Sigríður Gísladóttir fæddist 28. júlí 1934 í Reykjavík. Hún lést 29. janúar 2024. Sigríður var jarðsett 23. febrúar 2024.

Í hjörtum okkar býr minningin um ömmu Siggu, umhyggjusömu og dásamlegu ömmu okkar. Hún fyllti heimilið af gleði, hlátri og framúrskarandi matargerð sem hafði hennar eigin brag. Amma dekraði ávallt við okkur með góðu bakkelsi og skemmtilegu barnaefni auk þess sem hún hjúkraði okkur af alúð þegar við vorum lasin. Þá var hún eiginleg dagmamma Jóhönnu og Páls frá 6-12 mánaða aldri. Hreinlæti var henni mikilvægt og vorum við vel böðuð og að sjálfsögðu passað að við færum á salernið áður en farið var út úr húsi, alger lífsregla.

Við eigum yndislegar minningar um ömmu í Gilsárstekk, í bústaðnum Vinaminni og í Kaupmannahöfn þar sem henni leið svo vel enda sumrin mun lengri en á Íslandi. Amma kunni manna best að meta góða glætu og oft voru ermarnar brettar upp og darjeeling-bolli og kökusneið tekin úti í sólinni, þá var brosað og hlegið saman. Darjeeling-teinu kynntist hún í Indlandi. Til að missa ekki af sólargeislunum fylgdist amma vel með veðurfréttunum og var sú stund heilög. Heimilið var alltaf „spikk og span“, sem sýndi okkur mikilvægi þess að vera stolt af heimilinu okkar og halda því í besta mögulega ástandi. Dæmi um eftirminnilegar reglur eru að óvarið glas fer aldrei á tréborð og það má alls ekki vera berfættur á parketi, annars kámar maður lakkið af.

Þá var amma mjög góð í íslenskri málfræði og tók virkan þátt í að bæta hana hjá barnabörnunum. Amma var mikill heimsborgari og átti ekki í neinum vandræðum með að hlýða Jóhönnu yfir menntaskólafrönskuna og var þolinmóður og góður kennari. Hún sýndi okkur mikilvægi þess að vera skipulögð og var með gátlista yfir allt.

Auk þess að kenna okkur að fara vel með hlutina og málfræði kenndi amma okkur að meta samverustundir fjölskyldunnar. Hvort sem það var í afmælum, árlega jólaboðinu eða við útskurð laufabrauðs, sem var hluti af jólahefðunum. Alltaf var veisluborðið hlaðið kræsingum sem við minnumst með gleði í hjarta.

Ömmu Siggu verður sárt saknað, en lífsreglur hennar og minningarnar okkar um hana munu lifa með okkur ævinlega. Hún var eins og ömmur gerast bestar; kennari, vinkona og fyrirmynd.

Jóhanna Edwald,
Páll Edwald og
Erling Edwald.

Amma Sigga á ótrúlega stóran stað í hjarta okkar systkinanna og eigum við aðeins yndislegar minningar um hana.

Það var alltaf gaman að koma í heimsókn eða pössun til ömmu. Hún var alltaf í góðu skapi, afskaplega geðgóð og góðlynd.

Þegar maður mætti í Gilsárstekk 3 á sólardegi leitaði maður fyrst út í garð. Þar sat amma mikið í sólbaðsstól með blómapúða að sóla sig. Það sleikti enginn sólina eins og amma Sigga og Þorgeir Páll er svo heppinn að hafa erft það frá henni.

Þegar maður kom í heimsókn var amma Sigga fljót að bjóða upp á gos og eitthvert gotterí úr búrinu, hvort sem það var Tomma og Jenna-kex, súkkulaðifingur, súkkulaðikaka, bláber með rjóma eða ís með niðursoðnum jarðarberjum. Maður fór aldrei svangur heim frá ömmu Siggu og hún tók þá reglu með sér langt fram eftir aldri og inn á hjúkrunarheimilið.

Amma tók sérstaklega upp barnatíma fyrir okkur og merkti þá eftir hæfi hvers og eins. Einnig var hún ávallt tilbúin að spila eins marga leiki af slönguspilinu eða svarta-pétri og hægt var. Þegar við urðum eldri þá sagði hún okkur mikið af skemmtilegum sögum sem hún hafði upplifað, þar á meðal voru sögur um hvað það var alltaf vont veður í Færeyjum þegar hún og afi bjuggu þar og sögur úr seinni heimsstyrjöldinni þegar hún var ung telpa að færa Bretunum te.

Amma Sigga gaf okkur barnabörnunum sérlega mikinn tíma og mikla væntumþykju.

Hún var einstaklega góð í því að vera amma og við minnumst hennar með mikilli hlýju og góðum minningum.

Gylfi Karl Gíslason, Þorgeir Páll Gíslason og Katla Sigríður Gísladóttir.

Enn fækkar í árganginum. Í dag kveðjum við Siggu Gísla. Öll erum við komin á það aldursskeið, að það mun teljast réttlátt og rétt eftir góða og farsæla ævi. Þar var Sigga engin undantekning. Sannleikurinn er sá að þessi skólaárgangur okkar var einstaklega samheldinn og innbyrðis hlýja jókst með árunum; það mun reyndar vera margra reynsla með auknum þroska. Við vorum sem sagt vel gefin og skemmtileg, fjörleg, fyndin, trygg og gædd ótal öðrum kostum. Sumir voru gæddir einstaka kostum sem voru áberandi; þannig var Sigga til dæmis gædd ríku hugmyndaflugi og einstaklega gjöful og sennilega var hún mestur vinur sólarinnar af okkur öllum.

Fáein kveðjuorð eftir rúmlega sjötíu ára vináttu með því að rifja upp eitt af mörgum minningaleiftrum. Þau Palli áttu hús á Stokkseyri; þar var oft margt um manninn. Í einu samkvæminu berst í tal löngun húsfreyju til að fara norður á pól. Í ljós kemur að ég hef lengi alið með mér sams konar löngun – fara með Hurtigruten norður úr.

Sá galli á gjöf Njarðar, að kona mín og Palli bæði með afbrigðum sjóveik og mætti lýsa því í mörgum smáatriðum. En til að gera stutta sögu enn styttri þá stóð til að leikflokkurinn Bandamenn sýndi á leiklistarhátíðinni í Bodö og upplagt að bregða sér þaðan um borð. Nema þangað kom Sigga og við um borð á Norðurstjörnunni; þetta gerðum við með skriflegu leyfi maka okkar, sem voru alsælir að sleppa við slíka Bjarmalandsför. Og við Sigga alsæl með kampavínsskál á norðurpólnum, sem við kölluðum svo.

Eitt lítið minningabrot af ótal. Í árganginum geymum við mörg slík um leið og við kveðjum Siggu með kankvísu brosi því hún kunni að lifa lífinu skemmtilega.

Sveinn Einarsson.