„Við sáum þetta sem tímabundið ástand, alla vega til að byrja með. En því lengur sem stríðið stendur og landið okkar laskast meira, þeim mun flóknara verður málið,“ segir Tetiana Korolenko.
„Við sáum þetta sem tímabundið ástand, alla vega til að byrja með. En því lengur sem stríðið stendur og landið okkar laskast meira, þeim mun flóknara verður málið,“ segir Tetiana Korolenko. — Morgunblaðið/Eyþór
En á sama tíma var merkilegt að sjá að fólk var staðráðið í að láta þetta ekki eyðileggja jólaandann, jólin skyldu haldin með hátíðarbrag og frið í hjarta. Lífið verður að halda áfram.

Fljótlega eftir að rússneski herinn réðst inn í Úkraínu fyrir tveimur árum fór Tetiana Korolenko að hugsa sér til hreyfings; Kænugarður væri ekki lengur öruggur staður að búa á. Fyrst flúði hún til Belgíu en það gekk ekki upp, þannig að hún sneri aftur heim. Í maí 2022 pantaði hún sér síðan flug til Íslands – aðra leiðina.

„Það var skyndiákvörðun. Mig hafði lengi langað að koma til Íslands sem túristi og skoða þessa stórbrotnu náttúru, hvalina, lundana og allt það. Þó að landið sé ekki á meginlandi Evrópu er það ekki svo langt í burtu frá Úkraínu, þannig að ferðalagið var ekki yfirþyrmandi. Ég vissi samt mjög lítið um Ísland, var ein á ferð, þannig að óvissan var mikil. En ég var alls ekki ein um að leika af fingrum fram á þessum tíma,“ segir hún.

Tetiana er ógift og barnlaus en foreldrar hennar, systir og fjölskylda hennar búa enn í Kænugarði. Áður en hún flúði rak Tetiana lítið frumkvöðlafyrirtæki á sviði menntunar og afþreyingar.

Hún segir vel hafa verið tekið á móti sér á Íslandi. Hún gaf sig fram á landamærunum og kvaðst vera að flýja stríðið heima fyrir. „Lögreglan kom og talaði við mig og fór yfir alla pappíra. Eftir það var farið með mig á hótel í Keflavík og þaðan í móttökustöðina í Domus Medica, ásamt fimm öðrum flóttamönnum frá Úkraínu.“

Tetiönu stóð til boða að fara á Bifröst en hún kaus frekar að vera um kyrrt í Reykjavík enda hafði hún strax sjálfboðahlutverki að gegna sem túlkur fyrir landa sína, þar sem hún talar ljómandi góða ensku. „Það var viss áhætta enda hefði verið fjárhagslega öruggara fyrir mig að fara á Bifröst en ég hugsaði bara: Þetta reddast,“ segir hún brosandi á íslensku. „Það gerðist einhver galdur og í september var ég komin með vinnu hjá Reykjavíkurborg. Ég var mjög dugleg að láta vita af mér, senda tölvupósta og annað, enda opnast engar dyr nema maður banki á þær.“

Starfstitill hennar er menningarmiðlari og hlutverkið að vinna með úkraínska samfélaginu á Íslandi að hinum ýmsu málum, svo sem túlkun, ráðgjöf og öllu því sem snýr að aðlögun fólks í nýju landi. Sum af þessum málum eru viðkvæm enda getur reynt á sálina að vera á flótta. Þá hefur Tetiana haft umsjón með því að skipuleggja viðburði enda mikilvægt fyrir Úkraínumenn að standa þétt saman á þessum erfiðu tímum.

Kerfið til fyrirmyndar

Að sögn Tetiönu hafa á bilinu þrjú til fjögur þúsund flóttamenn frá Úkraínu komið til Íslands síðan stríðið braust út en erfitt sé að slá á nákvæma tölu, þar sem sumir hafi farið aftur. Margt er ólíkt með Íslandi og Úkraínu en Tetiana er afar þakklát fyrir það hvernig tekið hefur verið á móti löndum hennar.

„Það er ekki sjálfgefið, jafnvel þó verið sé að flýja stríð. Það erum við sem komum hingað, en ekki Ísland til okkar, þannig að það stendur upp á okkur að aðlagast. Það gengur auðvitað misjafnlega, tungumálið getur til dæmis verið brekka, sérstaklega fyrir þau sem tala litla sem enga ensku. En kerfið hér er til fyrirmyndar og verkalýðsfélögin mun sterkari en við eigum að venjast heima, þannig að réttur okkar er ekki fyrir borð borinn.“

Prýðilega hefur gengið að koma fólki í vinnu en það er alla jafna láglaunavinna, svo sem við þrif eða í eldhúsi eða byggingarvinna, en það helgast að miklu leyti af tungumálaörðugleikum. Því betri tökum sem fólk nái á íslenskunni, segir Tetiana, þeim mun sterkar standi það að vígi.

Staða Úkraínumanna hér og annars staðar er flóknari en margra annarra innflytjenda fyrir þær sakir að þeir eru að flýja stríðsátök. Það þýðir að þeir fluttu ekki af fúsum og frjálsum vilja og hafa ábyggilega margir hverjir vilja til að snúa aftur heim – þegar það verður öruggt.

„Við sáum þetta sem tímabundið ástand, alla vega til að byrja með. En því lengur sem stríðið stendur og landið okkar laskast meira, þeim mun flóknara verður málið. Innviðir eru víða illa farnir og lífsskilyrðin ekki góð, þannig að sumir sjá það ekki sem fýsilegan kost að snúa aftur heim. Þótt það viðhorf kunni að breytast þegar friður kemst loksins á. Við þurfum að losna við Rússana úr landinu okkar áður en hægt er að plana framtíðina.“

– Og það verður væntanlega ekki í bráð?

