Kjötborg Bræðurnir Gunnar Halldór og Kristján Aðalbjörn bíða enn svara.
Kjötborg Bræðurnir Gunnar Halldór og Kristján Aðalbjörn bíða enn svara. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Það hefur ekkert gerst frá því ég talaði við Dag 26. október. Maður verður áfram að passa sig á þessum stöðumælavörðum svo maður verði ekki féflettur,“ segir Gunnar Halldór Jónasson, kaupmaður í versluninni Kjötborg við Ásvallagötu í Reykjavík

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Það hefur ekkert gerst frá því ég talaði við Dag 26. október. Maður verður áfram að passa sig á þessum stöðumælavörðum svo maður verði ekki féflettur,“ segir Gunnar Halldór Jónasson, kaupmaður í versluninni Kjötborg við Ásvallagötu í Reykjavík.

Morgunblaðið fjallaði síðla árs í fyrra um óánægju bræðranna í Kjötborg og fleiri í þeirra stöðu með það þegar bílastæðagjöld voru hækkuð og gjaldsvæði stækkað miðsvæðis í Reykjavík. Kaupmennirnir telja ótækt að þurfa að greiða fullt gjald til að geta sinnt viðskiptavinum sínum. Þeir eiga húsnæðið sem Kjötborg er í en fá ekki bílastæðakort líkt og íbúar á svæðinu fá. Þar með þurfa þeir að greiða háar upphæðir í stöðumæla fyrir bíla sem notaðir eru til að sendast með vörur til og frá versluninni. Margir viðskiptavinir Kjötborgar eru komnir af léttasta skeiði og reiða sig á þjónustu þeirra bræðra. Í kjölfar umræðu um þessa óánægju bauð Dagur B. Eggertsson þáverandi borgarstjóri Gunnari í kaffi og kvaðst að sögn Gunnars ætla að skoða málið. Fjórir mánuðir eru liðnir og ekkert hefur gerst. Gunnar hefur ekkert heyrt frá nýjum borgarstjóra, Einari Þorsteinssyni.

Algjört uppnám

„Ég ræddi við Kjartan Magnússon borgarfulltrúa og hann ætlaði að tala við Einar. Ég bind nú vonir við að eitthvað komi út úr því. Maður er að gæla við að nýi borgarstjórinn sé kröftugri en sá fyrri þótt ég geti ekki alveg séð það strax,“ segir Gunnar. Hann segir bílastæðamálin í algjöru uppnámi hjá borginni eins og hafi sannað sig af nýlegum dæmum þar sem fólk er sektað fyrir að leggja á eigin lóðum. „Það er ekki glóra í þessu.“