Sjöfn Hólm Magnúsdóttir fæddist 24. ágúst 1937. Hún lést 12. febrúar 2024. Útför Sjafnar var gerð 23. febrúar 2024.

Í dag kveð ég með söknuði elskulega tengdamömmu mína Sjöfn Hólm Magnúsdóttur sem lést 12. febrúar sl. eftir stutt en erfið veikindi. Ég ætla samt ekki að dvelja við það heldur minnast allra gleðistundanna sem við áttum síðustu 46 árin. Hún var alltaf til í að prófa eitthvað nýtt og var yfirleitt heltekin af því sem hún fékk áhuga á og minnist ég margra góðra stunda með henni. Við fórum í ferðalög saman og eru mér efst í huga vikurnar sem við eyddum á hálendi Íslands en hún var mjög fróð um sögu landsins og var einstaklega gaman að ferðast með henni. Við fórum í golfferðir, veiðiferðir, göngur, skíði, sumarbústaðaferðir og svo mætti lengi telja. Við deildum mörgum áhugamálum eins og t.d. prjónaskap en hún prjónaði heimferðarsett á alla sína 70 afkomendur. Ég minnist allra spilakvöldanna en við gátum setið dögum saman og spilað, höfðum báðar áhuga á lestri góðra bóka og hringdumst oft á til að athuga hvað hin var að lesa eða hlusta á. Hún elskaði að ferðast um Ísland og eftir að þau Maggi fengu sér húsbíl fóru þau marga hringi um landið á hverju ári. Hún hafði mikinn áhuga á garðyrkju og blómum og veit ég að hún nýtur sín núna í blómabrekkunni, laus við öll veikindi.

Elsku Sjöfn, ég kveð þig með söknuði og takk fyrir þig og vináttu þína.

Jóna Guðjónsdóttir.