„Það er ómögulegt að spá fyrir um lok þessa hræðilega stríðs. Ég hreinlega treysti mér ekki til að segja neitt um það.“

Sjálf hefur Tetiana farið í þrígang heim til Kænugarðs eftir að hún flutti til Íslands, nú síðast um jól og áramót. Og var fljótt minnt á stríðið og þá staðreynd að fólk þarf stöðugt að vera á varðbergi. „Ég var ekki búin að vera lengi heima þegar sprengja sprakk, um 400 metra frá heimili mínu. Ég stökk fram úr rúminu og hljóp fram á gang. Óttinn var mikill. Við horfðum bara hvert á annað, ég og hinir íbúarnir – tómum augum. Það týndu einhverjir lífinu og það var hræðilegt að keyra fram hjá rústunum og sjá björgunarsveitirnar grafa eftir fólki. En á sama tíma var merkilegt að sjá að fólk var staðráðið í að láta þetta ekki eyðileggja jólaandann, jólin skyldu haldin með hátíðarbrag og frið í hjarta. Lífið verður að halda áfram.“

– Annars vinna Rússarnir.

„Annars vinna Rússarnir.“

Eyðileggingin blasir víða við, svo sem í Bútsja og Irpín, í nágrenni Kænugarðs. Að ekki sé talað um borgir og bæi í austurhluta landsins. „Ég hef ekki komið þangað en þar er hver draugabærinn upp af öðrum. Það er skelfilegt hvað Rússarnir hafa gert.“

– Hvernig meturðu stöðuna í stríðinu núna?

„Ég er enginn sérfræðingur en mín tilfinning er sú að Rússar séu að ná yfirhöndinni. Okkur gekk vel seinni hluta 2022 og fyrri hluta 2023, þegar stuðningur umheimsins var mikill, en síðan hefur takið verið að losna. Auðvitað styðja margar þjóðir við bakið á okkur ennþá en því lengur sem stríðið dregst, þeim mun erfiðara verður að reiða sig á utanaðkomandi stuðning. Það er heldur ekki eins og að þetta sé eina stríðið í heiminum í dag. Fólk verður þreytt og forgangsröðin breytist. Núna líður manni meira eins og að um ríkjasamstarf sé að ræða, án aðkomu fólksins.“

Ekki óumdeildur

Tetiana kaus ekki Volodimír Selenskí á sínum tíma en segir hann á heildina litið hafa staðið sig vel í hlutverki leiðtoga á þessum hræðilegu tímum, einkum framan af þegar honum tókst að tryggja stuðning margra voldugra ríkja. „Við búum við lýðræði og forsetinn er auðvitað mikilvægur hlekkur í keðjunni.“

Selenskí sé þó fráleitt óumdeildur og sú ákvörðun hans að reka Valerí Salúsjní yfirhershöfðingja fyrr í mánuðinum hafi ekki mælst vel fyrir. „Ég held að það hafi verið rangt skref en Selenskí er forsetinn og hefur réttinn sín megin. Fólk er mikið að velta þessu fyrir sér núna og það á eftir að koma betur í ljós hverjar afleiðingarnar verða. Að því sögðu þá skynja ég ekki annað en að fólk beri enn almennt traust til Selenskís.“

Talið berst að Vladimír Pútín og það þyrmir strax yfir Tetiönu. „Hvað á ég að segja? Allir vita að við erum ekki að tala um forseta í lýðræðisríki, eins og hann Guðna ykkar eða Ursulu von der Leyen hjá Evrópusambandinu. Vald spillir og þegar menn hafa setið eins lengi í æðsta embætti ríkis, eins og Pútín, þá er alltaf hætta á því að þeir fari að trúa því að þeir séu Guð almáttugur. Í hans tilviki er miklu nær að tala um keisara eða einræðisherra en forseta. Öll lógík er löngu farin úr því sem Pútín segir og gerir, auk þess sem hann er tekinn að reskjast og virðist vera slétt sama um allt og alla. Það gerir hann hættulegan, stórhættulegan.“

Það myndi samt, að hennar mati, litlu breyta þótt Pútín hyrfi af sjónarsviðinu. „Það er ekki bara Pútín sem ræður Rússlandi, hann er með fleiri menn í kringum sig, og enginn þarf að segja mér annað en að hann sé þegar búinn að handvelja arftaka sinn og tryggja þannig að stefnu hans verði áfram framfylgt.“

Spurð um framtíðina segir Tetiana sér líða mjög vel á Íslandi og er ævinlega þakklát fyrir þau tækifæri sem hún hefur fengið hér, ekki síst starfið hjá borginni, þar sem hún finnur vel að það sem hún er að gera skiptir máli. „Ísland er mitt annað heimili og ég kann vel við bæði náttúruna og fólkið. Hér eru mannréttindi líka í hávegum höfð og spilling óveruleg. Af því getur Úkraína lært. Þau mál eru í þróun heima, þar sem spilling er óvinur númer eitt, meðan Ísland er í fararbroddi í heiminum. Hér finnst mér ég líka vera að hjálpa fólkinu mínu og það gefur mér mikið. Nú er hins vegar spurning hvort krafta minna sé frekar þörf heima í Úkraínu en hér. Ég er svolítið að velta því fyrir mér en hef enga ákvörðun tekið um hvort eða hvenær ég snúi heim. Ég hef lært heilmargt hérna og byggt upp góð sambönd. Kannski nýtist það mér áfram þegar kemur að því að byggja brú milli Íslands og Úkraínu?“