Vilhjálmur Jón Þorsteinsson Snædal fæddist á Skjöldólfsstöðum 31. október 1945. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Fossahlíð á Seyðisfirði 6. febrúar 2024.

Foreldrar Vilhjálms voru Þorsteinn Vilhjálmsson Snædal, f. 8.8. 1914, d. 28.12. 1998 og Elín Margrét Þorkelsdóttir, f. 4.11. 1909, d. 4.5. 2003.

Alsystkini Vilhjálms eru Elín, f. 8.11. 1946, d. 2.9. 2013, Anna Sigríður, f. 9.9. 1948, Þorkell, f. 15.1. 1950, d. 21.6. 2007 og Þorsteinn, f. 11.2. 1953, d. 7.4. 2019. Sammæðra systur voru Bergþóra Sigríður Sölvadóttir, f. 28.9. 1932, d. 2.6. 2008 og Jóhanna Andrea Lúðvígsdóttir, f. 10.9. 1934, d. 21.1. 2015.

Vilhjálmur stundaði nám við Alþýðuskólann á Eiðum og lauk búfræðiprófi frá Hvanneyri 1965. Hann var bóndi á Skjöldólfsstöðum frá 1967 til 2019. 23. apríl 1970 kvæntist hann Ástu Sigurðardóttur, f. 3.6. 1945. Hún er dóttir Sigurðar Þorsteinssonar og Margrétar Stefánsdóttur, bænda í Teigaseli á Jökuldal. Börn Vilhjálms og Ástu eru:

1) Þorsteinn, f. 27.12. 1969. Kona hans er Margrét Arthúrsdóttir. Fyrri kona Þorsteins er Guðrún Ragna Einarsdóttir og með henni á hann fjögur börn; Vilhjálm Pálma, Ástu Lilju, Aron Víði og Steinar Smára, og tvö barnabörn.

2) Ingunn Kristjana, f. 10.8. 1971. Sambýlismaður hennar er Stefán Þór Sigurjónsson. Fyrri maður Ingunnar er John Boyce og með honum á hún eina dóttur, Láru. Fyrri kona Ingunnar er Eydís Hörn Hermannsdóttir og með henni á hún einn son, Jökul.

3) Steinunn, f. 19.8. 1972. Maður hennar er Lárus Brynjar Dvalinsson og þau eiga fjögur börn; Fríðu Pálmars, Dvalin, Pálmar og Auðun.

4) Margrét Urður, f. 5.8. 1981. Maður hennar er Ragnar Elías Ólafsson og þau eiga tvö börn, Árvöku Elínu og Úlftý Braga.

Sonur Ástu er Haukur Arnar Árnason, f. 4.4. 1966.

Vilhjálmur var alla tíð virkur félagi í Sjálfstæðisflokknum og sat í ýmsum nefndum og ráðum á þeim vettvangi. Hann tók mikinn þátt í ýmsum félagsstörfum á Jökuldalnum og vann mikið sjálfboðastarf, meðal annars við nýbyggingu skólans á Skjöldólfsstöðum. Hann var meðlimur í Veiðifélagi Jökulsár á Dal og lét að sér kveða þar. Hann starfaði einnig sem landpóstur á Jökuldal um margra áratuga skeið.

Kveðjuathöfn Vilhjálms er haldin í Valaskjálf á Egilsstöðum í dag, 24. febrúar 2024, kl. 13.

Elsku pabbi.

Nú er komið að þeirri kveðjustund sem ég hef kviðið svo fyrir. Undanfarna daga hefur hugurinn verið eins og þeytispjald, minningarnar flykkjast að á ógnarhraða.

Ég sé þig leggja silunganet í Matbrunnavatnið á meðan ég reyni að stýra gúmmíbátnum og þú segir „lengra inn eftir, lengra inn eftir“ og ég veit ekkert hvert inn eftir er … ég sé okkur gera að aflanum í skemmunni … ég sé okkur sitja þar og reyta rjúpur fyrir jólin, ég var alltaf að keppast við að vera jafn snögg og vandvirk og þú … sé þig undir stýri á öllum þínum mörgu bílum og með símann við eyrað … ég sé þig dansa við mömmu á þorrablótum … sé þig liggja í sófanum og horfa á fréttirnar … sé þig uppi í heiði að kíkja eftir fé, hestunum þínum, hreindýrum … sé okkur spila manna, kasínu, félagsvist og spurningaspil með kaffi og konfekt á hliðarlínunni … ég sé okkur sitja við eldhúsborðið að smakka eitthvað ógurlega sterkt upp úr krukku sem þú keyptir af því að þú varðst alltaf að prófa allt sem var nýtt og spennandi.

Þú kenndir mér að standa með sjálfri mér, vera sjálfri mér samkvæm og að peningar geti ekki orðið til úr engu. Svo kenndirðu mér afskaplega heilbrigt og gagnrýnið viðhorf gagnvart lögum og reglum, sem eru mannanna verk og ófullkomin sem slík. Þú kenndir mér ógrynni af vísum, sem margar eru óprenthæfar, og varst endalaus uppspretta fróðleiks í landafræði og íslensku. Við deildum um merkingu orða, uppruna þeirra og beygingar, og ósjaldan þurfti að virkja allar orðabækur heimilisins og jafnvel hringja í vin. Við deildum líka um pólitík alla mína fullorðinsævi, þú vonaðist til að ég sæi ljósið í þeim efnum en ég vissi að það var engin von fyrir þig. Kannski höfðum við bæði eitthvað til okkar máls, en það hefði hvorugt okkar nokkurn tíma viðurkennt. Þú hafðir afskaplega gaman af ferðalögum og að kynnast nýrri menningu, þótt alltaf fyndist þér Jökuldalurinn bestur.

Þú varst hjartahlýr og stríðinn, stjórnsamur en skemmtilegur, afskaplega góður og hroðalega erfiður. Bóngóður með afbrigðum, þú gerðir bókstaflega allt fyrir alla, og skoraðist aldrei undan ábyrgð á því sem til þín heyrði. Ég mun sakna þín, hugsa um þig, tala um þig og minnast þín alltaf. Takk fyrir allt, elsku besti pabbi minn, farðu í friði.

Ingunn Snædal.