýrum tilheyrðu þeir bræður. Óvenju sterk bönd tengdu saman þennan barnahóp á Tjörn sem ólst upp í skugga kreppu, heimsstyrjaldar og föðurleysis eftir árið 1932, þessi bönd héldust alla þeirra ævi.

Sveinn var hávaxinn, mikill á velli og sópaði að honum hvar sem hann fór. Hann var glaður í lund alla jafna, höfðingi heim að sækja enda fróður og skemmtilegur sagnamaður eins og loðir við það Skagafólk. Traustur maður, enda gegndi hann mörgum trúnaðarstörfum fyrir sveit sína. Honum varð heldur aldrei orðfátt, var málsnjall og lá hátt rómur í takt við þann Skagaróm sem við köllum svo og sum okkar hafa fengið að erfðum. Við teljum rómstyrkinn tilkominn vegna brimgnýs og veðrahams á Skaga sem þurfti að yfirgnæfa. Víst er, að sé líf eftir þetta líf má spá fyrir að mikill hávaði og glaumur verði þegar Sveinn bætist í hóp systkinanna sem farin eru. Það má jafnvel hugsa sér að hljóðmælingamaður Sankti-Péturs klappi á dyr og sýni alltof mörg desibel á mæli sínum og biðji öðrum gestum griða.

Sveinn frændi okkar hafði sterka nærveru og við systkinin drógumst heim að Tjörn. Móðir okkar sagði alltaf heim að Tjörn og við þá náttúrlega líka. Við sjáum öll eftir honum en nú er hann vonandi komin til Maríu sinnar sem hann harmaði svo mjög.

Sonum hans og fjölskyldum þeirra sendum við samúðarkveðjur.

Fyrir hönd systkinanna frá Lundi,

Anna Dóra Antonsdóttir.

Ég kynntist honum Sveini vini mínum fyrir líklega um 15 árum. Við sátum saman næturvaktir yfir sauðburði á Höfnum á Skaga og þó að hann hafi verið orðinn lélegur í skrokknum virkaði heilinn betur en í flestum sem ég hef kynnst. Við vorum frábært sauðburðarpar. Hann sagði mér hvernig ég ætti að bera mig að og ég framkvæmdi. Við lentum auðvitað nokkrum sinnum í vandræðum en þá var bara brunað á bæ og hjálpin sótt. Hvert árið sem leið urðum við betri, þ.e.a.s. ég stóð mig betur, og oft liðu heilu næturnar án þess að við þyrftum að gera rúmrusk heima á bæ. Þá vorum við góð með okkur og markmiði náð.

Sveinn, sem var tveggja metra maður á hæð en kominn með krankleika í hendur og fætur, var bestur í að koma til lömbum sem fæddust fyrir tímann eða vildu illa nærast. Hann hafði alveg ótrúlegt lag á að stilla sig af með lambið undir annarri hendinni og svo með mildi og rólegheitum náði hann að koma smá mjólk í litla kroppa með hinni. Það var alltaf eins og hann væri með minnisbók í vasanum, hann mundi hver staðan var á hverju einasta lambi og hverri einustu kind – það var magnað að verða vitni að þessu. Þegar hann treysti sér ekki í sauðburð síðasta vor þá var ég með öll frávik og krankleika skrifaða í símann til að gefa Helgu og Vigni skýrslu eftir nóttina.

Eftir sauðburðinn í fyrra heimsótti ég Svein á hjúkrunarheimilið á Blönduósi. Ég heyrði að það var einhver að hlusta á útvarpsþátt eftir Illuga Jökulsson á hæsta styrk á ganginum hans og ég vissi strax að þetta var herbergið hans Sveins. Hann var búinn að bíða eftir fréttum af sauðburðinum og ég las allt sem ég hafði skrifað í símann. Allar fæðingarnar, bæði þær eðlilegu og þessar sem gengu ekki of vel – og hvað fæddust margar hverja nótt. Svo skoðuðum við myndir af þeim sem þóttu óvenjulega litasamsettar, þær voru kannski ekki margar en þeim mun áhugaverðari.

Sveinn hafði verið bóndi alla sína ævi en samt setti hann hljóðan ef við misstum lamb eða einhver mistök voru gerð, og ég fann hvað hann varð leiður, honum þótti svo ógnarvænt um hvert líf. Ég fann líka þegar ég hitti hann síðast að ég væri komin með sæmilegt traust til að standa sauðburðarvaktina án hans. Það er ekki lítið traust í mínum huga og ég er þakklát fyrir endalausa þolinmæði og tilsögn, en ég hefði nú samt fremur kosið að við hefðum fengið fleiri sauðburðarvaktir saman. Það er tómlegt án þín í fjárhúsunum, elsku Sveinn minn, og ég er langt frá því að vera fullnuma.

Í kaffipásunum á nóttunni fékk ég að heyra sögur af tímunum í sveitinni í gamla daga. Sveinn hafði upplifað margt og stundum var eins og ég væri stödd í tímavél. Í hvert sinn sem ég keyrði suður eftir yfirsetutímabilið hugsaði ég til þess hvað það væri nú áhugavert að skrifa söguna hans Sveins og fólksins í sveitinni, þetta voru og eru mínar uppáhaldssögur.

Takk, elsku Sveinn minn, fyrir alla kennsluna, sögurnar, kvæðin, stökurnar, þolinmæðina, veiðikennsluna og vináttuna sem ég mun ætíð minnast með þakklæti, gleði og söknuði.

Ég sendi fólkinu hans Sveins innilegar samúðarkveðjur.

Elín G. Ragnarsdóttir.